Færsluflokkur: Dægurmál
9.1.2012 | 18:20
Gott siðferði lifir ekki lengi ef þjóðin afkristnast
Trú á persónulegan Guð, sem stendur ekki á sama um hvernig við lifum, er hvatning til þess að vanda líf sitt og forðast að skaða aðra. Það er ekki nóg að þekkja almennar kurteisisreglur og boðorðin tíu ef maður trúir ekki á Guð. Ef ég veit að ég verð að standa Guði reikningskil á lífi mínu og athöfnum, þá eru miklu meiri líkur á að ég leitist við að lifa siðferðilega góðu lífi, en ef ég er guðleysingi eða trúi á einhvern fjarlægan, ópersónulegan Guð sem er sama um hvernig ég lifi.
Þetta virðast margir ekki hugsa útí. Þeir tala a.m.k. sjaldan um það. Þetta er alvarlegt mál og verulegt áhyggjuefni. Ef unga kynslóðin lærir ekki að "óttast Guð sinn herra" -bera virðingu fyrir boðum Guðs og óttast afleiðingar þess að brjóta þau- þá mun almennu siðferði hnigna smám saman, já, kannski miklu fyrr en við ímyndum okkur. Greinileg merki þessarar þróunar blasa hvarvetna við í þjóðfélagi okkar. Ég ætla ekki að nefna dæmi í þetta sinn, þér koma sjálfum eflaust mörg í hug -fylgstu bara með fjölmiðlunum.
Foreldrar þurfa að kenna börnum sínum að trúa á Jesú Krist -hann er besta siðferðisfyrirmynd sem við eigum á þessari jörð. Það er ótvírætt. Stjórnmálamenn þurfa að móta löggjöfina í anda hans. Fjölmiðlarnir þurfa að bjóða upp á miklu meira af góðu kristilegu efni sem eflir gott siðferði. Ef ekki er minnt á Jesú og kenningu hans og fyrirmynd í fjölmiðlunum og af ráðamönnum, þá munu kristin áhrif dvína og menningunni hraka. Viljum við það? Það mun koma illa niður á okkur sjálfum að ég tali ekki um næstu kynslóðir. Ábyrgðin er okkar sem nú lifum og ráðum. Hugsum um þetta og gerum eitthvað í málinu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.1.2012 | 14:29
2012 nýtt náðar-ár
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2012 | 22:50
Æ, hlífið okkur við öllum þessum blóts- og fúkyrðum í Skaupinu
Fjölskyldan situr og horfir á Skaupið, foreldrar og börn á ýmsum aldri. Þá skellur allt í einu á fólkinu slíkur flaumur formælinga að maður á ekki orð. Er það þetta sem við viljum? Vilja foreldrar að slíkt dynji á börnum þeirra? Nei, það tel ég mjög ólíklegt. Flestir foreldrar vilja hafa fyrir börnum sínum það sem er gott afspurnar. Börnin eru varnarlaus fyrir þessum ósóma og foreldrarnir hafa kannski ekki uppburð í sér til að segja þeim að þetta sé ljótt orðbragð og að þau skuli ekki tala svona. Það þurfum við að gera.
Við eigum ekki að samþykkja allt sem kemur frá hinni opinberu "menningarstofnun". Okkar er að meta hlutina á gagnrýninn hátt og tjá álit okkar. Það er engin frekja, heldur skylda okkar. Það er ekkert "kúl" að sitja þegjandi undir flaumi blótsyrða og láta sem manni þyki það gott og gilt, ekki síst ef flutningur þess er kostaður af skattfé mínu og þínu.
Flestum sem teknir voru tali í Kringlunni í dag (Fréttir) sögðu að Skaupið hefði verið gott. Ég spyr: Fannst engum ástæða til að gera athugasemdir við blótsyrðin, eru þau bara sjálfsögð? Nei, blótsyrði eru ekki sjálfsögð. Það er alveg hægt að tjá sig sterkt án blótsyrða. Blót er "billegt". Það er flott þegar menn nota kjarngóð lýsingarorð til að tjá sig um það sem skiptir máli eða bragð er að.
Sem sagt: Stjórnvöld, hættið að kosta flutning á blótyrðum í Ríkisútvarpinu. Takk.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.12.2011 | 23:50
Jól, hátíðin þegar allir vilja vera góðir, eða hvað?
Ég fór að hugsa um það áðan, hvernig jólin eru öðruvísi en aðrar hátíðir. Þá vilja allir vera góðir við aðra, gleðja þá og vera vingjarnlegir. Eru þetta áhrif frá hinum hrekkjóttu jólasveinum, Grýlu eða Leppalúða? Nei, ég held að enginn sé þeirrar skoðunar. Ég tel að við förum flest nærri því að svarið sé hin fagra og ljúfa saga guðspjalls Lúkasar um fæðingu hins saklausa og góða jólabarns -Jesú frá Nasaret.
Er þetta ekki umhugsunarvert? Hátíð kærleikans er hin kristnu jól. Sólstöðuhátíðin -hin fornu jól heiðinna forfeðra okkar, vekur ekki þessar tilfinningar með okkur. Í þjóðfélagi þeirra manna gilti hefnd og fyrirgefning var ekki "hátt skrifuð". Náðin og sannleikurinn kom hins vegar meðJesú Kristi, segir í jólaguðspjalli Jóhannesar postula Jesú.
Verum þakklát fyrir okkar kristnu trú. Látum gildi hennar -kærleika, miskunnsemi,fyrirgefningu, hógværð, sáttfýsi og virðingu fyrir manneskjunni- svo nokkur séu nefnd "gildna" okkar á meðal. Eflum þau í einkalífinu og í garð annarra, þá verður þjóð okkar áfram kristin og fær að njóta góðra ávaxta af lífi hans sem fæddist í fátækt og hógværð í Betlehem forðum, hann sem var og er Immanúel -Guð okkar á meðal.
Gleðileg jól!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.12.2011 | 22:20
Staðgöngumæðrun í "velgjörðarskyni"
Heilbrigðisstarfsfólk á Landsspítalanum hefur kynnt þingmönnum álit sitt í þessu máli og þar er lagst gegn staðgöngumæðrun -þar sé um hálan ís að ræða og víða misnotun í gróðaskyni. Ég spyr: Er ekki siðlegra, mannúðlegra og viturlegra að börn fái að fæðast í stað þess að þeim sé eytt í móðurkviði og barnlaust fólk gangi þeim í foreldrastað? Undanfarin ár hafa um 1000 ófædd börn verið deydd í móðurkviði hér á landi. Þetta er hræðileg hnignun sem verður að snúa frá.
Sumar mæður og hjón/sambýlisfólk eiga mjög erfitt með að annast börnin sín. Ekki eru margir áratugir síðan það var algengt hér á landi að hjón gengju ungum börnum í foreldrastað og ættleiddu þau. Það er miklu betri lausn á félagslegum vanda heldur en að deyða fóstrin eða kaupa konur til að ganga með börn fyrir aðra.
Það er sorglegt hvernig þjóðfélag okkar stígur yfir hvert rauða strikið af öðru í siðferðis- og samfélagsmálum. Það er kannski ekki vinsælt að benda á kristilegt siðferði, svo firrt erum við orðin, en það hefur þó reynst okkur best samanborið við allt annað.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.12.2011 | 20:32
Ég á ekki orð... utanlandsferðir ríkisstarfsmanna
Nú þegar ríkið þarf að spara og skera niður heilbrigðisþjónustuna, þá er slíkt ófhóf hvað varðar utanlandsferðir starfsfólks ráðuneyta og ríkisstofnana að maður á ekki orð. Þetta er óþolandi eyðslusemi. Það getur ekki verið nauðsynlegt að fara í allar þessar ferðir. Nú á tímum er hægt er að nota rafræna tækni til fylgjast hratt og vel með því sem er að gerast annars staðar í heiminum. Einnig er hægðarleikur að taka þátt í fundum með ýmsum tæknibúnaði og spara þannig dýrar utanlandsferðir. Það væri vel hægt að fækka þessum ferðum mikið ef vilji væri fyrir hendi.
Meðaltalskostnaður á ferð hjá einu ráðuneytanna var yfir 250 þúsund krónur og þar voru margar ferðir farnar fyrstu 9 mánuði þessa árs. Nú verður þjóðin að segja þessum eyðsluseggjum að draga saman seglin. Ég vil heldur að sjúklingar og gamalt fólk og deyjandi fái mannúðlega meðferð heldur en að ríkið noti skattpeninga okkar almennings til að greiða kostnað við ferðir embættismanna sem þeytast um heiminn þveran og endilangan á dýrum fargjöldum, gista á glæsihótelum og fá dagpeninga í þokkabót. Þessi vinnubrögð eru ranglát mismunum. Mannúð á að ganga fyrir fundagleði, ferðaþrá og flottheitum. Nú er nóg komið. Þetta bruðl gengur ekki lengur!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.12.2011 | 12:10
Ég átti mér gæðastund í morgun
Ég settist í "Laze-boy"-stólinn minn með Biblíuna við höndina og lét fara vel um mig. Úti gnauðaði norðanvindurinn -ég hálf vorkenndi krummanum spígsporaði uppi á þaki, en hann þolir þetta víst, enda vel af Guði gerður.
Ég las söguna um heimsókn Jesú til systranna í Betaníu, þeirra Mörtu og Maríu. Þið kannist eflaust flest við söguna -Marta var önnum kafin við að gera vel við gestina. Það var ekki lítið mál að fá hátt í 20 manns í heimsókn (Jesú, lærisveinana 12 og aðra nána vini sem oftast fylgdu með).
María (yngri systirin?) gerði eins og ég, settist við fætur Jesú til að hlusta á hann. Marta var alveg að ganga frá sér við matseldina og kvartaði við Jesú og bað hann að áminna Maríu. Af hverju gerði hún það ekki sjálf?! Jú, við erum gjörn á að kvarta við aðra en þá sem málið kemur við.
Jesú mat stöðuna þannig að það væri miklu mikilvægara fyrir Maríu að fá frið til að hlusta á það sem hann hafði að segja, og gaf í skyn að það sama ætti við um Mörtu. Maður heyrir hann næstum segja: "Marta, hættu þessu umstangi. Sestu heldur hérna hjá Maríu og hlustaðu á það sem ég hef að segja, enda á ég stutt eftir ólifað". Það var einmitt málið. Hann var á leið til Jerúsalem til að verða krossfestur og Jerúsalem var aðeins spölkorn frá Betaníu. "Kaffi og meðððí" var ekki það sem var mikilvægast þessa stundina, að mati Jesú, þótt eflaust væri hann þreyttur og þyrstur.
Höfum þetta í huga á aðventunni, og líka um jólin. Gleymum okkur ekki alveg í öllu "nauðsynlega" umstanginu, því að það er bara eitt sem er NAUÐSYNLEGT: Gefa sér tíma með Guði og leyfa orði hans og áhrifum að næra sál okkar. Þannig fáum við styrk og frið til að takast á öll brýnu verkefnin sem kalla á úr öllum áttum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2011 | 20:53
Auglýsingarnar og kaupskapurinn er "partur af prógramminu"
Þegar við höldum hátíð fylgir óhjákvæmilega umstang og innkaup. Slíkt tekur tíma og er fyrirhöfn, en þó þess virði. Þannig er það með jólin. Það þýðir ekkert að fjasa út af auglýsingaflóðinu og öllum "bissnessnum", enda tökum við hvort sem er flest þátt í leiknum.
En það góða við jólaumstangið eru sjálf jólin! Á jólum beinum við huganum að því sem er fagurt, kærleiksríkt og gott afspurnar: Jesú Kristi og komu hans í heiminn. Það er óumdeilt að kærleiksboðskapur Jesú olli straumhvörfum hvað varðar vegferð og sögu mannkynsins. Hógværð hans og mildi, hvatning um að fyrirgefa þeim sem gerðu á hlut manns og það að vera fyrri til að sýna kærleika í verki ...allt voru þetta hlutir og afstaða sem fékk aukna áherslu með lífi Krists og starfi. Kirkjan tók þessi gæði í arf og færði áfram, víða með miklum árangri, en ekki alltaf, því miður.
Njótum góðra hluta, matar og vellíðunar á aðventu og um jól, en umfram allt látum hátíðina verða okkur til hvatningar hvað það varðar að sýna hvert öðru kærleika, góðvild og hlýju. Gerum það með orðum, viðmóti og góðum verkum sem gleðja og hvetja.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2011 | 00:36
Gripið frammí í messu hjá mér
Drengurinn horfði á mig galopnum og einlægum augum og sagði hátt or skýrt: "Jesús er bestur!" Ég var að tala til fólksins í kirkjunni á sunnudaginn var þegar þetta gerðist. Þetta var ánægjuleg upplifun! Börnin eru svo einlæg og þeim er svo eðlilegt að trúa því sem er fallegt og gott. Þá líður þeim vel.
Við þurfum að segja börnunum frá Jesú Kristi, honum "sem gerði gott og græddi alla þá sem voru undirokaðir af djöflinum" eins og segir í Postulasögunni. Það er málið. Það eru svo mörgum sem líður illa, eru svartsýnir, hafa misst vonina og horfa með kvíða fram á næsta dag. Það góða við trúna á Jesú er að Jesús er ekki goðsagnapersóna. Hann lifði raunverulegu lífi, dó fyrir syndir okkar og reis upp okkur til lífs og réttlætingar. Þessi veruleiki gefur fólki von. Jesús, hinn upprisni, lifir ávallt og við getum átt samfélag við hann í bæn og gegnum orð hans. Þetta hefur gefið lífi mínu tilgang, fyllingu og gleði ....og bjarta von til að horfast í augu við það sem í vændum er án þess að bugast eða fyllast svartsýni.
Ég er því sammála drengnum sem hrópaði: "Jesús er bestur!"
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.12.2011 | 17:00
Er verið að kenna joga í grunnskólum? Joga er hugmyndafræði og lífsskoðunarstefna. Á slíkt erindi í grunnskóla frekar en kristin boðun?
Ég heyrði í morgun viðtal við jogakennara sem kennir joga í einum eða fleiri skólum Hjallastefnunnar. Þar sagði viðkomandi kennari að joga væri æfingar og heimspeki. Heimspeki er viss afstaða til tilverunnar, t.d. að Guð sé persónulegur og höfundur (hönnuður) alls sem til er.
Hindúar hafa sína trú og heimspeki. Þar á jóga upphaf sitt. Jóga var og er sjálfs-frelsunarleið hindúans. Jóga heimspekin gerir ráð fyrir að tilveran sé þrungin ópersónlegum guðlegum krafti. Guð er þar ekki kærleiksríkur persónulegur faðir sem elskar mennina eins og Guð kristinna manna. Þeir kristnir menn sem leggja stund á jóga og jóga-heimspeki fjarlægjast óhjákvæmilega guðsmynd kristinnar trúar. Það ætti fólk að hafa í huga. Af hverju ættum við að kasta trúnni á kærleiksríkan Guð föður og taka trú á ópersónulegan, fjarlægan Braham (æðsta guð hindúa) sem ber engar tilfinningar til okkar og lætur okkur sjálf um að reyna að finna eigin leið til frelsunar frá synd og böli? Guð faðir sendi okkur Jesú Krist sem kærleiksríkan lausnara og vin, sem gaf líf sitt okkur til lausnargjalds. Það er betri valkostur.
Foreldar ættu að hyggja að hvað verið er að kenna börnunum þeirra í leik- og grunnskólum, það skyldi þó ekki vera að jógakennarar séu komnir þar inn til að boða þessa grein hindúasiðar. Er Indland slík fyrirmynd og það velferðarríki að við þurfum að sækja þangað speki okkur til blessunar? Þá er verið að fara yfir lækinn eftir vatni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Friðrik Schram
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar