Færsluflokkur: Lífstíll
11.2.2014 | 21:43
68 kynslóðin
Ég er einn af 68 kynslóðinni. Skólafélagi minn í framhaldsskóla, þekktur maður, sagði eitt sinn við mig: Ég fór ekki með börnin mín í sunnudagaskóla. Mjög margir foreldrar hafa eflaust einnig látið það ógert. Þetta barst í tal þegar verið var að undirbúa kristintökuhátíðina árið 2000. Þegar ég var barn fóru flestir krakkar, held ég, í sunnudagaskóla eða í KFUM eða KFUK. Sú kynslóð fékk því að stórum hluta að kynnast kristinni trú og höfuðatriðum hennar. Við hjónin fórum með börnin okkar á kristilega fundi meðan þau voru að vaxa úr grasi, en margir jafnaldra minna gerðu það ekki .
Á þessum árum byrjaði stórfelld afkristnun með þjóðinni þ.e. tíma 68 kynslóðarinnar. Þetta er mjög alvarlegt meðal annars vegna þess að ef kynslóðin sem uppi er hverju sinni, fólkið sem er að eiga börn og hasla sér völl í lífinu, tekst ekki að færa börnum sínum trúna, siðfræði hennar og fræðslu, þá er mikil hætta á að sú kynslóð verði ekki kristin nema að verulega litlu leyti. Þau börn sem þannig alast upp vita varla að á jólum minnumst við fæðingar Jesú, á páskum upprisu hans og á hvítasunnu úthellingar Heilags anda og stofnunar kirkjunnar. Kristið siðferði nær heldur ekki til þeirra nema að hluta til. Afleiðingin verður fyrsta stig afkristnunar. Ef svo þau börn sem 68 kynslóðin ól upp, kenna ekki sínum börnum um Jesú Krist og kristinn sið, þá eykst afkristnunin enn hraðar.
Þetta tel ég vera stöðu mála í dag. Ástandið er mjög alvarlegt, ekki bara vegna andlegar velferðar fjölda fólks, heldur líka vegna hættu á að hin mörgu góðu gildi sem fylgt hafa kristninni öld fram af öld gleymist og týnist. Þá stendur eftir ekki-kristin fjölhyggja, þar sem engin allherjar-regla gildir, heldur hver fer sínu fram ef hann getur. Það er ávísun á upplausn og hnignun menningar. Ég vil hvetja ykkur öll til að hugleiða þetta og gera allt sem þið getið til að sporna gegn afkristnuninni með öllum tiltækum góðum ráðum. Foreldrar, farið með börnin ykkar í sunnudagskóla, kirkju eða í kristileg félög. Sýnið þannig ábyrgð og gott fordæmi. Afar og ömmur, gefið barnabörnunum ykkar kristilegar bækur og annað efni sem þau vilja horfa eða hlusta á. Talið við þau um Jesú og trúna á hann. Vöknum af svefni andvaraleysis í þessum efnum. Ef við gerum okkar besta hvert um sig, munu áhrifin skila sér út á meðal hinna mörgu og verða til mikillar blessunar.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.11.2013 | 22:24
Taktu ekki mark á heilanum...
....að minnsta kosti ekki alltaf. Hann er eins og súpertölva sem geymir ótrúlegustu hluti, bæði góða og slæma, gagnlega og ónothæfa. Heilinn er eins og tölva sem sendir alls kyns upplýsingar á vitundarskjáinn þinn hugann.
Þér koma alls konar hlutir í hug, sumir góðir og ganglegir, en en líka aðrir sem þú ættir þegar í stað að senda í ruslakörfuna. Við höldum gjarnan að það sem kemur í huga okkar hljóti að vera sannleikanum samkvæmt, en það er ekki alltaf svo. Stundum detta okkur í hug hlutir sem eru vafasamir og einfaldlega rangir. En hvernig eigum við að átta okkur á hvað gera skuli við hugsanirnar sem birtast á skjánum?
Skoðum málið aðeins betur. Þú upplifir sjálfan þig sem ég. Þú hefur vitund sem skynjar að þú ert þú. Þú ert ekki einhver annar. Þú hefur tilfinningu fyrir því að vera til. Þú hugsar, ályktar, tekur ákvarðanir og framkvæmir. Hvað er þetta ég í okkur? Hvað er þessi hugur okkar sem hefur vitund um að ég er til? Það er andinn sem í þér er. Hann er frá Guði, eilífur og einstakur. Það er hann sem á að meta allt sem heilinn í þér leggur fyrir þig, bendir þér á og stingur uppá. Þess vegna eigum við ekki að verða áhyggjufull þótt heilinn bendi okkur á ýmsan vanda sem hann kallar fram af harða diskinum í okkur.
Heili margra er uppfullur af alls konar misskilningi, röngum upplýsingum, vantrú og vanþekkingu. Og vegna þess að margir halda að þessar hugsanir eigi að taka alvarlega, þá taka þeir margar rangar ákvarðanir, segja og gera margt vitlaust sem skaðar sjálfa þá og aðra. Allt sem heilinn í okkur sendir inn á skrifborðið okkar eða birtir á skjánum okkar þarf hugurinn, andi okkar, upplýstur af Heilögum anda og Orði Guðs, að meta, hvort sé gagnlegt og gott eða slæmt og ónothæft.
Við megum ekki láta stjórnast af hinu og þessu sem okkur kemur í hug, þá er hætt við því að holdið hafi stjórnina. Heilinn er bara eins og tæki, tölva, sem geymir fullt af upplýsingum, en hann kann ekki alltaf að vinna rétt úr þeim. Það er hlutverk andans, hugarins, já, þín að gera. Með því að láta andann í okkur hafa síðasta orðið, getum við strax afgreitt út af borðinu ýmislegt sem ekkert vit er í að hugsa frekar um eða framkvæma.
Páll postuli ráðleggur okkur í Rómverjabréfinu (12:2) að taka upp breytt líferni með því hugsa öðruvísi en við vorum vön, og þá munum við fá að skilja hvað Guð vill að við gerum, allt það sem er gott, fagurt og fullkomið. Það er til mikils að vinna!
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.5.2013 | 21:59
Hjónabandið -látum á það reyna.
Vinur minn í útlöndum hefur fengið þau skilaboð frá konu sinni að hún ætli að fara fram á skilnað. Hann er eyðilagður og börnin í sárum. Uppbygging liðinna ára er í hættu. Þetta er ekkert einsdæmi. Og það sem eykur á tregann er, að þetta er trúað fólk. Það ætti að þekkja hvatningu Drottins um að forðast hjónaskilnað í lengstu lög. Við vitum reyndar að Jesús féllst á skilnað ef um um framhjáhald að ræða (en svo er ekki í fyrrnefndu tilfelli að mínu viti). Munum samt að til er nokkuð sem heitir fyrirgefning og sátt.
Krafan um trúnað og að standa við heitin er sterk samkvæmt orðum Jesú Krists og þannig á það að vera í kirkjunni. Við í evangelísku kirkjunum töku þessi orð Jesú ekki svo alvarlega. Það er okkar vandi. Hjónaskilnaður er ekkert grín og dregur stóran dilk á eftir sér, ekki bara sársauka og einmanaleika, heldur einnig í mörgum tilfellum sorg, reiði, togstreitu (sem bitnar ekki síst á börnunum ef þau eru með í myndinni) og biturð auk fjárhagslegs tjóns, vinnutaps og slæms fordæmis fyrir aðra.
Við þurfum að breyta áherslum og hurgarfari okkar: Færast frá frjálslyndi í skilnaðarmálum til meiri fastheldni við orð Jesú hvað þau mál varðar. Það eru engin óumflýjanleg örlög að elta frjálslyndi sem skaðar bæði okkur sjálf, börnin okkar og þjóðfélagið allt.
Mér finnst mjög alvarlegt mál þegar prestar og kristnir leiðtogar skilja við maka sinn. Ábyrgð okkar er meiri en annarra vegna þeirrar fyrirmyndar sem við eigum að vera í kirkjunni og þjóðfélaginu. Ef prestur heldur framhjá og yfirgefur maka sinn, sendir hann óbeint þau skilaboð til safnaðarins -og annarra líka- að hjónabandið beri ekki að taka ýkja alvarlega. Álit margra í nútímanum er það, að ef ástin (tilfinningin) dofnar eða hefur nánast fjarað út, þá sé rétt að skilja. Þetta er rangt viðhorf að mínu mati. Einmitt þá reynir á "bandið" milli hjónanna -heitin, heilindin, tryggðina og viljann til að gera rétt. Ef við bregðumst við þessum vanda í tæka tíð og á skynsamlegan hátt, tökum að næra og blása lífi í ástina þótt lítil sé, þá eru ótal dæmi þess að hún hefur lifnað við og orðið heit á ný. Við megum ekki gefast upp í fyrstu brekkunni. Og við megum heldur ekki gefast upp í fimmtugustu brekkunni! Við verðum að ná tindinum saman.
Ef svo fer að hjón skilja, þá þarf ekki endilega að ganga í annað hjónaband. Slík endurgifting getur beinlínis verið röng. Og svo er líka til sá möguleiki að búa einn eftir skilnað og ganga ekki í annað hjónaband.
Hjónaband sem heldur, styrkist með tímanum. Reynsla mín er sú að ástin vex með árunum, verður dýpri og sannari og þrautseigari. Þegar þeim áfanga er náð, eigum við sameiginlegan fjársjóð sem við getum notið þegar ellin færist yfir, börnin okkar líka og barnabörnin -og margir aðrir.
Hjónabandið er skóli skapgerðarinn er haft eftir Marteini Lúther. Kannski er réttari þýðing á orðum hans sú að það sé skóli persónuleikans eða nám í siðferðisþreki. Mér finnst vanta úthald og tryggð í mörg sambönd fólks í dag. Fólk reiðist eða móðgast, sárnar og verður biturt -vill ekki fyrirgefa og sættast, og fer sína leið. Fyrr á árum lét fólk miklu oftar reyna á "bandið". Mikið var lagt í sölurnar til að sjá hvort það héldi þótt á reyndi. Trúlega lenda langflest hjón í vanda í hjónabandinu. Það er ekki létt verk að sameina tvo ólíka einstaklinga með ólíkan bakgrunn, uppeldi og lífsvenjur. En ástin getur sigrað allt, ef vilji er fyrir hendi.
Kæru vinir, tökum okkur á í þessum efnum. Látum ekki segja okkur að lausnin sé "bara að skilja". Það er oftast léleg ef nokkur lausn. Í kjölfarið koma ótal vandamál sem geta varað lengi. Hjónabandið lengi lifi!
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.11.2012 | 15:13
Settu mörk, sjálfum þér og öðrum
Okkur er öllum nauðsynlegt að hafa skýr mörk, bæði hvað varðar okkur sjálf og gagnvart öðrum. Það er ekki gott ef við leyfum öðrum að fara yfir þau mörk sem við í huga okkar höfum sett þeim. Það er á/okkar ábyrgð að þau séu virt. Ef aðrir vilja ráðskast með mig, tíma minn eða annað, þá ber mér að gera draga mig í hlé frá þeim og hugsanlega gera þeim ljóst að þeir hafi gengið of langt. Biðjum Guð og skynsamt fólk að leiðbeina okkur hvar mörkin eru í þessu sambandi. Þú átt þitt líf og Guð ætlar þér að nota það skv. leiðsögn hans og vilja. Þar mega aðrir ekki taka völdin af þér.
Sumt fólk er í þóknunarhlutverki og gjarnan upptekið við að gera öðrum til geðs. Vitaskuld getur það átt rétt á sér, ekki síst gagnvart ungum börnum eða sjúkum ættingjum, en stundum fer þetta út yfir öll eðlileg mörk. Þá verður maður að taka á sig rögg og ákveða hve langt skuli ganga við að þóknast og þjóna öðrum.
Jesús hafði skýr mörk og áform en lagði samt oft lykkju á leið sín til að þjóna fólki og þóknast því. Hann er frábær fyrirmynd hvað þetta varðar. Þar er jafnvægi á hlutunum. Ef við hugum ekki að þessu, er hætt við að við komum ekki í verk því sem við verðum að gera, en eyðum of miklum tíma og kröftum í það sem ekki er nauðsynlegt.
En svo er það hin hliðin: Við sjálf. Við verðum að setja sjálfum okkur mörk. Til dæmis að fara vel með tímann eða annað sem við höfum til ráðstöfunar. Ekki gleyma okkur við tölvuna tímunum saman þegar við ætluðum rétt aðeins að kíkja á netið. Eins það að fara ekki of seint að sofa eða sofa ekki of lengi, borða ekki of mikið eða óhollan mat o.s.f. Það er skrýtið ef ég hef allt á hreinu gagnvart öðrum, en leyfi sjálfum mér óreiðu.
Við þurfum að hugleiða þessa hluti bæði ytri og innri mörk (gagnvart örðum og svo í eigin lífi) og koma reglu þar á ef við höfum verið slöpp og kærulaus. Ef við venjum okkur á skýr mörk í lífi okkar, þá líður okkur betur, við komum meiru í verk og aðrir bera virðingu fyrir okkur. Ef við hins vegar höfum allt opið og látum hlutina bara fara svona eða hinsegin, þá verðum við innst inni ófullnægð og vonsvikin og aðrir munu síður bera virðingu fyrir okkur og í framhaldi af því munu þeir hugsanlega fara yfir mörkin og byrja að ráðskast með okkur.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 15:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.9.2012 | 15:11
Aftur á byrjunarreit!
Þessi orð komu mér í hug þegar ég var á heilsubótargöngu í Elliðaárdalnum í morgun. Málið er að oft hefur maður ætlað að vera duglegur og fara út að ganga eða hjóla –gera það að reglu- en svo hafa þau góðu áform riðlast og minna orðið úr en til stóð. Hver kannast ekki við það? En þegar maður svo hefur sig af stað og byrjar aftur að hreyfa sig eftir svo eða svo langt hlé, þá finnur maður hvað hreyfingin er góð. Hættan er sú að þegar maður fer að slá slöku við, þá komist maður bara alls ekki aftur af stað. Maður segir við sjálfan sig: “Það þýðir ekkert að vera með þessi áform um reglulega hreyfingu, þau fara öll í vaskinn!” og svo hættir maður bara að hreyfa sig og verður stirður og þunglamalegur! Nei, nei, það má ekki gerast. Ef maður hefur trassað hið góða, hvað sem það er, þá er um að gera að fara aftur á “byrjunarreitinn” ....taka sig taki og byrja aftur. Er á meðan er.
Ég held að lífið sé þannig hjá flestum að það gengur í bylgjum. Stundum er maður duglegur og í framhaldi af því ánægður og líður vel og stundum óduglegur (kærulaus um góðar lífsvenjur) og þá leiður og kannski með samviskubit. En við megum ekki vera of hörð við okkur sjálf. Í Biblíunni segir að Guð minnist þess að við erum mold (veikleika vafin) og Jesús sagði: “Andinn er að sönnu reiðubúinn, en holdið er veikt.” Við höfum öll góð áform, en svo verður stundum (oft!) minna úr en til stóð í byrjun. Hvað eigum við þá að gera? Þá er um að gera að fara aftur á upphafsreitinn og byrja upp á nýtt. Þetta á við allt gott í lífinu, reglusemi hvers konar
–næringu, hvíld, ástundun vinnunnar, það að lesa Biblíuna, fara í kirkju, eiga persónlegar bænastundir o.s.f. -allt þetta sem gerir lífið betra.
Ég talaði í morgun við mann sem hefur ekki komið í kirkjuna í nokkra mánuði. Hann ætlaði sér ekki að vanrækja trúarsamfélagið af ásettu ráði, en það var svo mikið að gera að hann tók að sér vinnu “sýknt og heilagt” (bæði helga og virka daga) og svo duttu kirkjuferðirnar bara upp fyrir :-( En hann sagði, “Nú ætla ég að fara koma aftur í kirkjuna.” Batnandi manni er best að lifa, segi ég. Ekki missa móðinn þótt þú hafir slakað á, taktu þig bara á og byrjaðu aftur á því sem gott er. Þá er allt á góðri leið á ný.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 15:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.4.2012 | 16:58
Sirrý hittir naglann á höfuðið
Ég hlustaði í morgun, eins og oft áður, á fréttaþáttinn â€œÍ bítið” á Bylgjunni. Þar var fjölmiðlakonan Sirrý (Sigríður Arnardóttir) í viðtali hjá Heimi og Kollu. Tilefnið var nýútkomin bók eftir Sirrý sem heitir “Laðaðu til þín það góða”. Afskaplega var ánægjulegt að hlusta á viðtalið við Sirrý. Hún lagði áherslu á jákvætt lífsviðhorf eins og þakklæti, bjartsýni, marksækni og almenna manngæsku. Það eina sem ég saknaði var að hún talaði um Jesú Krist! Í honum finn ég uppsprettu alls þess jákvæða sem hún var að tala um. Kannski hefur hún fundið þessi auðævi við að lesa Nýja testamentið...? Hver veit?
En hvað um það, hvatning hennar til hlustenda að vera þakklátir var frábær. Þakkaðu fyrir að geta dregið andann, þakkaðu fyrir ferska loftið (þótt stundum blási!), þakkaðu fyrir að þú skyldir geta farið á fætur í morgun, klætt þig og farið út, þakkaðu fyrir að eiga vini og svo margt annað.... Já þakkarefnin eru óteljandi. Við þurfum að temja okkur jákvæðan lífsstíl, sagði hún, ekki lifa í “holræsunum” –þ.e. vera sífellt kvartandi og möglandi, niðurdregin og svartsýn.... Það er svo margt gott til og ef við miðlum því góða, þá löðum við að okkur hið góða. Bros kallar á bros. Hlý orð vekja jákvæðni. Að fá er ávöxtur þess að gefa. Jesús orðaði það þannig: Gefið og yður mun gefið verða.
Við minntumst upprisu Jesú á nýliðnum páskum og Páll postuli hvetur okkur til að minnast Jesú Krists aftur og aftur, hans sem reis upp frá dauðum. Það er skynsamlegt að vera þakklátur og jákvæður, bæði fyrir okkur sjálf og aðra. Líkami okkar framleiðir hvatann serótónín ef við erum jákvæð og glöð, en áhyggjur, kvíði og neikvæðni eyða því efni. Okkar er valið. Þannig séð er gæfa okkar á okkar eigin valdi. En lífsgleðin, jákvæðnin og upprisukrafturinn sem við sjáum hjá Jesú margfaldar þessi jákvæðu viðhorf hjá okkur. Kristið fólk er (eða hefur allar ástæður til að vera) “the happiest people on earth”. Hvað með þig og mig? Okkar er valið. Forsendan er fyrir hendi: við erum sköpuð af góðum Guði og eigum dásamlegan frelsara. Kristinn maður getur ekki annað en brosað við tilverunni. Stundum gleymum við okkur í mótbyr lífsins, en svo hrökkvum við “í gírinn” og minnumst þess að Guð er bara góður og lífið er dásamlegt.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.3.2012 | 17:24
Manstu þegar þú.....?
Já, manstu þegar þú mættir Guði í fyrsta sinn, þegar þú fannst snertingu hans? Kannski var það þegar þú frelsaðist, eða við ferminguna þína þegar þú játaðir það að vilja hafa Jesú Krist sem leiðtoga lífs þíns....? Eða þegar þú hafðir fjarlægst Guð og fannst þú vera misheppnuð/aður og taldir að hann hefði ekki lengur vanþóknun á þér, en þá heyrðir þú um kærleika hans og vilja til að fyrirgefa þér....? Já, manstu þetta? Þá varpaðir þú þér í fang hans og þú FANNST kærleika hans og fyrirgefningu. Mörg eigum við slíkar minningar, en kannski er langt um liðið og fennt í sporin? En þegar atburðurinn átti sér stað (forðum daga), þá varst þú ekkert nema einlægnin, og upplifunin af snertingu og kærleika Guðs svo sterk og raunveruleg. Mig langar að spyrja þig: Átt þú enn vissuna um að það var góður Guðs sem snerti við þér, tók við þér, fyrirgaf þér og blessaði þig....? Eða ertu kannski farin/inn að efast...? Ertu hugsanlega farin/inn að telja þér trú um að þetta hafi bara verið barnaskapur og tilfinningasemi? Að þetta hafi, þegar öllu er á botninn hvolft, ekki verið Guð, heldur þínar eigin ímyndanir og tilfinningar? Af hverju ættir þú að hugsa þannig? Er djöfullinn e.t.v. að reyna að ræna þig blessuninni og góðu minningunum sem Guð ætlaði þér að varðveita sem fjársjóð til að láta endast allt lífið og minna þig á elsku hans og trúfesti?
Sjálfur á ég nokkrar slíkar dýrmætar minningar sem ég rifja upp af og til, minningar sem eru mér meira virði en flestar aðrar. Ég ætla ekki að láta djöfulinn ræna mig þeirri blessun. Hann skal ekki geta talið mér trú um að það sem þá gerðist hafi verið hugarburður og upplifun sem bara byggðist á stemmingu líðandi stundar, nei, takk! Þessar dýrmætu minningar mínar ætla ég að varðveita í hjarta mér (og heila!) meðan ég hef vit og heilsu til. Þær eru mér sönnun þess að Guð faðir elskar mig og er virkilega annt um mig. Ég er honum kær sonur sem hann hefur velþóknun á. Velþóknun Guðs byggist ekki á einhverjum mannlegum verðleikum hjá mér, ef svo væri, gæti ég átt von á því að hann snéri sér að öðrum þegar ég gerði mistök og ylli honum vonbrigðum. Nei, þannig er Guð ekki. Hann elskar án skilyrða. Úff! hvílíkur léttir, að ég skuli ekki þurfa að koma mér í mjúkinn hjá honum með góðri frammistöðu.... þó að hún í sjálfu sér spilli ekki.
En aftur að því sem ég var að tala um: Góðu minningunum, -minningunum um það þegar Guð gerði eitthvað mjög sérstakt í lífi þínu. Rifjaðu það upp. Skrifaðu það hjá þér (þá getur þú betur rifjað það upp!). Mundu: Guði þykir vænt um þig og hann mætti þér á þann hátt sem hentaði þér. Og hann vill að þú rifjir það upp og minnir þig á að hann elskar þig enn og er ennþá með þér til að blessa þig og gera þig að blessun fyrir aðra.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.2.2012 | 22:44
Trúin eykur geðheilbrigði og lífshamingju
Hvernig? Heilbrigð iðkun trúarinnar veitir:
1. ...heilbrigða sjálfsmynd sem styrkist af þeirri vissu að ég er skapaður af góðum Guði og vel gerður af hans hendi, enda skapar hann ekkert vont eða misheppnað.
2. ....heilbrigða mynd af Guði -en Jesús hefur gefið okkur hana. Í Jesú Kristi sjáum við hina réttu mynd af Guði, þar kynnumst eðli hans, hugarfari hans og viðhorfi til okkar, syndugra manna, en það einkennist af skilyrðislausum, fyrirgefandi kærleika og velþóknun.
3. ....vissu um að Guð fyrirgefur okkur syndir, mistök og vanrækslu (ef við iðrumst!). Fyrirgefning Guðs veitir innri frið og góða samvisku (á ný) sem hrekur burt kvíða, áhyggjur, vanmetakennd, skömm og margar aðrar vondar tilfinningar. Við verðum sátt við Guð.
4. ....sátt við annað fólk. Það að Guð fyrirgefur mér, hvetur mig til að fyrirgefa þeim sem mér finnst hafa gert á minn hlut. Þegar ég hætti að ásaka aðra, þá "sleppi" ég þeim og læt af biturð og vondum hugsunum. Einnig það veitir innri frið og jafnvægi og í slíkum jarðvegi vex gleðin hröðum skrefum.
5 ....hvíld og slökun. Í Biblíunni merkir orðið friður (shalom) jafnvægi krafta þar sem allt vinnur saman að árangri (í stað togstreitu). Friður Guðs er virkur, uppbyggjandi friður en ekki hugsunarlaust aðgerðarleysi eða hlé á átökum. Afleiðing af friði Guðs er jafnvægi í líkama og sál og velgengni í lífinu.
Þetta er reynsla mín. Ég hafði vanmetakennd, var kvíðinn og reiður, en svo kom Guð inn í líf mitt með sannleikann (frá Kristi) sem gerði mig frjálsan. Meiriháttar! Ég mæli með því að þú prófir það líka.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 22:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.1.2012 | 22:47
Stjórnmál í Noregi og á Íslandi -tvennt ólíkt
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.1.2012 | 18:20
Gott siðferði lifir ekki lengi ef þjóðin afkristnast
Trú á persónulegan Guð, sem stendur ekki á sama um hvernig við lifum, er hvatning til þess að vanda líf sitt og forðast að skaða aðra. Það er ekki nóg að þekkja almennar kurteisisreglur og boðorðin tíu ef maður trúir ekki á Guð. Ef ég veit að ég verð að standa Guði reikningskil á lífi mínu og athöfnum, þá eru miklu meiri líkur á að ég leitist við að lifa siðferðilega góðu lífi, en ef ég er guðleysingi eða trúi á einhvern fjarlægan, ópersónulegan Guð sem er sama um hvernig ég lifi.
Þetta virðast margir ekki hugsa útí. Þeir tala a.m.k. sjaldan um það. Þetta er alvarlegt mál og verulegt áhyggjuefni. Ef unga kynslóðin lærir ekki að "óttast Guð sinn herra" -bera virðingu fyrir boðum Guðs og óttast afleiðingar þess að brjóta þau- þá mun almennu siðferði hnigna smám saman, já, kannski miklu fyrr en við ímyndum okkur. Greinileg merki þessarar þróunar blasa hvarvetna við í þjóðfélagi okkar. Ég ætla ekki að nefna dæmi í þetta sinn, þér koma sjálfum eflaust mörg í hug -fylgstu bara með fjölmiðlunum.
Foreldrar þurfa að kenna börnum sínum að trúa á Jesú Krist -hann er besta siðferðisfyrirmynd sem við eigum á þessari jörð. Það er ótvírætt. Stjórnmálamenn þurfa að móta löggjöfina í anda hans. Fjölmiðlarnir þurfa að bjóða upp á miklu meira af góðu kristilegu efni sem eflir gott siðferði. Ef ekki er minnt á Jesú og kenningu hans og fyrirmynd í fjölmiðlunum og af ráðamönnum, þá munu kristin áhrif dvína og menningunni hraka. Viljum við það? Það mun koma illa niður á okkur sjálfum að ég tali ekki um næstu kynslóðir. Ábyrgðin er okkar sem nú lifum og ráðum. Hugsum um þetta og gerum eitthvað í málinu.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Friðrik Schram
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar