Færsluflokkur: Bloggar

Það verður ánægjulegt að fara til kirkju í dag

Það er fallegur dagur hér í höfuðborginni í dag. Sólin skín og varla hreyfist hár á höfði. Þrestirnir eru önnum kafnir við að týna síðustu reyniberin sem enn hanga á trjánum. Ekki veitir þeim af að safna orku ætli þeir að halda til suðlægari landa og njóta þar mildara veðurfars. Verði þeim að góðu og ég vona að þeim farnist flugið vel og að ég fái að sjá þá á ný að vori.

 En meðan þrestirnir safna í sarpinn, undirbý ég mig undir styttri ferð -kirkjuferð. Það verður ánægjulegt að hitta vinina í söfnuðinum, bæði yngri sem eldri og gleðjast með þeim yfir kaffibolla en ekki síst í lofgjörð, bæn og uppbyggingu úr orði Guðs.  Í öll þau 60 ár sem ég sótt kirkju eða kristilegt samfélag hef ég notið þess að eiga trúna og vini sem leita Guðs og fylgja Jesú Kristi. Betra hlutskipti er varla til. Það hefur veitt lífi mínu tilgang og gleði.  Ég hvet alla til að sækja kirkju þar sem tilbeiðsla, uppfræðsla og gott samfélag er í boði. Það eru verðmæti sem ekki rýrna þótt hrun verði á verðbréfamarkaðinum.


Ég fór glaður og endurnærður heim úr kirkjunni í dag

Predikunin hans Unnars Erlingssonar, bústjóra á Eyjólfsstöðum á Völlum (á Héraði) var lifleg, skýr og praktísk.  Börnin fengu vandaða og skemmtilega fræðslu við sitt hæfi, hver aldurshópur fyrir sig. Geir Ólafs söng af sinni alkunnu snilld amerískan spiritual sem Presley gerði frægan á sínum tíma og líka Amazing Grace sem flestir þekkja.  Þá vantaði ekki einlægnina og tilbeiðsluna í söngvana sem Oddur Thorarensen og sönghópur safnaðarins leiddi. Beðið var fyrir innsendum bænarefnum fólks sem er að takast á við veikindi eða annan vanda.  Í lokin var svo tækifæri til að fá sér kaffibolla og rabba við heimafólk og gesti. 

 Það eru mikil forréttindi að eiga svona góðan vinahóp sem maður getur hitt vikulega í kirkjunni. Hin neikvæða umræða um þjóðkirkjuna upp á síðkastið hefur fælt margt fólk frá kristnum kirkjum, en það má ekki gerast. Margir söfnuðir, prestar og annað kirkjufólk er að vinna frábært starf sem vikulega verður þúsundum til blessunar. Ég er í þeim hópi. Guði sé þökk fyrir það.


Eldfjallið sem átti enga von

Ég fór í fyrrakvöld að sjá kvikmyndina Eldfjall. Hún hefur fengið margar stjörnur í einkunn að því er fram kemur í fjölmiðlum. Vissulega var leikurinn mjög góður hjá aðalleikurunum, en eitt fannst mér alveg vanta í myndina: Vonina.  Gamalt máltæki segir: Svo ergist sá er eldist. Það átti sannarlega við um Hannes, aðalpersónuna i myndinni.  Mér þótti myndin of hægfara og langdregin og spaugileg atriði voru fá. En það sem mér þótti verst var neikvæðnin og svartsýnin sem bjó í vesalings Hannesi og honum tókst ekki að sigrast á. Vissfulega reyndi Hannes að gera sitt besta, en það vantað þó mikið á.

Ég verð að viðurkenna að ég fór dapur út af þessari mynd.  Trúin á Jesú Krist hefur gefið mér von og kjark til að takast á við lífið í rúm 60 ár en slíkan boðskap var tæpast að finna í þessari mynd, því miður. Gildin þrjú sem felast í kristninni: Trú, von og kærleikur, er það sem gefur lífinu lit, veitir styrk til að takast á við erfiða hluti og bregðast við í kærleika.  Ef það er eitthvað sem þarf að miðla til nútíma-Íslendinga þá eru að þessi góðu gildi.


Leiðtogakreppa í þjóðkirkjunni?

Frá sumum prestum þjóðkirkjunnar heyrist talað um leiðtogakreppu í þjóðkirkjunni og er þá einkum átt við að séra Karl ráði ekki við biskupshlutverkið. Sumir prestar efna meira að segja til opinberra funda í sinni sóknarkirkju til þess að ræða þessa hluti. Frétt um einn slíkan fund kom í kvöldfréttum Rúv í kvöld (14. okt.). Ef marka má það sem sýnt var og sagt frá fundi þessum, þá andaði hann af gagnrýni á biskupinn og maður gat lesið milli línanna að presturinn sem hélt fundinn væri þeirrar skoðunar. Ef hann sjálfur væri biskup (kannski stefnir hann á embættið), ætli honum þætti þá gaman að heyra af einhverjum presti úti á akrinum sem héldi fund til þess að gagnrýna biskupinn? Og ekki nóg með það, presturinn myndi auk þess láta fréttastofu Ruv vita af fundinum svo að hægt væri að koma gagnrýninni strax til þjóðarinnar og þannig veikja stöðu biskupsins í augum fólks? Þetta finnst mér ljótt. Þjóðkirkjan má síst við því að kynna innri ágreining í fjölmiðlum, nema þá að prestarnir hafi áhuga á að eyðileggja fyrir sjálfum sér og skaða sína eigin kirkju.

Biskupinn er ótvírætt forystumaður þjóðkirkjunnar og mér finnst að prestar hennar eigi að sýna honum sanna virðingu og stuðning. Séra Karl er einlægur og góður maður sem vill gera vel í þessum vandamálum sem komið hafa upp í kjölfar kynferðisafbrota fyrirrennara hans, séra Ólafs Skúlasonar. Þetta er mjög erfitt mál og kirkjan átti síst von á að þurfa að takast á við þennan vanda. Þess vegna var enginn skýr farvegur innan stofnunarinnar þar sem skilgreint var hvernig með þau skyldi fara. Ég trúi því að séra Karl hafi reynt að gera sittt besta í málinu, þótt eflaust sé rétt að hann hefði mátt gera betur. En allir gera mistök og prestar og aðrir verða að gefa honum svigrúm til að læra af mistökum sínum. Þess vænta þeir sjálfir frá öðrum þegar þeir sjálfir gera mistök.

Ég hvet því kollega mína innan þjóðkirkjunnar til að gæta orða sinna, fylkja sér að baki biskupnum, læra af þeim mistökum sem gerð hafa verið og strengja þess heit að vinna markvisst gegn kynferðislegu ofbeldi og reynar öllu ofbeldi, hverju nafni sem það nefnist.

Sýnum því séra Karli samstöðu og styðjum þjóðkirkj með því að biðja fyrir biskupnum, fyrir einingu presta og samstöðu innan þessarar stærstu kirkjudeildar hér á landi.


Uppgjöf skulda er upphaf viðreisnar

Gyðingar höfðu þá reglu að fimmtugasta hvert ár (þeir kölluðu það náðarárið) gáfu þeir hver öðrum upp skuldir. Þetta var ekki ákveðið á "landsfundi Síonista" heldur guðleg tilskipun í lögmáli þeirra.  Þeir höfðu meira að segja líka þá reglu að hafa sjöunda hvert ár hvíldarár fyrir jarðargróðurinn. Þá hvíldu þeir akrana.  Þetta er merkilegt í ljósi þess að við sem eigum að heita kristin mergsjúgum náttúruna og gefum henni lítil grið.

Í Ísrael gátu menn lent í skuldum eins og gerist og gengur, t.d. vegna þess að fyrirvinnan veiktist eða dó og þá þurfti stundum að taka lán og/eða veðsetja ættaróðalið.  Þar í landi átti enginn landið í orðsins fyllstu merkingu nema Guð. Menn höfðu aðeins afnotarétt af landinu. Á þessum grunni gátu menn fengið aftur land það sem tilheyrði ættinni, en sem tekið hafði verið upp í skuld. Reynt var að reisa menn við. Þetta sýnir umhyggju og kærleika andstætt græðgi og því að nota vandaræði annarra til að komast yfir eigur þeirra.  Við mættum læra af þessu.

Ef þetta viðhorf ríkti hér á landi, þ.e. að okkur væri virkilega umhugað um velferð hvers annars, þá myndum við (þ.e. forysta þjóðarinnar)  finna leiðir til að reisa þá við sem réttilega hafa lent í skuldafeni vegna óviðráðanlegra aðstæðna sem viðkomandi gat illa forðast. Langflestir þeirra sem lentu í miklum skuldum vegna hrunsins hér á landi eru venjulegt fólk og venjuleg gagnleg fyrirtæki.  Það ætti að vera forgangsatriði stjórnvalda að finna leiðir til að afskrifa skuldir þessara aðila að því marki að það GETI framvegis staðið í skilum og byggt betri framtíð, bæði fyrir sig og aðra.


Ég styð biskupinn

Kynferðisafbrot Ólafs Skúlasonar komu á sínum tíma öllum á óvart. Sjálfur hafði ég nokkur samskipti við hann á þeim tíma þegar hann var að beita konur kynferðislegum yfirgangi. Ekki geðjaðist mér almennt að framkomu hans eða athöfnum. Þegar Ólafur var kjörinn biskup átti ég að taka þátt í biskupskjörinu sem safnaðarfulltrúi Breiðholtsprestakalls, en komið var í veg fyrir það fyrir tilstilli stuðningsmanna Ólafs í sóknarnefndinni. Niðurstaðan varð sú að enginn kaus f.h. leikmanna í Breiðholtssókn. Ólafur marði það að verða biskup með mjög litlum meirihluta ef ég man rétt.

Þjóðkirkjan varð fyrir miklu tjóni vegna verka hans og framkomu. Kynferðisafglöp hans veiktu stöðu hans til að taka á málum innan kirkjunnar með festu og skynsemi. Mér finnst hann hafa  skemmt að hluta til árangurinn af góðu starfi Sigurbjörns Einarssonar og ekki mátti þjóðkirkjan við því. En svo fór sem fór.

Forysta þjóðkirkjunnar var illa undir það búin að takast á við afleiðingarnar af kynferðisafbrotum séra Ólafs. Menn brugðust við af góðum hug og vildu bæta úr eins og þeir höfðu vit og reynslu til, en eins og við vitum nú gekk þar ekki allt sem skyldi. Mér finnst gagnrýnin sem séra Karl hefur orðið fyrir í þessu sambandi mjög ósanngjörn. Hvað hefðu aðrir gert í hans sporum? Það er auðvelt að vera vitur eftirá og saka hann um afglöp. Ég held að þeir sem þar tala séu guðfræðilegir "andstæðingar" séra Karls sem eru honum ósammála í guðfræði og vija hann þess vegna burt af biskupsstóli.

Ég tel séra Karl mjög einlægan, varkáran og vel meinandi biskup. Það er ekki heiglum hent að hafa stjórn á óróaseggjum í prestastétt, fólki sem hefur hátt og virðist uppteknara af eigin hag en hag þjóðkirkjunnar í heild. Ég vil segja við þettta fólk: Styðjið frekar leiðtoga ykkar en að grafa undan honum með vanhugsuðum yfirlýsingum í fjölmiðlum. Karl biskup á alla mína samúð í þessu máli og ég hvet hann til að víkja hvergi en standa styrkur í stafni meðan hann sjálfur vill. 


Bænastund sem staðið hefur í 25 ár

Já, við nokkrir karlar af ýmsum sviðum þjóðfélagsins höfum hist reglulega allt frá árinu 1986 til að eiga bænastund  á föstudagsmorgnum kl hálf átta. Við byrjum á því að fá okkur léttan morgunverð og ræðum það sem efst er á baugi í þjóðmálum og trúmálum. Á meðan við sötrum kaffið skrifum við ýmis bænarefni í bænabókina -fyrirbænir fyrir vinum og kunningjum sem eiga erfitt eða eru sjúkir,eins biðjum við fyrir þjóðinni og skyldum málum.

Síðan, venjulega á slaginu korter í átta, lesum við stuttan texta úr Biblíunni, og svo biðjum við hver um sig upphátt stutta bæn. Þannig fer þetta hringinn og sá síðasti endar með Faðir vorinu.  Eftir stundina röbbum við áfram um það sem okkur liggur á hjarta og eftir það, venjulega um kl hálf níu, förum við svo til okkar starfa. Þetta hefur verið frábært samfélag og okkur til blessunar í öll þessi ár. Hvet aðra til að gera eitthvað svipað.  


Trúmálin eru heitu málin

Af hverju hafa menn svona sterkar skoðanir þegar kemur að trúmálum? Það er umhugsunarefni. Þau eru meira segja svo "heit" og "hættuleg" að nú er meirihlutinn í Reykjavík búinn að setja á strangt eftirlit með því að kristnar skoðanir skuli ekki kynntar í grunnskólum Reykjavíkur. Þeir kalla slíka kynningu trúboð og trúboð er bannað í skólunum. Því er ég persónulega sammála, en hvar er línan (skilin) milli kynningar og trúboðs? Hún er mjó.

Það læðist að manni sá grunur að meirihlutinn í borgarstjórn álíti kristna trú óæskilega lífsskoðun. En hvað um þá lífsskoðun að trúa ekki á Krist. Er það ekki líka lífsskoðun. Ef ekki má fjalla um kristin trú í skólunum nema þá í skötulíki, þá kemur bara einhver önnur trú eða trúleysi í staðinn. Trúleysi er líka trú og lífsskoðun. Trúleysi er það að trúa ekki á tilvist Guðs. Er það rétthærri skoðun en sú að trúa á Jesú Krist? Ég bara spyr.  Er þetta ekki orðið mannréttindamál? Er verið að ryðja skoðanafrelsinu úr vegi og sjá til þess að skoðanir meirihlutans einar skuli blíva?

 Já, það eru margar spurningar sem vakna þessa dagana. Umræðan er heit, enda trúmálin heit eins og pólitíkin. En við verðum að gæta sanngirni. Við verðum líka að muna að arfur þjóðar okkar, líka trúararfurinn, er dýrmætur. Það má ekki líta á hann sem einhverja nýjung. Nýjungar verða margar ekki langlífar, og reynast einfaldlega ekki vel. Trú á Jesú Krist, boðbera kærleika og mannvirðingar hefur reynst mörgum vel, öldum saman, einnig okkar þjóð. Og af því að það er reynsla okkar, þá er rétt að unga kynslóðin fái að kynnast þeirri trú. Ég fullyrði að hún sé betri en trúleysið, svona hreint prakstíst séð. Eða hvað finnst þér?


Það yrði stórslys ef Ísraels yrði að hverfa frá Vesturbakkanum

Frá "grænu línunni" Vesturbakkanum eru ekki nema um 15 kílómetrar að Miðjarðarhafinu þar sem styst er. Það er óhugsandi fyrir Ísrael að verja sig ef palestínskur her væri búinn að koma sér fyrir á Vesturbakkanum. Íranir skaffa í dag Hisbolla samtökunum eldflaugar sem þeir skjóta á Ísrael frá Suður-Líbanon og Hamas gera það sama frá Gaza. Íranir, sem segja beint út,  að þeir stefni að útrýmingu Ísraelsríkis, myndu sjá sæng sína útbreidda ef Palestínumenn stofnuðu sjálfstætt ríki á Vesturbakkanum. Þá ætti Ahmadinejad og klerkastjórnin í Íran greiða leið til að flytja þangað banvæn hergögn í stórum stíl og fá Palestínumenn og stuðningsþjóðir þeirra til að gera stórfellda árás á Ísrael.  Það er eins og menn vilji ekki horfast í augu við þessa hræðilegu ógn, meira segja Össur utanríkisráðherra, sem ætti að skilja þetta talar með óábyrgum ætti um að Ísland eigi að styja stofnun sjálfstæðs Palestínuríkis á Vesturbakkanum. Hann getur trútt um talað, maður sem býr þúsundir kílómetra frá átakasvæðinu.

Ríki sem er sjálfstætt, hefur rétt á að stofna eigin her. Öflugur palestínskur her á Vesturbakkanum þýðir stórstyrjöld einn góðan veðurdag og líklega útrýmingu Ísraels. Er það það sem menn vilja? Eru menn ekki með öllum mjalla?  Ég held að tími sé kominn fyrir stuðningsmenn stofnunar Palestínsk ríkis á Vesturbakkanum að gera sér grein fyrir því að Ísraelsmenn verða að hafa þar varðstöðvar  ef til stofnunar slíks ríkis kemur, annað er dauðadómur fyrir þá sjálfa.


Markmiðið er að eyða Ísraelsríki

Meðlimur í miðstjórn palestínsku hreyfingarinnar Fata, að nafni Abbas Zaki, sagði nýlega í viðtali á sjónvarpsstöðinni  Al-Jazeera, að  ef tillagan um að Ísrael hverfi frá  Vesturbakkanum (sem í Biblíunni kallast Júdea og Samaría) yrði að veruleika, þá myndi það marka upphaf endaloka Ísraels.  Hann sagði að það myndi leiða til þess markmið óvina Ísraels myndi nást, en það væri að gjöreyða Ísraelsríki. Það er í reynd markmið óvina Ísraels, en í þeirra hópi eru yfirvöldin í Íran, Sýrlandi, Hamas á Gaza, Hisbolla í Líbanon, flokkar Múslimska bræðralagsins í Egyptalandi og mörgum öðrum islömskum löndum.

Mikið af því sem sagt er í sambandi við hina svokölluðu "tveggja ríkja lausn" er sagt til þess að fela það sem undir býr: Það er að þurrka Ísrael út og gera landið að múslimaríki þar sem Gyðingum yrði bannað að búa eða stíga fæti á.

Fram að þessu hafa margir óvina Ísrales hikað við að segja berum orðum að þeir stefni að útrýmingu Ísraels, en nú telja þeir sig njóta það mikils stuðnings "alþjóðasamfélagsins" að þeim sé óhætt að opinbera þennan ásetning kynnroðalaust. Þetta er skelfilegt ástand og ætti að vekja ugg með öllum réttsýnum mönnum sem þekkja söguna og hafa gegnum árin fylgst með óhlutdrægum fréttum frá Mið-Austurlöndum. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Friðrik Schram

Höfundur

Friðrik Agnar Ólafsson Schram
Friðrik Agnar Ólafsson Schram
Guðfræðingur og prestur Íslensku Kristskirkjunnar
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • fridrikschram 1125153.gif

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 7
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 6775

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband