Færsluflokkur: Bloggar

Hefur þú verið “down”?


En hvað gerir þú þegar þú ert leiður og niðurdreginn? Dregur þig hlé? Ferð minna út á meðal fólks og leyfir þér kannski að vera heima og láta vita að þú sért “lasinn”? En það er skammgóður vermir. Þegar ég er að tala um að vera þungur í skapi og niðurdreginn, þá á ég ekki við alvarlegt þunglyndi, við því þurfum við að leita læknis. Nei, ég meina svona almenna vanlíðan þegar lífið gengur ekki eins og við höfðum vonað, t.d. þegar við eigum tæpast fyrir skuldum, þegar okkur er sögð upp vinnan, þegar við missum ástvin, eða bara þegar okkur verður sundurorða við einhvern annan eða verðum fyrir vonbrigðum með framkomu hans.

Ein mikilvægasta þörf kristins trúaðs fólks (ekki síst þegar maður er “down”) er að vera innan um annað kristið fólk þar sem maður fær tækifæri til að tala saman, lofa Guð saman, biðja saman og hlusta á uppövandi boðskap úr Orði Guðs. Það að VERA SAMAN er mjög mikilvægt. Þannig rýfur maður eingangrun sína, beinir athyglinni frá eigin vanlíðan og að einhverju góðu og uppörvandi. Það lyftir manni upp. Maður er manns gaman.

Ég hvet þig, sem líður illa vegna einhverrar erfiðrar reynslu, þig sem ert hnugginn og vonsvikinn, að einangra þig ekki. Farðu í samfélag trúaðra, fáðu fyrirbæn, taktu þátt í lofgjörðinni. Gefðu af þér og gleddu aðra með brosi og hlýju handtaki, einmitt þegar þér finnst þú ekkert hafa að gefa! Ef við gefum örðum eitthvað gott, þá fáum við eitthvað gott! Þannig er það í Guðs ríki. Gefið og yður mun gefið verða, sagði Jesús; og það á líka við jákvætt viðmót og uppörvandi orð.

Lokaorð: Ekki loka þig af. Taktu þig taki. Farðu innan um gott fólk. Gefðu af þér (í trú að þú fáir eitthvað gott í staðinn). Taktu ákvörðun um að vera glaður –vegna Drottins, vegna þess að hann elskar þig, er hjá þér og vill hjálpa þér.


Manstu þegar þú.....?



Já, manstu þegar þú mættir Guði í fyrsta sinn, þegar þú fannst snertingu hans? Kannski var það þegar þú frelsaðist, eða við ferminguna þína þegar þú játaðir það að vilja hafa Jesú Krist sem leiðtoga lífs þíns....? Eða þegar þú hafðir fjarlægst Guð og fannst þú vera misheppnuð/aður og taldir að hann hefði ekki lengur vanþóknun á þér, en þá heyrðir þú um kærleika hans og vilja til að fyrirgefa þér....? Já, manstu þetta? Þá varpaðir þú þér í fang hans og þú FANNST kærleika hans og fyrirgefningu. Mörg eigum við slíkar minningar, en kannski er langt um liðið og fennt í sporin? En þegar atburðurinn átti sér stað (forðum daga), þá varst þú ekkert nema einlægnin, og upplifunin af snertingu og kærleika Guðs svo sterk og raunveruleg. Mig langar að spyrja þig: Átt þú enn vissuna um að það var góður Guðs sem snerti við þér, tók við þér, fyrirgaf þér og blessaði þig....? Eða ertu kannski farin/inn að efast...? Ertu hugsanlega farin/inn að telja þér trú um að þetta hafi bara verið barnaskapur og tilfinningasemi? Að þetta hafi, þegar öllu er á botninn hvolft, ekki verið Guð, heldur þínar eigin ímyndanir og tilfinningar? Af hverju ættir þú að hugsa þannig? Er djöfullinn e.t.v. að reyna að ræna þig blessuninni og góðu minningunum sem Guð ætlaði þér að varðveita sem fjársjóð til að láta endast allt lífið og minna þig á elsku hans og trúfesti?

Sjálfur á ég nokkrar slíkar dýrmætar minningar sem ég rifja upp af og til, minningar sem eru mér meira virði en flestar aðrar. Ég ætla ekki að láta djöfulinn ræna mig þeirri blessun. Hann skal ekki geta talið mér trú um að það sem þá gerðist hafi verið hugarburður og upplifun sem bara byggðist á stemmingu líðandi stundar, nei, takk! Þessar dýrmætu minningar mínar ætla ég að varðveita í hjarta mér (og heila!) meðan ég hef vit og heilsu til. Þær eru mér sönnun þess að Guð faðir elskar mig og er virkilega annt um mig. Ég er honum kær sonur sem hann hefur velþóknun á. Velþóknun Guðs byggist ekki á einhverjum mannlegum verðleikum hjá mér, ef svo væri, gæti ég átt von á því að hann snéri sér að öðrum þegar ég gerði mistök og ylli honum vonbrigðum. Nei, þannig er Guð ekki. Hann elskar án skilyrða. Úff! hvílíkur léttir, að ég skuli ekki þurfa að koma mér í mjúkinn hjá honum með “góðri” frammistöðu.... þó að hún í sjálfu sér spilli ekki.

En aftur að því sem ég var að tala um: Góðu minningunum, -minningunum um það þegar Guð gerði eitthvað mjög sérstakt í lífi þínu. Rifjaðu það upp. Skrifaðu það hjá þér (þá getur þú betur rifjað það upp!). Mundu: Guði þykir vænt um þig og hann mætti þér á þann hátt sem hentaði þér. Og hann vill að þú rifjir það upp og minnir þig á að hann elskar þig enn og er ennþá með þér til að blessa þig og gera þig að blessun fyrir aðra.

Trúin eykur geðheilbrigði og lífshamingju

Hvernig? Heilbrigð iðkun trúarinnar veitir:

1. ...heilbrigða sjálfsmynd sem styrkist af þeirri vissu að ég er skapaður af góðum Guði og vel gerður af  hans hendi, enda skapar hann ekkert vont eða misheppnað.

2. ....heilbrigða mynd af Guði -en Jesús hefur gefið okkur hana. Í Jesú Kristi sjáum við hina réttu mynd af Guði, þar kynnumst eðli hans, hugarfari hans og viðhorfi til okkar, syndugra manna, en það einkennist af skilyrðislausum, fyrirgefandi kærleika og velþóknun.

3. ....vissu um að Guð fyrirgefur okkur syndir, mistök og vanrækslu (ef við iðrumst!). Fyrirgefning Guðs veitir innri frið og góða samvisku (á ný) sem hrekur burt kvíða, áhyggjur, vanmetakennd, skömm og margar aðrar vondar tilfinningar. Við verðum sátt við Guð.

4. ....sátt við annað fólk. Það að Guð fyrirgefur mér, hvetur mig til að fyrirgefa þeim sem mér finnst hafa gert á minn hlut. Þegar ég hætti að ásaka aðra, þá "sleppi" ég þeim og læt af biturð og vondum hugsunum. Einnig það veitir innri frið og jafnvægi og í slíkum jarðvegi vex gleðin hröðum skrefum.

5 ....hvíld og slökun.  Í Biblíunni merkir orðið friður (shalom) jafnvægi krafta þar sem allt vinnur saman að árangri (í stað togstreitu). Friður Guðs er virkur, uppbyggjandi friður en ekki hugsunarlaust aðgerðarleysi eða hlé á átökum.  Afleiðing af friði Guðs er jafnvægi í líkama og sál og velgengni í lífinu.

Þetta er reynsla mín. Ég hafði vanmetakennd, var kvíðinn og reiður, en svo kom Guð inn í  líf mitt með sannleikann (frá Kristi) sem gerði mig frjálsan. Meiriháttar!  Ég mæli með því að þú prófir það líka. 


Tjáningarfrelsið í hættu?

Er Baldur Kristjánsson, prestur, orðinn mælikvarði Evrópuráðsins á það hvað leyfilegt er að segja hér á landi um menn og málefni? Mér finnst hann, þessi fyrrum skólabróðir minn í guðfræðideild,  vera farinn að setja sig á all háan hest, ef marka má ummæli hans um tjáningarfrelsið á bloggsíðu hans á Eyjunni (titill: "Tjáningarfrelsi böðulsins").  Hann er, að því er mér skilst, fulltrúi Íslands í nefnd á vegum Evrópuráðsins sem standa á vörð um réttindi minnihlutahópa og gæta þess að enginn verði fyrir skorti á umburðarlyndi (hvernig sem það nú er hægt).

Mér finnst skrif hans um þessi mál gefa í skyn að sumir megi segja sína skoðun (þar á meðal hann og hans skoðanabræður) á framkomu og orðum annarra, en tæplega þeir sem eru annarrarr skoðunar. Sé svo, þá er í illt efni komið. Yfirvöld verða að gæta þess hvers konar fulltrúa þau velja í eins vandasamt starf og það að standa vörð um tjáningarfrelsi og mennréttindi. Það verður að vera aðili sem skilur afstöðu og viðhorf allra vel þenkjandi manna sem vilja tjá sig um lifað líf á okkar tímum.  Hann má sjálfur ekki hafa fordóma í garð þeirra sem hann er ósammála, því að þá hefur málið (mennréttindi allra) snúist upp í andhverfu sína, þá er sumum mismunað í þágu annarra. Það eru ekki mannréttindi heldur hlutdrægni.


Geirsmálið: Annað hvort öll eða enginn

Það hefði átt að samþykkja vítur á fjórmenningana -ráðherrana sem brugðust því að vernda okkur almenning gegn yfirstandandi bankahruni og láta það duga. Allt þetta dýra og fráleita dómsmál gegn Geir hefur kostað allt of mikla peninga, fyrirhöfn og deilur. Það hefði átt að víta ráðherrana og banna þeim afskipti af stjórnmálum í ákveðið langan tíma eftir það.  Það hefði verið lang einfaldast og áhrifaríkast.  Það hefði líka haft mikinn fælingarmátt fyrir aðra því að hvaða stjórnmálamaður vill láta víta sig opinberlega og fá á sig bann? Örugglega enginn.

En hvað um það, mér finnst ekki rétt að dæma Geir sekan ef mál hinna verða ekki einu sinni rannsökuð fyrir rétti. Það er ekkert réttlæti í því. Auðvitað er Geir sekur um vanrækslu og að draga fæturna í málinu og líka hinir þrír ráðherrarnir. Þetta fólk vissi í hvað stefndi en gerði ekkert róttækt til að afstýra hruninu. En að draga einn fyrir rétt, og hugsanlega dæma hann, en sleppa hinum, gengur ekki.


Stjórnmál í Noregi og á Íslandi -tvennt ólíkt

     Grein Árna Pálssonar, fyrrv. ráðherra, í Fréttablaðinu í dag er mjög athyglisverð. Hann segir að stjórnmálaflokkar í Noregi, með andstæðar skoðanir, reyni að forðast að taka ákvarðanir í mikilvægum málum með naumum meirihluta (á Stortinget).

     Hér er á Íslandi hundsa stjórnmálaflokkarinir hins vegar oftast hver annan og knýja fram sinn vilja gegn skoðunum "andstæðinganna", oft með naumum meirihluta.... Þegar svo "andstæðingurinn" kemst í meirihluta, þá snýr hann málinu við og knýr fram andstæða stefnu og þá gjarnan líka með mjög naumum meirihluta. Þetta verklag veldur árekstrum og óvild andstæðra fylkinga og fólk almennt fær óbeit á stjórnmálum.
     Almenningur krefst þess nú að þingmenn leiti oftar málamiðlana í þágu þjóðarinnar en keyri ekki fram einstrenginslega stefnu síns flokks á kostnað hagsmuna heildarinnar.

Væntanlegt biskupskjör

Þjóðkirkjan þarf á traustum og friðsömum manni að halda í biskupsembættið.  Nóg er komið af átökum. Leggja verður til hliðar deilur um hjúskap og stöðu samkynhneigðra, feminisma og önnur slík tískufyrirbæri. Kirkjan hefur mikilu mikilvægara hlutverki að gegna en að standa í baráttu fyrir minnihlutahópa sem vilja fara annarlegar leiðir og berjast fyrir hlutum sem sum eru í andstöðu við kristna og biblíulega siðfræði og mynd fjölskyldunnar.  Nú þarf aðila sem finnur leiðir til að vekja aftur traust fólks á kirkjunni með friðsamlegri, framsækinni og traustvekjandi framkomu.  

Deilur um alls konar pólitísk efni og hamagangur til að koma fram einhverjum sérhagsmunamálum kemur ekki að gagni við útbreiðslu trúarinnar. Nú þarf nýtt átak til boðunar hinna sígildu og sönnu grunnatriða trúarinnar -kjarnatriðið sjálfs fangaðarerindinsins um að Jesús er frelsari frá synd og dauða og sá sem kallar okkur til helgunar og til að vera útrétt hönd til friðar og kærleiksverka.  


Nú er þörf á trúvörn kristinna manna, enda hafa árásar á þá og kristna trú farið yfir strikið

Í ljósi afhjúpunar þeirrar sem Morgunblaðið  framkvæmdi á vinnubrögðum og ljótu orðbragði Vantrúar er ljóst, að kristnir menn geta ekki látið allt yfir sig ganga.  Lengi hafa þeir sýnt mikið langlundargeð við árásum á trúna og það sem þeim er heilagt.  Lengi hafa ýmis skáld, leikarar, fræðimenn, stjórnmálamenn og annað áhrifafólk í ýmsum stéttum kastað skít í trú okkar kristinna manna og talið sig meiri menn fyrir bragðið.  Í reynd hafa þeir hins vegar sýnt hugleysi með þessu, vegna þess að þeir vissu að kristnir söfnuðir myndu seint grípa til vopna og verja sig.  Margir hafa talið sig hafa efni á að gera helga dóma kristninnar að aðhlátursefni í augum þjóðarinnar og það í sjálfu ríkissjónvarpinu.  Þetta er sorglegt og ekki til sóma. Á þessu þarf að verða breyting og eins þarf ríkisfjölmiðillinn að gefa þjóðinni frekari upplýsingar um hið fjölbreytta krisntihald sem er í gangi í hinum ýmsu söfnuðum.,Það er ekki nóg að vita allt um enska boltann, fólk vill líka vita hvað er að gerast á sviði heilbrigðrar trúar meðal hinna mörgu kristnu safnaða.

Það að hæða og spotta helga trú er engum til góðs. Það mun óhjákvæmilega rýra gildi kristninnar í augum margra sem þekkja lítið til hlutanna. Það virðist því miður vera markmið sumra. Fjölmiðlar ræða um þessar mundir um lélegt siðferði unga fólksins okkar -lauslæti, ótímabærar þungarnir, fýkniefnaneyslu o. fl. Ef við gerum trúna tortryggilega og hlægilega, þá mun unga fólkið snúa við henni baki. Mun það verða til góðs? Nei. Mér finnst menn varða að gæta orða sinna og athafna þegar þeir gagnrýna okkar heilögu trú. Ef unga fólkið þarfnast einhvers góðs í nestið fyrir framtíðina þá er það boðskapur Jesú Krists.  Hver hefur frekar hvatt til kærleika, miskunnsemi og virðingar fyrir manneskjunni og sýnt það með lífi sínu? Ef þú veist um einhvern annan, láttu mig þá vita. 


Ítalska þingið: Islam getur ekki kallast viðurkennd trúarbrögð þar í landi

Ég frétti í gær að þann 27 ágúst 2010 hafi gerst ótrúlega mikilvægur hlutur sem að mestu fór framhjá fjölmiðlunum. Ítalska þingið komst að þeirri niðurstöðu   að  islam - ,,sé stjórnmálahreyfing sem býr ekki   yfir  grundvallar mannréttindum, siðfræði og gildum  og fullnægi ekki þeim SKILYRÐUM, SEM VIÐURKENND TRÚARBRÖGÐ búa yfir og á því ekki rétt á þeim styrkjum sem viðurkennd trúfélög njóta á Ítalíu.“

Þessi frásögn, sem AKI Italiano, sagði fyrst frá, bendir til þess að ítalska stjórnin beitti raunsæi og heilbrigðri skynsemi til að komast að þessari mikilvægu niðurstöðu. 

Samkvæmt úrskurðinum, er fyrirstaðan fyrir því að islamstrú verði viðurkennd á Ítalíu þessi: "...róttækir imamar, fjölkvæni og skortur á því að styðja kvenréttindi meðal múslímskra innflytjenda".  Þetta er svo sannarlega umhugsunar- og eftirbreytnivert.


Aðventan byrjar -hvaða þýðingu hefur Jesús Kristur fyrir samtímann?

Mikla!  Í stuttu máli sagt hefur ENGINN trúabragðahöfundur flutt eins frábæran boðskap og hann og verið eins mikill mannvinur og hann.  Samt förum við hjá okkur þegar nafnið hans er nefnt, nema það sé sagt í hálfkæringi eða notað sem vandlætingar upphrópun. Það er  kominn tími til að áhrifamenn, og reynar allir, fari að líta í Nýja testamentið og lesa sig til, rifja upp orð og verk þessa dásamlega manns.

 Menning okkar, ekki síst sú sem kemur frá enskumælandi löndum, ber mörg merki áhrifa orða Jesú. Þetta sjáum við í kvikmyndum, fyrirsögnum blaða, texta skáldverka og meira að segja í ræðum stjórnmálamanna, jafnvel íslenskra!   En væri ekki vit í því að fletta upp í frumheimildinni, bæði til að fara rétt með og eins til að vita í hvaða samhengi þessi orð hans voru upphaflega sögð. Hægt er að kaupa sér Orðalykil að Biblíunni og finna alla þessa staði (orð og orðasambönd) til að finna hvar þau standa og rifja þau upp.

Ég hvet alla, já ALLA, til að nota aðventuna til að taka sér Nýja testamentið í hönd og rifja upp söguna um Jesú. Þetta er rétti tíminn.  Lestu eitt guðspjallanna, t.d. Lúkas eða Jóhannes, og þú verður margs vísari og munt eflaust undrast hvað þetta er athyglisverð lesning og hvað Jesús hefur verið einstakur og frábær  á allan hátt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Friðrik Schram

Höfundur

Friðrik Agnar Ólafsson Schram
Friðrik Agnar Ólafsson Schram
Guðfræðingur og prestur Íslensku Kristskirkjunnar
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • fridrikschram 1125153.gif

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband