Kynnið ykkur "guðlastslögin", þau gætu haft áhrif hér á Íslandi, ef samþykkt yrðu.

Ég rakst á mjög athyglisverða grein á vefsíðunni www.island-israel.is þar sem fjallað var um hin svokölluðu "guðlastslög" sem nú er tekist á um fyrir mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Þessi lög eru runnin undan rifjum Sádí-Araba en samkvæmt þeim má ekki gagnrýna neitt í islam nema menn kalli yfir sig refsingu.  Í Sádí-Arabíu er Kóraninn og hefðir islam (m.a. sharíalöggjöfin) grundvöllur allrar löggjafar og nánast alls sem varðar daglegt líf í öllum sínum fjölskúðugleika, allt frá stjórnmálum til þess að aka bíl og borða skinku. Margir strangtrúaðir múslimar sætta sig hvorki við gaganrýni á kenningar Kóransins né heldur lífsmátann sem af honum leiðir. Í mörgum löndum múslima er þeim harðlega refsað sem það gera.

Vegna vaxandi áhrifa múslima á vesturlöndum og hjá S.Þ. ber  æ meira á gagnrýni á lífsviðhorf og lifnaðarhætti strangtrúaðra múslima. Þetta þola Sadí Arabar og aðrar fylgiþjóðir þeirra ekki og því skal reynt að hindra slíka gagnrýni með öllum löglegum ráðum. Til þess ætla þeir að nota "guðlastslögin" verði þau samþykkt.

Ég hvet allt hugsandi fólk til að fara inn á fyrrnefnda vefsíðu www.island-israel.is og kynna sér málið.


Skyldulesning: Ævisaga Goldu Meir, fyrrv. forsætisráðherra Ísraels

Mér finnst að það ætti að vera skyldulesning allra sem fjalla um málin fyrir botni Miðjarðarhafs og deilur Ísraela og Palestínumanna að lesa þessa bók. Í ljósi þess sem ég hef kynnt mér um sögu Gyðinga síðustu 130 árin og aðdraganda þess að þeir tóku í auknum mæli að setjast að í Landinu helga, finnst mér fréttaflutningur af atburðunum þar oft einkennast af vanþekkingu og neikvæðni  í garð Ísraelsríkis. Alls konar rangfærslur eru tilfærðar og svo éta menn vitleysurnar hver upp eftir öðrum. Áróðursmeistarar sem tekið hafa stöðu "með" Palestínumönnum og "gegn" Ísrael hafa verið óhemju duglegir og mótað viðhorf mjög margra. Af þessum sökum gætir oft mikillar hlutdrægni sem gerir það að verkum að erfitt er að fjalla á hlutlægan hátt um málið. Væri ekki gott að vinna heimavinnuna og kynna sér málið svolítið betur?

Óþolandi afskipti ríkis og borgar af kristnum söfnuðum

Er það hlutverk ríkisendurskoðunar að segja biskupi þjóðkirkjunnar fyrir verkum (það eru afskipti af málum sem ríkisvaldinu kemur ekki við)?  Er það hlutverk ríkisvaldsins að taka hluta af félagsgjöldum safnaðanna og nota í eigin þágu (það heitir á einföldu máli að stela)?  Er það hlutverk borgarráðs að úthluta peningum eftir því hvaða skoðanir viðkomandi styrkþegi hefur á siðferðismálum (það kallast mismunun og brot á almannarétti)?

Þetta eru aðeins örfá ný dæmi um yfirgang opinberra yfirvalda af starfi safnaðanna.  Hvar ætlar þetta að enda?  Þau yfirvöld sem við nú höfum bæði hvað varðar ríki og Reykjavíkurborg eru andkristileg og beita söfnuðina valdi til að koma fram vilja sínum.  Þetta er ranglæti sem þjóðin þarf að vita af.


Gætum okkar á joga. Joga á ekki heima í kirkjunni.

Joga er vegur hindúanna til hjálpræðis. Líkamsæfingar þeirra eru aðeins grein á joga. Þetta veit flest fólk því miður ekki. Það heldur að jogaleikfimi sé meinlausar líkamsæfingar. En málið er ekki svo einfalt. Mjög oft fylgir jogaleikfimi möntrulestur og andleg íhugun -það er bæn hindúa. Leikfimi er ágæt, líka ýmislegt af leikfimi hindúa, og gott getur verið að gera sumar þessara æfinga sem slíkar, en sleppum andlega þættinum. Góðar leikfimisæfingar eru ágætar, en við þurfum ekki á bænum hindúa að halda. Við eigum mikli betri andlega iðkun og kristin bæn er hluti af því. Skoðaðu þjóðfélagið á Indlandi og ástandið þar. Ávöxtur hindúismans -stéttaskiptingin og mannfyrirlitningin sem þar birtist, er ekki eftirsóknarverð.

Snúum okkur að því sem við eigum og hefur reynst vel, kristin trú og bæn, síðan getum við farið í góðar leikifimiæfingar sem víða eru í boði, en látið joga og það sem því fylgir eiga sig. Ef fólk fer í jógaleikfimi, ætti það að sleppa möntrunum og ekki tengjast einhverum kosmiskum kröftum (alheimsandanum að skilningi hindúa) og láta æfingarnar duga. Annars er hætta á að maður opni sig fyrir stórhættulegum áhrifum úr andaveröld hindúismans.  Lesið hvað Gunnar Dal hefur um málið að segja í bók sinni "Að elska er að lifa", hann veit um hvað hann er að  tala og mælir ekki með joga.  


Krónan er góð ef fjármálastjórnin er í lagi

...segir Martin Wolf, aðalhagfræðingur Financial Times. Krónan er bara ávísun á verðmæti og ef við förum illa með verðmæti, fellur krónan, en ef við vöndum okkur, stundum heiðarleika, nægjusemi og dugnað, styrkist krónan. Svissneski frankinn er dæmi um þetta. Landið er lítið og fámennt en gjaldeyrir þess einn sá sterkasti í heimi. Góð fjármálastjórn er lykillinn svo og heiðarleiki almennt í viðskiptum, virkt lýðræði og góður kristinn grunnur þjóðfélagsins. Lærum af þeim.

Hvernig leysti Roosevelt vandann í kreppunni miklu?

Ég er þessa dagana að lesa ævisögu Franklins.D. Roosevelt bandaríkjaforseta eftir Gylfa Gröndal. Þar er margt lærdómsríkt að sjá. Roosevelt komst til valda á dögum kreppunnar miklu vestra og tókst að stappa stálinu í þjóðina með undraverðum hætti og reisa við atvinnulífið á tiltölulega stuttum tíma. Nú erum við Íslendingar að dragnast áfram á fjórða ári okkar kreppu og ekki er útlitið gott að mati sérfræðinga. Að sögn Morgunblaðsins flytja 5 manns úr landi dag hvern til að leita betri lífskjara annars staðar.  Þetta gengur ekki. Það verður að losa fólkið úr skuldafjötrunum annars veður hér allt í eymd og volæði næstu árin. Bankarnir eru fullir af peningum en fólkið á vonarvöl.  Svo virðist sem stjórnvöld skorti áræði til að taka vandann föstum tökum og koma atvinnulífinu í gang.  Stöðug og vaxandi skattlagning er eins og köld hönd sem lamar alla hluti og dregur kjark úr fólkinu.   

En aftur að Roosevelt. Væri ekki gagnlegt fyrir ríkisstjórnina að lesa bókina hans Gylfa og rifja upp til hvaða ráða forsetinn greip til að leysa vandann? Hann gekk rösklega til verks og lét ekki harðsvíraða stóreignamenn stoppa sig. Hann hóf margvíslegar framkvæmdir og lögleiddi bætur til atvinnuleysingja og fátækra fjölskyldna. En hann lét fólkið líka vinna þjóðhagslega atvinnubótavinnu svo að það sæti ekki heima í eymd og volæði. Hann setti einnig ný lög varðandi iðnað og viðskipti sem komu að miklu gagni við að stöðva kreppuna.

Hér er ekki rúm til að endursegja ævisögu Roosevelt, en þið stjórnmálamenn, útvegið ykkur þessa bók og lesið ykkur til gagns. Kannski er þar að finna góðar hugmyndir til lausnar vandans sem við nú stöndum í.


Það verður ánægjulegt að fara til kirkju í dag

Það er fallegur dagur hér í höfuðborginni í dag. Sólin skín og varla hreyfist hár á höfði. Þrestirnir eru önnum kafnir við að týna síðustu reyniberin sem enn hanga á trjánum. Ekki veitir þeim af að safna orku ætli þeir að halda til suðlægari landa og njóta þar mildara veðurfars. Verði þeim að góðu og ég vona að þeim farnist flugið vel og að ég fái að sjá þá á ný að vori.

 En meðan þrestirnir safna í sarpinn, undirbý ég mig undir styttri ferð -kirkjuferð. Það verður ánægjulegt að hitta vinina í söfnuðinum, bæði yngri sem eldri og gleðjast með þeim yfir kaffibolla en ekki síst í lofgjörð, bæn og uppbyggingu úr orði Guðs.  Í öll þau 60 ár sem ég sótt kirkju eða kristilegt samfélag hef ég notið þess að eiga trúna og vini sem leita Guðs og fylgja Jesú Kristi. Betra hlutskipti er varla til. Það hefur veitt lífi mínu tilgang og gleði.  Ég hvet alla til að sækja kirkju þar sem tilbeiðsla, uppfræðsla og gott samfélag er í boði. Það eru verðmæti sem ekki rýrna þótt hrun verði á verðbréfamarkaðinum.


Ég fór glaður og endurnærður heim úr kirkjunni í dag

Predikunin hans Unnars Erlingssonar, bústjóra á Eyjólfsstöðum á Völlum (á Héraði) var lifleg, skýr og praktísk.  Börnin fengu vandaða og skemmtilega fræðslu við sitt hæfi, hver aldurshópur fyrir sig. Geir Ólafs söng af sinni alkunnu snilld amerískan spiritual sem Presley gerði frægan á sínum tíma og líka Amazing Grace sem flestir þekkja.  Þá vantaði ekki einlægnina og tilbeiðsluna í söngvana sem Oddur Thorarensen og sönghópur safnaðarins leiddi. Beðið var fyrir innsendum bænarefnum fólks sem er að takast á við veikindi eða annan vanda.  Í lokin var svo tækifæri til að fá sér kaffibolla og rabba við heimafólk og gesti. 

 Það eru mikil forréttindi að eiga svona góðan vinahóp sem maður getur hitt vikulega í kirkjunni. Hin neikvæða umræða um þjóðkirkjuna upp á síðkastið hefur fælt margt fólk frá kristnum kirkjum, en það má ekki gerast. Margir söfnuðir, prestar og annað kirkjufólk er að vinna frábært starf sem vikulega verður þúsundum til blessunar. Ég er í þeim hópi. Guði sé þökk fyrir það.


Eldfjallið sem átti enga von

Ég fór í fyrrakvöld að sjá kvikmyndina Eldfjall. Hún hefur fengið margar stjörnur í einkunn að því er fram kemur í fjölmiðlum. Vissulega var leikurinn mjög góður hjá aðalleikurunum, en eitt fannst mér alveg vanta í myndina: Vonina.  Gamalt máltæki segir: Svo ergist sá er eldist. Það átti sannarlega við um Hannes, aðalpersónuna i myndinni.  Mér þótti myndin of hægfara og langdregin og spaugileg atriði voru fá. En það sem mér þótti verst var neikvæðnin og svartsýnin sem bjó í vesalings Hannesi og honum tókst ekki að sigrast á. Vissfulega reyndi Hannes að gera sitt besta, en það vantað þó mikið á.

Ég verð að viðurkenna að ég fór dapur út af þessari mynd.  Trúin á Jesú Krist hefur gefið mér von og kjark til að takast á við lífið í rúm 60 ár en slíkan boðskap var tæpast að finna í þessari mynd, því miður. Gildin þrjú sem felast í kristninni: Trú, von og kærleikur, er það sem gefur lífinu lit, veitir styrk til að takast á við erfiða hluti og bregðast við í kærleika.  Ef það er eitthvað sem þarf að miðla til nútíma-Íslendinga þá eru að þessi góðu gildi.


Leiðtogakreppa í þjóðkirkjunni?

Frá sumum prestum þjóðkirkjunnar heyrist talað um leiðtogakreppu í þjóðkirkjunni og er þá einkum átt við að séra Karl ráði ekki við biskupshlutverkið. Sumir prestar efna meira að segja til opinberra funda í sinni sóknarkirkju til þess að ræða þessa hluti. Frétt um einn slíkan fund kom í kvöldfréttum Rúv í kvöld (14. okt.). Ef marka má það sem sýnt var og sagt frá fundi þessum, þá andaði hann af gagnrýni á biskupinn og maður gat lesið milli línanna að presturinn sem hélt fundinn væri þeirrar skoðunar. Ef hann sjálfur væri biskup (kannski stefnir hann á embættið), ætli honum þætti þá gaman að heyra af einhverjum presti úti á akrinum sem héldi fund til þess að gagnrýna biskupinn? Og ekki nóg með það, presturinn myndi auk þess láta fréttastofu Ruv vita af fundinum svo að hægt væri að koma gagnrýninni strax til þjóðarinnar og þannig veikja stöðu biskupsins í augum fólks? Þetta finnst mér ljótt. Þjóðkirkjan má síst við því að kynna innri ágreining í fjölmiðlum, nema þá að prestarnir hafi áhuga á að eyðileggja fyrir sjálfum sér og skaða sína eigin kirkju.

Biskupinn er ótvírætt forystumaður þjóðkirkjunnar og mér finnst að prestar hennar eigi að sýna honum sanna virðingu og stuðning. Séra Karl er einlægur og góður maður sem vill gera vel í þessum vandamálum sem komið hafa upp í kjölfar kynferðisafbrota fyrirrennara hans, séra Ólafs Skúlasonar. Þetta er mjög erfitt mál og kirkjan átti síst von á að þurfa að takast á við þennan vanda. Þess vegna var enginn skýr farvegur innan stofnunarinnar þar sem skilgreint var hvernig með þau skyldi fara. Ég trúi því að séra Karl hafi reynt að gera sittt besta í málinu, þótt eflaust sé rétt að hann hefði mátt gera betur. En allir gera mistök og prestar og aðrir verða að gefa honum svigrúm til að læra af mistökum sínum. Þess vænta þeir sjálfir frá öðrum þegar þeir sjálfir gera mistök.

Ég hvet því kollega mína innan þjóðkirkjunnar til að gæta orða sinna, fylkja sér að baki biskupnum, læra af þeim mistökum sem gerð hafa verið og strengja þess heit að vinna markvisst gegn kynferðislegu ofbeldi og reynar öllu ofbeldi, hverju nafni sem það nefnist.

Sýnum því séra Karli samstöðu og styðjum þjóðkirkj með því að biðja fyrir biskupnum, fyrir einingu presta og samstöðu innan þessarar stærstu kirkjudeildar hér á landi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Friðrik Schram

Höfundur

Friðrik Agnar Ólafsson Schram
Friðrik Agnar Ólafsson Schram
Guðfræðingur og prestur Íslensku Kristskirkjunnar
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • fridrikschram 1125153.gif

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband