Færsluflokkur: Dægurmál

Hátíð vonar

Þegar maður horfir yfir árið sem nú er að renna sitt skeið á enda er manni þakklæti efst í huga. Þakklæti fyrir það sem hefur vakið von og bjartsýni. Þar stendur hæst Hátíð vonar í Laugardalshöll. En fleira hefur vakið von. Þegar bankarnir hrundu og þjóðfélagið fór á hliðina haustið 2008 gerði margt kirkjufólk ráð fyrir því að almenningur myndi snúa sér að trúnni og fjölmenna í kirkjurnar til að leita eftir huggun og uppörvun. Það gerðist hins vegar ekki. Í stað þess urðu margir reiðir og vonsviknir og hugur þeirra varð upptekinn af því neikvæða sem gerst hafði. Það er reyndar ekki undarlegt þótt fólk yrði reitt og vonsvikið. Mjög margir töpuðu nær öllu sínu sparifé, aðrir misstu íbúðir sínar og fyrirtæki. Margir sem misstu vinnuna urðu að flýja land og leita atvinnu erlendis. Allt þetta reyndi mjög á þjóðina. En þótt þessar öldur reiði ýfðu yfirborðið, þá hvarf trúin ekki úr hjörtum fólksins. Á Hátíð vonar kom í ljós að mjög margt fólk var opið fyrir boðskap Jesú Krists. Eins heyrast nú æ fleiri raddir sem líkar ekki andófið gegn kristinni trú sem mikið hefur borið á í þjóðfélaginu og sem m.a. birtist í aðgerðum borgarstjórnar Reykjavíkur (sérstaklega hvað varðar grunnskólana). Fólk finnur og veit að trúin á Jesú Krist er sú kjölfesta og vegvísir sem þjóðin þarfnast. Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, flutti góða ræðu á síðata kirkjuþingi þar sem hún minnti á þessa hluti. Mætur skólamaður tók í sama streng í fjölmiðlum fyrir nokkrum dögum. Ég held að þjóðin sé aftur að vakna til vitundar um gildi kristinnar trúar. Það vekur von. Við horfum fram á nýtt ár -2014- með von í hjarta. Það er greinilega hugur í ýmsum prestum og safnaðarleiðtogum, ekki síst þeim sem stóðu að og tóku þátt í Hátíð vonar. Nú þurfum við að vinna vel, vanda okkur og bregðast hvorki Guði né þjóðinni hvað það varðar að finna leiðir til að flytja henni það besta sem við eigum –trúna á Jesú Krist. Í september n.k. verður Kristsdagur í Reykjavík. Hann er hátíð fyrir allt kristið fólk sem vill sameinast um að hefja nafn Drottins á loft og minna þjóðina á kærleika Guðs eins og hann birtist í Jesú Kristi. Stöndum saman um þann mikilvæga atburð og látum ljós Krists skína gegnum líf okkar og söfnuði okkar, þjóðinni til blessunar svo að hér verði kristin trúarvakning.


Taktu ekki mark á heilanum...

....að minnsta kosti ekki alltaf. Hann er eins og súpertölva sem geymir ótrúlegustu hluti, bæði góða og slæma, gagnlega og ónothæfa. Heilinn er eins og tölva sem sendir alls kyns upplýsingar á vitundarskjáinn þinn –hugann.

Þér koma alls konar hlutir í hug, sumir góðir og ganglegir, en en líka aðrir sem þú ættir þegar í stað að senda í ruslakörfuna. Við höldum gjarnan að það sem kemur í huga okkar hljóti að vera sannleikanum samkvæmt, en það er ekki alltaf svo. Stundum detta okkur í hug hlutir sem eru vafasamir og einfaldlega rangir. En hvernig eigum við að átta okkur á hvað gera skuli við hugsanirnar sem “birtast á skjánum”?

Skoðum málið aðeins betur. Þú upplifir sjálfan þig sem “ég”. Þú hefur vitund sem skynjar að þú ert þú. Þú ert ekki einhver annar. Þú hefur tilfinningu fyrir því að vera til. Þú hugsar, ályktar, tekur ákvarðanir og framkvæmir. Hvað er þetta “ég” í okkur? Hvað er þessi hugur okkar sem hefur vitund um að “ég” er til? Það er andinn sem í þér er. Hann er frá Guði, eilífur og einstakur. Það er hann sem á að meta allt sem heilinn í þér leggur fyrir þig, bendir þér á og stingur uppá. Þess vegna eigum við ekki að verða áhyggjufull þótt heilinn bendi okkur á ýmsan vanda sem hann kallar fram af “harða diskinum” í okkur.

Heili margra er uppfullur af alls konar misskilningi, röngum upplýsingum, vantrú og vanþekkingu. Og vegna þess að margir halda að þessar hugsanir eigi að taka alvarlega, þá taka þeir margar rangar ákvarðanir, segja og gera margt vitlaust sem skaðar sjálfa þá og aðra. Allt sem heilinn í okkur sendir inn á “skrifborðið” okkar eða birtir á “skjánum” okkar þarf hugurinn, andi okkar, upplýstur af Heilögum anda og Orði Guðs, að meta, hvort sé gagnlegt og gott eða slæmt og ónothæft.

Við megum ekki láta stjórnast af hinu og þessu sem okkur kemur í hug, þá er hætt við því að “holdið” hafi stjórnina. Heilinn er bara eins og tæki, tölva, sem geymir fullt af upplýsingum, en hann kann ekki alltaf að vinna rétt úr þeim. Það er hlutverk andans, hugarins, já, “þín” að gera. Með því að láta andann í okkur hafa síðasta orðið, getum við strax afgreitt út af borðinu ýmislegt sem ekkert vit er í að hugsa frekar um eða framkvæma.

Páll postuli ráðleggur okkur í Rómverjabréfinu (12:2) að taka upp breytt líferni með því hugsa öðruvísi en við vorum vön, og þá munum við fá að skilja hvað Guð vill að við gerum, allt það sem er gott, fagurt og fullkomið. Það er til mikils að vinna!


Steinasafn á Teigarhorni

Það er ánægjulegt að steinasafnið á Teigarhorni sé enn starfandi. Ég kom þarna við fyrir nokkrum árum og fékk að skoða steinasafnið sem þar var í einu útihúsanna. Þar voru margir glæsilegir steinar, einkum geilsasteinar.  Síðar frétti ég að einhver hvefði brotist inn í safnið (enginn bjó þá á staðnum) og stolið fallegustu steinunum, hugsanlega einver erlendur ferðamaður sem  síðan fór með steinana úr landi.  

Ég þarf að fara árlega austur á Hérað og ek þá gjarnan framhjá Teigarhorni. Ég hlakka til að koma þarna við á ný og skoða nýjustu safngripina. 


mbl.is Stór geislasteinn á Teigarhorni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vatnsgrautarkærleikur

Fróður maður sagði mér um daginn að móðir hans hefði kallað það vatnsgrautarkærleika þegar menn þyrðu ekki að vara fólk við hættulegum hlutum af ótta við að vera taldir neikvæðir og dæmandi í augum fjöldans.  Mér finnst mikið um þetta meðal okkar kristinna manna í dag. Sumt kristið fólk lítur svo á að við megum ekki vara við veraldarhyggjunni, fráfallinu frá trúnni, siðferðishruninun og áhrifum ekki-kristinna trúarbragða sem nú leita hingað.  Það má ekki fæla fólk frá trúnni með neikvæðri gagnrýni, segir þetta fólk, heldur á kirkjan að vera jákvæð og umburðarlynd, brosa bara og vera elskuleg –eins og hjónin í sögunni um Biedermann og brennuvargana. Mig minnir að þau hafi jafnvel lánað brennuvörgunum verfæri til að kveikja í húsinu þeirra, og það af einskærri góðvild og elskulegheitum!

 

Spámannleg rödd varar við. Það að þegja um yfirvofandi hættu er svik við sannleikann og kærleikann. Kristið fólk þarf og á að fletta ofan af illskunni, það er boðskapur postulans. Jesús varaði við “súrdeigi” farísea og saddúkea (röngum kenningum þessara manna). Okkar skylda er líka að vara við, annað er vatnsgrautarkærleikur.

 

Vitaskuld eigum við að gera allt í kærleika, ekki í reiði og biturð. Við eigum að vera spámannleg rödd í þjóðfélaginu og kirkjunni og tala óttalaust.   Hvaða máli skiptir þótt einhverjir hreyti í okkur ónotum þegar við vörum við? Sé málstaður okkar góður og hjarta okkar hreint (laust við reiði og illsku) og fullt samúðar og hryggðar vegna ranglætisins, þá eigum við að láta í okkur heyra. Ef við vörum ekki við, þá lendir dómurinn á okkur sjálfum og fólk mun spyrja: “Af hverju sagðir þú mér þetta ekki, af hverju varaðir þú mig ekki við, þú vissir um hættuna og skildir að við vorum í stórhættu!”

 

Drottinn er upprisinn frá dauðum og stiginn upp til himna. Nú hefur ekki aðra boðbera á jörðu en þig og mig.  Tölum, vörum við og hvetjum fólk til að leita Drottins meðan enn er náðartíð, það kemur nefnilega að því að ógæfan dynur yfir ef við sjáum ekki að okkur. Biðjum að til þess þurfi ekki að koma.


Aftur á byrjunarreit!

Þessi orð komu mér í hug þegar ég var á heilsubótargöngu í Elliðaárdalnum í morgun. Málið er að oft hefur maður ætlað að vera duglegur og fara út að ganga eða hjóla –gera það að reglu- en svo hafa þau góðu áform riðlast og minna orðið úr en til stóð. Hver kannast ekki við það? En þegar maður svo hefur sig af stað og byrjar aftur að hreyfa sig eftir svo eða svo langt hlé, þá finnur maður hvað hreyfingin er góð. Hættan er sú að þegar maður fer að slá slöku við, þá komist maður bara alls ekki aftur af stað. Maður segir við sjálfan sig: “Það þýðir ekkert að vera með þessi áform um reglulega hreyfingu, þau fara öll í vaskinn!” og svo hættir maður bara að hreyfa sig og verður stirður og þunglamalegur! Nei, nei, það má ekki gerast. Ef maður hefur trassað hið góða, hvað sem það er, þá er um að gera að fara aftur á “byrjunarreitinn” ....taka sig taki og byrja aftur. Er á meðan er.

Ég held að lífið sé þannig hjá flestum að það gengur í bylgjum. Stundum er maður duglegur og í framhaldi af því ánægður og líður vel og stundum óduglegur (kærulaus um góðar lífsvenjur) og þá leiður og kannski með samviskubit. En við megum ekki vera of hörð við okkur sjálf. Í Biblíunni segir að Guð minnist þess að við erum mold (veikleika vafin) og Jesús sagði: “Andinn er að sönnu reiðubúinn, en holdið er veikt.” Við höfum öll góð áform, en svo verður stundum (oft!) minna úr en til stóð í byrjun. Hvað eigum við þá að gera? Þá er um að gera að fara aftur á upphafsreitinn og byrja upp á nýtt. Þetta á við allt gott í lífinu, reglusemi hvers konar
–næringu, hvíld, ástundun vinnunnar, það að lesa Biblíuna, fara í kirkju, eiga persónlegar bænastundir o.s.f. -allt þetta sem gerir lífið betra.

Ég talaði í morgun við mann sem hefur ekki komið í kirkjuna í nokkra mánuði. Hann ætlaði sér ekki að vanrækja trúarsamfélagið af ásettu ráði, en það var svo mikið að gera að hann tók að sér vinnu “sýknt og heilagt” (bæði helga og virka daga) og svo duttu kirkjuferðirnar bara upp fyrir :-( En hann sagði, “Nú ætla ég að fara koma aftur í kirkjuna.” Batnandi manni er best að lifa, segi ég. Ekki missa móðinn þótt þú hafir slakað á, taktu þig bara á og byrjaðu aftur á því sem gott er. Þá er allt á góðri leið á ný.


Sirrý hittir naglann á höfuðið


Ég hlustaði í morgun, eins og oft áður, á fréttaþáttinn â€œÍ bítið” á Bylgjunni. Þar var fjölmiðlakonan Sirrý (Sigríður Arnardóttir) í viðtali hjá Heimi og Kollu. Tilefnið var nýútkomin bók eftir Sirrý sem heitir “Laðaðu til þín það góða”. Afskaplega var ánægjulegt að hlusta á viðtalið við Sirrý. Hún lagði áherslu á jákvætt lífsviðhorf eins og þakklæti, bjartsýni, marksækni og almenna manngæsku. Það eina sem ég saknaði var að hún talaði um Jesú Krist! Í honum finn ég uppsprettu alls þess jákvæða sem hún var að tala um. Kannski hefur hún fundið þessi auðævi við að lesa Nýja testamentið...? Hver veit?

En hvað um það, hvatning hennar til hlustenda að vera þakklátir var frábær. Þakkaðu fyrir að geta dregið andann, þakkaðu fyrir ferska loftið (þótt stundum blási!), þakkaðu fyrir að þú skyldir geta farið á fætur í morgun, klætt þig og farið út, þakkaðu fyrir að eiga vini og svo margt annað.... Já þakkarefnin eru óteljandi. Við þurfum að temja okkur jákvæðan lífsstíl, sagði hún, ekki lifa í “holræsunum” –þ.e. vera sífellt kvartandi og möglandi, niðurdregin og svartsýn.... Það er svo margt gott til og ef við miðlum því góða, þá löðum við að okkur hið góða. Bros kallar á bros. Hlý orð vekja jákvæðni. Að fá er ávöxtur þess að gefa. Jesús orðaði það þannig: Gefið og yður mun gefið verða.

Við minntumst upprisu Jesú á nýliðnum páskum og Páll postuli hvetur okkur til að minnast Jesú Krists aftur og aftur, hans sem reis upp frá dauðum. Það er skynsamlegt að vera þakklátur og jákvæður, bæði fyrir okkur sjálf og aðra. Líkami okkar framleiðir hvatann serótónín ef við erum jákvæð og glöð, en áhyggjur, kvíði og neikvæðni eyða því efni. Okkar er valið. Þannig séð er gæfa okkar á okkar eigin valdi. En lífsgleðin, jákvæðnin og upprisukrafturinn sem við sjáum hjá Jesú margfaldar þessi jákvæðu viðhorf hjá okkur. Kristið fólk er (eða hefur allar ástæður til að vera) “the happiest people on earth”. Hvað með þig og mig? Okkar er valið. Forsendan er fyrir hendi: við erum sköpuð af góðum Guði og eigum dásamlegan frelsara. Kristinn maður getur ekki annað en brosað við tilverunni. Stundum gleymum við okkur í mótbyr lífsins, en svo hrökkvum við “í gírinn” og minnumst þess að Guð er bara góður og lífið er dásamlegt.


Geirsmálið: Annað hvort öll eða enginn

Það hefði átt að samþykkja vítur á fjórmenningana -ráðherrana sem brugðust því að vernda okkur almenning gegn yfirstandandi bankahruni og láta það duga. Allt þetta dýra og fráleita dómsmál gegn Geir hefur kostað allt of mikla peninga, fyrirhöfn og deilur. Það hefði átt að víta ráðherrana og banna þeim afskipti af stjórnmálum í ákveðið langan tíma eftir það.  Það hefði verið lang einfaldast og áhrifaríkast.  Það hefði líka haft mikinn fælingarmátt fyrir aðra því að hvaða stjórnmálamaður vill láta víta sig opinberlega og fá á sig bann? Örugglega enginn.

En hvað um það, mér finnst ekki rétt að dæma Geir sekan ef mál hinna verða ekki einu sinni rannsökuð fyrir rétti. Það er ekkert réttlæti í því. Auðvitað er Geir sekur um vanrækslu og að draga fæturna í málinu og líka hinir þrír ráðherrarnir. Þetta fólk vissi í hvað stefndi en gerði ekkert róttækt til að afstýra hruninu. En að draga einn fyrir rétt, og hugsanlega dæma hann, en sleppa hinum, gengur ekki.


Stjórnmál í Noregi og á Íslandi -tvennt ólíkt

     Grein Árna Pálssonar, fyrrv. ráðherra, í Fréttablaðinu í dag er mjög athyglisverð. Hann segir að stjórnmálaflokkar í Noregi, með andstæðar skoðanir, reyni að forðast að taka ákvarðanir í mikilvægum málum með naumum meirihluta (á Stortinget).

     Hér er á Íslandi hundsa stjórnmálaflokkarinir hins vegar oftast hver annan og knýja fram sinn vilja gegn skoðunum "andstæðinganna", oft með naumum meirihluta.... Þegar svo "andstæðingurinn" kemst í meirihluta, þá snýr hann málinu við og knýr fram andstæða stefnu og þá gjarnan líka með mjög naumum meirihluta. Þetta verklag veldur árekstrum og óvild andstæðra fylkinga og fólk almennt fær óbeit á stjórnmálum.
     Almenningur krefst þess nú að þingmenn leiti oftar málamiðlana í þágu þjóðarinnar en keyri ekki fram einstrenginslega stefnu síns flokks á kostnað hagsmuna heildarinnar.

Væntanlegt biskupskjör

Þjóðkirkjan þarf á traustum og friðsömum manni að halda í biskupsembættið.  Nóg er komið af átökum. Leggja verður til hliðar deilur um hjúskap og stöðu samkynhneigðra, feminisma og önnur slík tískufyrirbæri. Kirkjan hefur mikilu mikilvægara hlutverki að gegna en að standa í baráttu fyrir minnihlutahópa sem vilja fara annarlegar leiðir og berjast fyrir hlutum sem sum eru í andstöðu við kristna og biblíulega siðfræði og mynd fjölskyldunnar.  Nú þarf aðila sem finnur leiðir til að vekja aftur traust fólks á kirkjunni með friðsamlegri, framsækinni og traustvekjandi framkomu.  

Deilur um alls konar pólitísk efni og hamagangur til að koma fram einhverjum sérhagsmunamálum kemur ekki að gagni við útbreiðslu trúarinnar. Nú þarf nýtt átak til boðunar hinna sígildu og sönnu grunnatriða trúarinnar -kjarnatriðið sjálfs fangaðarerindinsins um að Jesús er frelsari frá synd og dauða og sá sem kallar okkur til helgunar og til að vera útrétt hönd til friðar og kærleiksverka.  


Alfa námskeiðið hefur sannað gildi sitt og nú er það aftur í boði

Ég hef mjög góða reynslu af Alfa-námskeiðinu.  Þar er leitast við að svara spurningunni: Hver er tilgangur lífsins?  Þar er stórt spurt, en það góða við námskeiðið er,  að þar er mikið um góð svör! Truarbrögðin og heimspekin -og svo auðvitað hver heilvita maður- spyrja um tilgang lífsins.  Jesús Kristur hafði margt gott um málið að segja. Á Alfa kynnum við okkur hluta af því sem hann sagði og það er framsett á mjög aðgengilegan og -ég vil segja- skemmtilegan hátt.

Margir hafa sótt Alfa-námskeið á liðnum árum. Ég held að ég hafi komið að einum 15 eða 16 slíkum námskeiðum á liðnum árum og alltaf fundist ástæða til að bjóða  upp á þau á ný, reynslan er einfaldlega svo góð. 

Kynningarkvöld er þrd. 17. jan. kl.20 í Ísl. Kristskirkjunni, Fossaleyni 14, Grafarvogi og svo hefst námskeiðið sjálft viku síðar,  þrd. 24.  kl 19 með léttum kvöldverði.

Alfa fer þannig fram að fólk kemur saman eitt kvöld í viku og í hvert skipti er byrjað á því að snæða saman léttan kvöldverð, eins og fyrr sagði. Það er notalegt að setjast að matborði eftir langan vinnudag og þurfa ekkert að gera nema njóta matarins og rabba við hina nemendurna á meðan.  Eftir matinn er fyrirlestur og að honum loknum kaffi, auðvitað! Heilasellurnar virka tæplega þegar komið er fram á kvöld nema fólk fái sér kaffibolla, þannig er það a.m.k. hjá flestum.  Eftir kaffið eru myndaðir litlir hópar og þar ræðir fólk efni fyrirlestrarins í ca 40 mínútur, eða bara hlustar og þegir, enginn er skyldugur að segja neitt. Þarna getur fólk líka talað um hvað sem það vill og sem tengist grundvallarspurningunni um tilgang lífsins.  Kvöldið byrjar sem sé kl 7 og lýkur kl 10, stundvíslega. 

Nú eru kannski sumir farnir að velta fyrir sér hvar þeir geti farið á Alfa. Ég veit að það verður haldið í Íslensku Kristskirkjunni, Fossaleyni 14 (í Grafarvogi)  og þar er það í samstarfi við Grafarvogskirkju. Það er sennilega í einhverjum öðrum kirkjum líka og er hægt að komast að því með því að fara á alfa.is og kanna málið.

Reynsla mín af Alfa er mjög góð og ég mátti til með að segja ykkur frá því svo að þið eigið þess kost að njóta þess  ásamt mér og mörgum öðrum.


Næsta síða »

Um bloggið

Friðrik Schram

Höfundur

Friðrik Agnar Ólafsson Schram
Friðrik Agnar Ólafsson Schram
Guðfræðingur og prestur Íslensku Kristskirkjunnar
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • fridrikschram 1125153.gif

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband