Færsluflokkur: Bloggar

Æ, látið Skálholt í friði

Á nú að fara að gera Skálholtsstað að vettvangi deilna og ófriðar?  Er ekki komið nóg af deilum og ósætti á kirkjulegum vettvangi?  Þessar hugmyndir um Þorláksbúð og endurreista miðaldakirkju á staðnum eru ekki af hinu góða.  Þegar ég fyrst sá veggi Þorláksbúðar hugsaði ég: Hvað er nú þetta? Allt á skakk og skjön við hina fögru dómkirkju? Þetta er algjört stílbrot.  Getur nánast hver sem er gert hvað sem er í Skálholti? Getur einhverjum hópi eða einstaklingi dottið eitthvað í hug og síðan leyft sér að æða með hugmyndina  fram og krefjast þess að hún verði raunverð á staðnum? Svona vinnubrögð ganga ekki. 

Ég segi, látið Skálholt í friði! Staðurinn er frábær eins og hann er og allar viðbætur og breytingar þarf að gera með aðgát og í friði.  Skálholt er ekki einungis eign þjóðkirkjunnar, hann er staður allrar íslenskrar kristni. Við sem tilheyrum fríkirkjunum eigum einnig hlut í Skálholti og þjóðkirkjumenn verða að umgangast hann með það í huga.  Allar kirkjudeildir eiga að geta komíð í Skálholt til helgihalds, menntunar, þjálfunar og til að njóta lista og það í FRIÐI og SÁTT. 

Þorláksbúðarmenn, dragið áform ykkar til baka eða finnið húsinu annan stað (í Skálholti), stað sem friður getur ríkt um, en farið ekki fram með þessu offorsi.  Og þið, sem viljið endurreisa miðaldatimburkirkjuna, þetta er óráð. Slíkt bákn myndi skemma heildarmynd staðarins og verða baggi á rekstri Skálholts.  Látið þetta mál niður falla. Við þurfum frið um Skálholt.


Kirkjurnar eru mistækar en Kristur frábær

Ég sagði mig úr þjóðkirkjunni árið 1997 þegar ég tók þátt í því að stofna Íslensku Kristskirkjuna. Ég hef ekki séð eftir því. Ég er þeirrar skoðunar að boðskapur Jesú Krists sé svo frábær að ekki megi útvanta hann eins og gert var í ríkum mæli í biskupstíð Ólafs Skúlasonar. Þá fór margt úr böndunum. Vikið var frá mikilvægum atriðum trúarinnar, ekki síst á siðferðissviðinu. Þá lagðist vetur yfir þjóðkirkjuna og enn örlar lítið á vorinu, því miður. 

Jesús Kristur er aðalatriðið, kirkjan er það ekki. Hún er "afurð" kenningar hans og lífs. Henni var falið að kynna mannkyni boðskap hans. Þar krefst Drottinn trúmennsku umfram allt. Kirkjan er ekki vettvangar alls konar tilraunastarfsemi í framanlegum kenningum. Orð Krists skulu standa, þótt skipulagi og starfsaðferðum megi breyta.

Mér er hlýtt til þjóðkirkjunnar og á þar marga góða vini, en alls konar miður góðar skoðanir -frjálslyndar, neikvætt skilið-  og sterkir straumar, sumir andkristnir í eðli sínu, leika þar lausum hala.  Þar er upplausnarástand í kenningu, siðferði og áherslum sem eru að stórskaða þjóðkirkjuna. Þjóðkirkjan þarf að fá aftur biskup og presta sem starfa í anda Sigurbjörns Einarssonar, fólk sem er trútt biblíulegri kenningu en ekki tækifærisinnaðir frjálslyndismenn. Frjálslyndi er slæmt þegar það víkur frá traustum, sígildum og góðum sannindum en gott þegar það finnur leiðir til að koma fagnaðarerindi Jesú Krists til skila til síbreytilegrar menningar.

En þjóðkirkjan ber ekki ein safnaða fingraför mistækra manna, það gera allir söfnuðir, kristnir sem og ekki kristnir. Allt mannlegt skipulag er háð stund og stað og um leið ófullkomið, einnig söfnuðurinn sem ég leiði, það játa ég án þess að hika. En aðalatriðið er þetta: Kristinn söfnuður á að vera trúr boðskap Jesú Krists og postula hans í Heilagri ritningu.  Frávik frá þeirri meginreglu kann ekki góðri lukku að stýra. Ef einhvers er þörf á okkur tímum, þá er það ný siðbót, þar sem lögð er áhersla á Ritninguna, trúna og náðina, rétt eins og siðbótarmenn 16. aldar gerðu á sínum tíma.

   


Mikið er ég þakklátur fyrir að hafa, ungur að árum, kynnst Jesú Kristi.

Ég er viss um að mitt mesta gæfuspor í lífinu var þegar elsti bróðir minn fór með mig á drengjafund í KFUM, þegar ég var 6 ára. Foreldrar mínir voru ekkert "meira" trúaðir en gerist og gengur. Mér var þó kennt að signa mig þegar ég fór í hreina nærskyrtu og fara með alþekktar barnabænir, meira var það ekki. Ég man ekki eftir því að farið væri í kirkju eða talað um trúna á heimilinu.

Séra Friðrik Friðriksson, sá mikli mannvinur og öðlingur, stofnaði KFUM hér í Reykjavík í ársbyrjun 1899. Sá mjói vísir varð upphaf blessunar fyrir marga, já þúsundir þegar tímar liðu.  Ég er einn þeirra sem nutu góðs af.  Kjarninn í boðskap séra Friðriks var persóna og kenning Jesú Krists. Nú 60 árum eftir að ég kynntist KFUM og var kennt að líta til Jesú Krists sem hins æðsta og göfugasta sem gengið hefur um þessa jörð, er ég sannfærðari en nokkru sinni að þar er grunnur hamingju minnar.

Í dag er þakklætið mér efst í huga. Mikil blessun hefur fallið mér og fjölskyldu minni í skau vegna áhrifanna frá Jesú. Það er enginn sem hann. Mannkærleikur, réttsýni, fyrirgefning, einurð, sannleikur, trú, von.... já allt þetta streymdi frá honum, og gerir enn, hann er jú upprisinn!

Ef ég á eitthvert heilræði fyrir þig sem þetta lest, þá er það þetta: Kynntu þér orð, verk og líf Jesú í einlægni og leyfðu öllu því góða sem þar er að finna að auðga líf þitt, styrkja trú þína á kærleika Guðs til þín og gefa þér  von sem nær út yfir gröf og dauða.


Eru trúmál bannvara í ríkissjónvarpinu?

Í danska ríkissjónvarpinu var nýlega fróðlegur samtalsþáttur um mikilvæg lífsgildi þar sem fulltrúar nokkurra trúarbragða ræddu málin. Af hverju eru aldrei sýndir slíkir þættir í ríkissjónvarpinu?  Trúmál eru heitu málin  og fólk vill gjarnan heyra um þau fjallað á lifandi og upplýsandi hátt.

Má ekki fjalla um slik mál í sjónvarpinu? Eru þeir sem þar ráða með fóbíu fyrir kristinni trú? Komi fyrir að fjallað sé um kristna trú í sjónvarpinu, þá eru það helst þættir sem gera trúna tortryggilega. Sýnt er frá einhverjum öfgahópum sem allir hneykslast á. Áhrifin af slíku áhorfi er þau að almenningur verður afhuga kristnum söfnuðum sem hafa sannfæringarkraft og vilja að meðlimirnir séu virkir og eigi lifandi trú.  Slíkt er talið öfgar. Það er eitthvað að okkur Íslendingum hvað þetta varðar. Við köstum barninu út með baðvatninu. Það nægir að heyra um voðaverk manna sem segjast vera "kristnir" en drepa síðan saklaust fólk. Áhrifin af slíkum fréttaflutningi er oft sú að fólk fær andúð á þeim sem vitna um trú sína og segjast vilja taka hana alvarlega. Öfgafólk, eins og norski fjöldamorðinginn Breivik er aðeins er aðeins brotabrot af þeim stóra hópi sem telur sig kristið. Mikill meirihluti þeirra sem ég þekki hér á landi, fólki sem vill lifa eftir orðum Jesú Krists, lesa Biblíuna og lifa bænalífi,  eru gott og heiðarlegt fólk. Það er fólk sem vill þjóð sinni vel og lifir heiðarlegu lífi. 

Ríkisfjölmiðlarnir hér þegja yfirleitt um kristilegt starf sem er heiðarlegt, heilbrigt og blessunarríkt en segja frá undantekningum þar sem óheilindi, hræsni eða ofbeldi finnst. Þetta finnst mér ömurlegt og oft hef ég orðið gramur yfir vondum vinnubrögðum ríkisfjölmiðilsins í þessu sambandi. Sagt er frá íþróttum, leiklist, bókmenntum lon og don, en við fáum nær ekkert að frétta af kraftmiklu og lifandi kristilegu starfi.....

Mér finnst við sem erum kristin og viljum starfa í þeim anda, eigum rétt á þvi að frá slíku starfi sé sagt í ríkisfjölmiðlunum, ekki síður en öðru sem telst mannbætandi. Við greiðum háar upphæðir til að reka ríkisútvarpið, en svo er þar ekkert sagt frá öllu þessu góða starfi!  Þetta verður að breytast. Ég hvet allt kristið fólk til að láta í sér heyra og krefjast þess að breyting verða á þessum málum.


Kynnið ykkur "guðlastslögin", þau gætu haft áhrif hér á Íslandi, ef samþykkt yrðu.

Ég rakst á mjög athyglisverða grein á vefsíðunni www.island-israel.is þar sem fjallað var um hin svokölluðu "guðlastslög" sem nú er tekist á um fyrir mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Þessi lög eru runnin undan rifjum Sádí-Araba en samkvæmt þeim má ekki gagnrýna neitt í islam nema menn kalli yfir sig refsingu.  Í Sádí-Arabíu er Kóraninn og hefðir islam (m.a. sharíalöggjöfin) grundvöllur allrar löggjafar og nánast alls sem varðar daglegt líf í öllum sínum fjölskúðugleika, allt frá stjórnmálum til þess að aka bíl og borða skinku. Margir strangtrúaðir múslimar sætta sig hvorki við gaganrýni á kenningar Kóransins né heldur lífsmátann sem af honum leiðir. Í mörgum löndum múslima er þeim harðlega refsað sem það gera.

Vegna vaxandi áhrifa múslima á vesturlöndum og hjá S.Þ. ber  æ meira á gagnrýni á lífsviðhorf og lifnaðarhætti strangtrúaðra múslima. Þetta þola Sadí Arabar og aðrar fylgiþjóðir þeirra ekki og því skal reynt að hindra slíka gagnrýni með öllum löglegum ráðum. Til þess ætla þeir að nota "guðlastslögin" verði þau samþykkt.

Ég hvet allt hugsandi fólk til að fara inn á fyrrnefnda vefsíðu www.island-israel.is og kynna sér málið.


Skyldulesning: Ævisaga Goldu Meir, fyrrv. forsætisráðherra Ísraels

Mér finnst að það ætti að vera skyldulesning allra sem fjalla um málin fyrir botni Miðjarðarhafs og deilur Ísraela og Palestínumanna að lesa þessa bók. Í ljósi þess sem ég hef kynnt mér um sögu Gyðinga síðustu 130 árin og aðdraganda þess að þeir tóku í auknum mæli að setjast að í Landinu helga, finnst mér fréttaflutningur af atburðunum þar oft einkennast af vanþekkingu og neikvæðni  í garð Ísraelsríkis. Alls konar rangfærslur eru tilfærðar og svo éta menn vitleysurnar hver upp eftir öðrum. Áróðursmeistarar sem tekið hafa stöðu "með" Palestínumönnum og "gegn" Ísrael hafa verið óhemju duglegir og mótað viðhorf mjög margra. Af þessum sökum gætir oft mikillar hlutdrægni sem gerir það að verkum að erfitt er að fjalla á hlutlægan hátt um málið. Væri ekki gott að vinna heimavinnuna og kynna sér málið svolítið betur?

Óþolandi afskipti ríkis og borgar af kristnum söfnuðum

Er það hlutverk ríkisendurskoðunar að segja biskupi þjóðkirkjunnar fyrir verkum (það eru afskipti af málum sem ríkisvaldinu kemur ekki við)?  Er það hlutverk ríkisvaldsins að taka hluta af félagsgjöldum safnaðanna og nota í eigin þágu (það heitir á einföldu máli að stela)?  Er það hlutverk borgarráðs að úthluta peningum eftir því hvaða skoðanir viðkomandi styrkþegi hefur á siðferðismálum (það kallast mismunun og brot á almannarétti)?

Þetta eru aðeins örfá ný dæmi um yfirgang opinberra yfirvalda af starfi safnaðanna.  Hvar ætlar þetta að enda?  Þau yfirvöld sem við nú höfum bæði hvað varðar ríki og Reykjavíkurborg eru andkristileg og beita söfnuðina valdi til að koma fram vilja sínum.  Þetta er ranglæti sem þjóðin þarf að vita af.


Gætum okkar á joga. Joga á ekki heima í kirkjunni.

Joga er vegur hindúanna til hjálpræðis. Líkamsæfingar þeirra eru aðeins grein á joga. Þetta veit flest fólk því miður ekki. Það heldur að jogaleikfimi sé meinlausar líkamsæfingar. En málið er ekki svo einfalt. Mjög oft fylgir jogaleikfimi möntrulestur og andleg íhugun -það er bæn hindúa. Leikfimi er ágæt, líka ýmislegt af leikfimi hindúa, og gott getur verið að gera sumar þessara æfinga sem slíkar, en sleppum andlega þættinum. Góðar leikfimisæfingar eru ágætar, en við þurfum ekki á bænum hindúa að halda. Við eigum mikli betri andlega iðkun og kristin bæn er hluti af því. Skoðaðu þjóðfélagið á Indlandi og ástandið þar. Ávöxtur hindúismans -stéttaskiptingin og mannfyrirlitningin sem þar birtist, er ekki eftirsóknarverð.

Snúum okkur að því sem við eigum og hefur reynst vel, kristin trú og bæn, síðan getum við farið í góðar leikifimiæfingar sem víða eru í boði, en látið joga og það sem því fylgir eiga sig. Ef fólk fer í jógaleikfimi, ætti það að sleppa möntrunum og ekki tengjast einhverum kosmiskum kröftum (alheimsandanum að skilningi hindúa) og láta æfingarnar duga. Annars er hætta á að maður opni sig fyrir stórhættulegum áhrifum úr andaveröld hindúismans.  Lesið hvað Gunnar Dal hefur um málið að segja í bók sinni "Að elska er að lifa", hann veit um hvað hann er að  tala og mælir ekki með joga.  


Krónan er góð ef fjármálastjórnin er í lagi

...segir Martin Wolf, aðalhagfræðingur Financial Times. Krónan er bara ávísun á verðmæti og ef við förum illa með verðmæti, fellur krónan, en ef við vöndum okkur, stundum heiðarleika, nægjusemi og dugnað, styrkist krónan. Svissneski frankinn er dæmi um þetta. Landið er lítið og fámennt en gjaldeyrir þess einn sá sterkasti í heimi. Góð fjármálastjórn er lykillinn svo og heiðarleiki almennt í viðskiptum, virkt lýðræði og góður kristinn grunnur þjóðfélagsins. Lærum af þeim.

Hvernig leysti Roosevelt vandann í kreppunni miklu?

Ég er þessa dagana að lesa ævisögu Franklins.D. Roosevelt bandaríkjaforseta eftir Gylfa Gröndal. Þar er margt lærdómsríkt að sjá. Roosevelt komst til valda á dögum kreppunnar miklu vestra og tókst að stappa stálinu í þjóðina með undraverðum hætti og reisa við atvinnulífið á tiltölulega stuttum tíma. Nú erum við Íslendingar að dragnast áfram á fjórða ári okkar kreppu og ekki er útlitið gott að mati sérfræðinga. Að sögn Morgunblaðsins flytja 5 manns úr landi dag hvern til að leita betri lífskjara annars staðar.  Þetta gengur ekki. Það verður að losa fólkið úr skuldafjötrunum annars veður hér allt í eymd og volæði næstu árin. Bankarnir eru fullir af peningum en fólkið á vonarvöl.  Svo virðist sem stjórnvöld skorti áræði til að taka vandann föstum tökum og koma atvinnulífinu í gang.  Stöðug og vaxandi skattlagning er eins og köld hönd sem lamar alla hluti og dregur kjark úr fólkinu.   

En aftur að Roosevelt. Væri ekki gagnlegt fyrir ríkisstjórnina að lesa bókina hans Gylfa og rifja upp til hvaða ráða forsetinn greip til að leysa vandann? Hann gekk rösklega til verks og lét ekki harðsvíraða stóreignamenn stoppa sig. Hann hóf margvíslegar framkvæmdir og lögleiddi bætur til atvinnuleysingja og fátækra fjölskyldna. En hann lét fólkið líka vinna þjóðhagslega atvinnubótavinnu svo að það sæti ekki heima í eymd og volæði. Hann setti einnig ný lög varðandi iðnað og viðskipti sem komu að miklu gagni við að stöðva kreppuna.

Hér er ekki rúm til að endursegja ævisögu Roosevelt, en þið stjórnmálamenn, útvegið ykkur þessa bók og lesið ykkur til gagns. Kannski er þar að finna góðar hugmyndir til lausnar vandans sem við nú stöndum í.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Friðrik Schram

Höfundur

Friðrik Agnar Ólafsson Schram
Friðrik Agnar Ólafsson Schram
Guðfræðingur og prestur Íslensku Kristskirkjunnar
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • fridrikschram 1125153.gif

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 6725

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband