68 kynslóðin

Ég er einn af 68 kynslóðinni. Skólafélagi minn í framhaldsskóla, þekktur maður, sagði eitt sinn við mig: ”Ég fór ekki með börnin mín í sunnudagaskóla.” Mjög margir foreldrar hafa eflaust einnig látið það ógert. Þetta barst í tal þegar verið var að undirbúa kristintökuhátíðina árið 2000. Þegar ég var barn fóru flestir krakkar, held ég, í sunnudagaskóla eða í KFUM eða KFUK. Sú kynslóð fékk því að stórum hluta að kynnast kristinni trú og höfuðatriðum hennar. Við hjónin fórum með börnin okkar á kristilega fundi meðan þau voru að vaxa úr grasi, en margir jafnaldra minna gerðu það ekki .

Á þessum árum byrjaði stórfelld afkristnun með þjóðinni þ.e. tíma 68 kynslóðarinnar. Þetta er mjög alvarlegt meðal annars vegna þess að ef kynslóðin sem uppi er hverju sinni, fólkið sem er að eiga börn og hasla sér völl í lífinu, tekst ekki að færa börnum sínum trúna, siðfræði hennar og fræðslu, þá er mikil hætta á að sú kynslóð verði ekki kristin nema að verulega litlu leyti. Þau börn sem þannig alast upp vita varla að á jólum minnumst við fæðingar Jesú, á páskum upprisu hans og á hvítasunnu úthellingar Heilags anda og stofnunar kirkjunnar. Kristið siðferði nær heldur ekki til þeirra nema að hluta til. Afleiðingin verður fyrsta stig afkristnunar. Ef svo þau börn sem 68 kynslóðin ól upp, kenna ekki sínum börnum um Jesú Krist og kristinn sið, þá eykst afkristnunin enn hraðar.

Þetta tel ég vera stöðu mála í dag. Ástandið er mjög alvarlegt, ekki bara vegna andlegar velferðar fjölda fólks, heldur líka vegna hættu á að hin mörgu góðu gildi sem fylgt hafa kristninni öld fram af öld gleymist og týnist. Þá stendur eftir ekki-kristin fjölhyggja, þar sem engin allherjar-regla gildir, heldur hver fer sínu fram ef hann getur. Það er ávísun á upplausn og hnignun menningar. Ég vil hvetja ykkur öll til að hugleiða þetta og gera allt sem þið getið til að sporna gegn afkristnuninni með öllum tiltækum góðum ráðum. Foreldrar, farið með börnin ykkar í sunnudagskóla, kirkju eða í kristileg félög. Sýnið þannig ábyrgð og gott fordæmi. Afar og ömmur, gefið barnabörnunum ykkar kristilegar bækur og annað efni sem þau vilja horfa eða hlusta á. Talið við þau um Jesú og trúna á hann. Vöknum af svefni andvaraleysis í þessum efnum. Ef við gerum okkar besta hvert um sig, munu áhrifin skila sér út á meðal hinna mörgu og verða til mikillar blessunar.


Hátíð vonar

Þegar maður horfir yfir árið sem nú er að renna sitt skeið á enda er manni þakklæti efst í huga. Þakklæti fyrir það sem hefur vakið von og bjartsýni. Þar stendur hæst Hátíð vonar í Laugardalshöll. En fleira hefur vakið von. Þegar bankarnir hrundu og þjóðfélagið fór á hliðina haustið 2008 gerði margt kirkjufólk ráð fyrir því að almenningur myndi snúa sér að trúnni og fjölmenna í kirkjurnar til að leita eftir huggun og uppörvun. Það gerðist hins vegar ekki. Í stað þess urðu margir reiðir og vonsviknir og hugur þeirra varð upptekinn af því neikvæða sem gerst hafði. Það er reyndar ekki undarlegt þótt fólk yrði reitt og vonsvikið. Mjög margir töpuðu nær öllu sínu sparifé, aðrir misstu íbúðir sínar og fyrirtæki. Margir sem misstu vinnuna urðu að flýja land og leita atvinnu erlendis. Allt þetta reyndi mjög á þjóðina. En þótt þessar öldur reiði ýfðu yfirborðið, þá hvarf trúin ekki úr hjörtum fólksins. Á Hátíð vonar kom í ljós að mjög margt fólk var opið fyrir boðskap Jesú Krists. Eins heyrast nú æ fleiri raddir sem líkar ekki andófið gegn kristinni trú sem mikið hefur borið á í þjóðfélaginu og sem m.a. birtist í aðgerðum borgarstjórnar Reykjavíkur (sérstaklega hvað varðar grunnskólana). Fólk finnur og veit að trúin á Jesú Krist er sú kjölfesta og vegvísir sem þjóðin þarfnast. Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, flutti góða ræðu á síðata kirkjuþingi þar sem hún minnti á þessa hluti. Mætur skólamaður tók í sama streng í fjölmiðlum fyrir nokkrum dögum. Ég held að þjóðin sé aftur að vakna til vitundar um gildi kristinnar trúar. Það vekur von. Við horfum fram á nýtt ár -2014- með von í hjarta. Það er greinilega hugur í ýmsum prestum og safnaðarleiðtogum, ekki síst þeim sem stóðu að og tóku þátt í Hátíð vonar. Nú þurfum við að vinna vel, vanda okkur og bregðast hvorki Guði né þjóðinni hvað það varðar að finna leiðir til að flytja henni það besta sem við eigum –trúna á Jesú Krist. Í september n.k. verður Kristsdagur í Reykjavík. Hann er hátíð fyrir allt kristið fólk sem vill sameinast um að hefja nafn Drottins á loft og minna þjóðina á kærleika Guðs eins og hann birtist í Jesú Kristi. Stöndum saman um þann mikilvæga atburð og látum ljós Krists skína gegnum líf okkar og söfnuði okkar, þjóðinni til blessunar svo að hér verði kristin trúarvakning.


Taktu ekki mark á heilanum...

....að minnsta kosti ekki alltaf. Hann er eins og súpertölva sem geymir ótrúlegustu hluti, bæði góða og slæma, gagnlega og ónothæfa. Heilinn er eins og tölva sem sendir alls kyns upplýsingar á vitundarskjáinn þinn –hugann.

Þér koma alls konar hlutir í hug, sumir góðir og ganglegir, en en líka aðrir sem þú ættir þegar í stað að senda í ruslakörfuna. Við höldum gjarnan að það sem kemur í huga okkar hljóti að vera sannleikanum samkvæmt, en það er ekki alltaf svo. Stundum detta okkur í hug hlutir sem eru vafasamir og einfaldlega rangir. En hvernig eigum við að átta okkur á hvað gera skuli við hugsanirnar sem “birtast á skjánum”?

Skoðum málið aðeins betur. Þú upplifir sjálfan þig sem “ég”. Þú hefur vitund sem skynjar að þú ert þú. Þú ert ekki einhver annar. Þú hefur tilfinningu fyrir því að vera til. Þú hugsar, ályktar, tekur ákvarðanir og framkvæmir. Hvað er þetta “ég” í okkur? Hvað er þessi hugur okkar sem hefur vitund um að “ég” er til? Það er andinn sem í þér er. Hann er frá Guði, eilífur og einstakur. Það er hann sem á að meta allt sem heilinn í þér leggur fyrir þig, bendir þér á og stingur uppá. Þess vegna eigum við ekki að verða áhyggjufull þótt heilinn bendi okkur á ýmsan vanda sem hann kallar fram af “harða diskinum” í okkur.

Heili margra er uppfullur af alls konar misskilningi, röngum upplýsingum, vantrú og vanþekkingu. Og vegna þess að margir halda að þessar hugsanir eigi að taka alvarlega, þá taka þeir margar rangar ákvarðanir, segja og gera margt vitlaust sem skaðar sjálfa þá og aðra. Allt sem heilinn í okkur sendir inn á “skrifborðið” okkar eða birtir á “skjánum” okkar þarf hugurinn, andi okkar, upplýstur af Heilögum anda og Orði Guðs, að meta, hvort sé gagnlegt og gott eða slæmt og ónothæft.

Við megum ekki láta stjórnast af hinu og þessu sem okkur kemur í hug, þá er hætt við því að “holdið” hafi stjórnina. Heilinn er bara eins og tæki, tölva, sem geymir fullt af upplýsingum, en hann kann ekki alltaf að vinna rétt úr þeim. Það er hlutverk andans, hugarins, já, “þín” að gera. Með því að láta andann í okkur hafa síðasta orðið, getum við strax afgreitt út af borðinu ýmislegt sem ekkert vit er í að hugsa frekar um eða framkvæma.

Páll postuli ráðleggur okkur í Rómverjabréfinu (12:2) að taka upp breytt líferni með því hugsa öðruvísi en við vorum vön, og þá munum við fá að skilja hvað Guð vill að við gerum, allt það sem er gott, fagurt og fullkomið. Það er til mikils að vinna!


Hátíð vonar -eftir á að hyggja

Hátíð vonar er besta og glæsilegasta kristilega mótið sem ég hef nokkru sinni sótt. Þetta segi ég að öllum öðrum ólöstuðum sem ég farið á bæði hér á landi og erlendis. Þetta er auðvitað mín upplifun, út frá því hvar ég hef verið staddur á göngunni með Guði undanfarið. Allt var svo vel gert og hnökralaust. Andrúmsloftið einkenndist af vináttu, gleði og eftirvæntingu. Boðskapurinn var skýr –orð í tíma töluð, engin tæpitunga. Tónlistin og lofgjörðin frábær. Umsjón og stjórnun til fyrirmyndar. Og ekki má gleyma þeim fjölmörgu sem brugðust við boði Franklins Graham að gefast Kristi. Hátíð vonar var og er mikil uppörvun. Takk fyrir mig!

Mótmæli voru viðhöfð eins og allir sáu og heyrðu og tóku borgaryfirvöld meira að segja þátt í þeim, nokkuð sem er hreint furðulegt og óviðeigandi. Lögreglan þurfti meira að segja að hafa vit fyrir borgarráði. En svona er nútíminn og um þetta skal ekki fjölyrða. Guð blessi allt það fólk sem sá ástæðu til að andæfa og gefi því náð til að snúa sér að betri verkefnum. Við kristið fólk ætlum ekki að erfa þetta við forsvarsfólk Samtakanna 78 eða við borgarráð. Við erum fyrst og fremst yfir okkur glöð að hátíðin tókst vel og þúsundir fólks fylltu Laugardalshöllina.

Nú er að byggja ofan á þennan grunn sem Hátíð vonar var. Mér er efst í huga hvatningin sem við fengum á hátíðinni. Hvatningin felst í því að við stóðum öll saman og allir gerðu sitt besta. Skil milli kirkjudeilda og hópa hurfu og við vorum sem eins fjölskylda. Nú þurfum við, fólkið í öllum hinum mörgu söfnuðum sem stóðu að Hátíð vonar, að taka hvatninguna, gleðina og eftirvæntinguna með okkur heim í söfnuðina okkar. Bjóðum það fólk velkomið sem gafst Kristi og gaf í skyn að það vildi fylgja honum. Leitum Guðs með framhaldið og verum opin fyrir leiðsögn hans, hvað við eigum að leggja áherslu á svo að “missum ekki dampinn” en sækjum fram, full af áhuga og dug.

Næsta haust er Kristsdagur á dagskrá. Hann verður, eins og Hátíð vonar, afrakstur af samkirkjulega bænastarfinu í Friðrikskapellu. Sá dagur verður eins konar framhald af Hátíð vonar og þá stefnum við að því að koma saman, fjölmargt trúað fólk úr sem flestum kirkjudeildum, til að halda hátíð, heiðra Krist og biðja fyrir og blessa þjóð okkar. Ég hlakka til og vonandi þú líka.


Steinasafn á Teigarhorni

Það er ánægjulegt að steinasafnið á Teigarhorni sé enn starfandi. Ég kom þarna við fyrir nokkrum árum og fékk að skoða steinasafnið sem þar var í einu útihúsanna. Þar voru margir glæsilegir steinar, einkum geilsasteinar.  Síðar frétti ég að einhver hvefði brotist inn í safnið (enginn bjó þá á staðnum) og stolið fallegustu steinunum, hugsanlega einver erlendur ferðamaður sem  síðan fór með steinana úr landi.  

Ég þarf að fara árlega austur á Hérað og ek þá gjarnan framhjá Teigarhorni. Ég hlakka til að koma þarna við á ný og skoða nýjustu safngripina. 


mbl.is Stór geislasteinn á Teigarhorni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ítrekaðar ofsóknir múslima gegn kristnum

Til er stofnun sem kallast International Christian Concern og miðlar upplýsingum um ofsóknir gegn kristnu fólki víða um heim gegnum vefsíðuna persecution.org. Aðstæður kristinnna eru mjög hættulegar víða um heim einkum í múslimalöndunum. Í öllum löndum múslima verður kristið fólk að þola það vera álitið annars flokks borgarar og sums staðar að sæta kúgun og ofbeldi. Á fyrrnefndri vefsíðu er sagt frá því að þúsundir kristinna flóttamanna frá elstu kristnu söfnuðum heims (í Mið-Austurlöndum) hafi upp á síðkastið farið til Kákasuslandanna, Georgíu og Armeníu, til að leita friðar og skjóls. Margt af þessu fólki hafði flúið frá Írak eftir stríðið þar og til Jórdaníu og síðan til Sýrlands og nú er það enn á faraldsfæti.

17. ágúst birtist þessi frétt á fyrrnefndri vefsíðu: ´Alda ofbeldis flæðir yfir Egyptaland. Fjölmargar (dozens) kirkjur hafa orðið fyrir árásum af hendi stuðningsmanna Múhameðs Morsi, forsetans sem herinn steypti af stóli, en þannig m.a. hefna þeir fyrir aðgerðir hersins. Skemmdirnar á kirkjum og húseignum kristins fólks eru hryllilegar ´ Athyglisvert er að kristið fólk og þeirra eigur verða fyrir barðinu á islömsku heittrúarmönnunum, en skv Kóraninum eru múslimar hvattir til ofbeldis gegn kristnu fólki (og gyðingum).

Og 19. ágúst segir á síðunni: "Kristnir Egyptar hvetja fjölmiðla til að segja rétt frá því sem er að gerast í landinu. Nú þegar hafa 1000 manns látið lífið. 48 kirkjur og 160 aðrar kristnar byggingar hafa orðið fyrir árásum. Koptiska kirkjan í Egyptalandi segir: “Við höfnum algjörlega þeim ósannindum sem vestrænir fjölmiðlar hafa sent frá sér og hvetjum þá til að rannsaka staðreyndirnar á hlutlægan hátt, en fréttaflutningur vestrænu fréttastofanna er vatn á myllu þessara róttæku og blóðþyrstu samtaka (islamista), sem vaða fram með eyðileggingu og skemmdarverkum í okkar kæra landi. Við förum fram á að alþjóðlegar- og vestrænar fréttastofur birti af heiðarleika, skiljanlegar, sannar og réttar fréttir af hlutunum.” Vefsíðan segir einnig frá því að meðlimir Múslimska bræðralagsins (sem stóð að árásunum) hafi beitt sjálfvirkum vopnum (hríðskotarifflum) og að lögreglan hafi ekkert gert til að vernda hina kristnu og eigur þeirra.

20. ágúst var tala kirkna, sem orðið hafa árásum, komin í 60 auk árásanna á skóla, heimili, fyrirtæki og jafnvel munaðarleysingjahæli í eigu kristinna. Islamistar hafa merkt kirkjur og kristnar byggingar með X svo að ljóst sé að ráðast eigi á viðkomandi hús. Koptiskur leiðtogi líkir þessu við þjóðernishreinsarnir, en koptar eru 10% egypsku þjóðarinnar og eiga rætur að rekja til frumkristni og höfðu starfað í 600 ár áður en Múhameðstrúarmenn lögðu Egyptaland undir sig. Í einni árásinni á kristna stofnun var fólki nauðgað og nunnur sem þar störfuðu reknar út á götu og neyddar til að fara fyrir göngu ofstopafólks gegnum bæinn. Svo virðist sem margir heittrúar múslimar njóti þess að niðurlægja og misþyrma kristnu fólki.

Eitt er áberandi í fréttum þegar heittrúaðir múslimar láta í sér heyra um kristna menn og menningu vesturlanda, og það er reiði. Svo virðist sem mikil gremja og fyrirlitning búi þar innifyrir. Múslimar telja sig yfirburðafólk sem eitt þekkir hinn eina og sanna Guð og þeir sem kenni annað eða hafni Allah og kenningu Múhameðs (Kóransins) séu annars flokks borgarar, andófsfólk eða hreinir og beinir óvinir Allah. Slíkt fólk á ekkert gott skilið og á þann kost vænstan að taka múhameðstrú, ella sæta mismunun, kúgun og skattlangningu. Er von á góðu þegar viðhorf múslima er þetta til þeirra sem trúa öðru en þeir sjálfir . Afleiðingarnar sjáum við í Egyptalandi dagsins í dag og ýmsum öðrum löndum múslima þar sem farið er eftir bókstaf Kóransins. Guð forði því að islam nái útbreiðslu meðal okkar þjóðar.


Hjónabandið -látum á það reyna.

Vinur minn í útlöndum hefur fengið þau skilaboð frá konu sinni að hún ætli að fara fram á skilnað. Hann er eyðilagður og börnin í sárum. Uppbygging liðinna ára er í hættu. Þetta er ekkert einsdæmi. Og það sem eykur á tregann er, að þetta er trúað fólk. Það ætti að þekkja hvatningu Drottins um að forðast hjónaskilnað í lengstu lög. Við vitum reyndar að Jesús féllst á skilnað ef um um framhjáhald að ræða (en svo er ekki í fyrrnefndu tilfelli að mínu viti). Munum samt að til er nokkuð sem heitir fyrirgefning og sátt.

Krafan um trúnað og að standa við heitin er sterk samkvæmt orðum Jesú Krists og þannig á það að vera í kirkjunni. Við í evangelísku kirkjunum töku þessi orð Jesú ekki svo alvarlega. Það er okkar vandi. Hjónaskilnaður er ekkert grín og dregur stóran dilk á eftir sér, ekki bara sársauka og einmanaleika, heldur einnig í mörgum tilfellum sorg, reiði, togstreitu (sem bitnar ekki síst á börnunum ef þau eru með í myndinni) og biturð auk fjárhagslegs tjóns, vinnutaps og slæms fordæmis fyrir aðra.

Við þurfum að breyta áherslum og hurgarfari okkar: Færast frá frjálslyndi í skilnaðarmálum til meiri fastheldni við orð Jesú hvað þau mál varðar. Það eru engin óumflýjanleg örlög að elta frjálslyndi sem skaðar bæði okkur sjálf, börnin okkar og þjóðfélagið allt.  

Mér finnst mjög alvarlegt mál þegar prestar og kristnir leiðtogar skilja við maka sinn. Ábyrgð okkar er meiri en annarra vegna þeirrar fyrirmyndar sem við eigum að vera í kirkjunni og þjóðfélaginu. Ef prestur heldur framhjá og yfirgefur maka sinn, sendir hann óbeint þau skilaboð til safnaðarins -og annarra líka- að hjónabandið beri ekki að taka ýkja alvarlega. Álit margra í nútímanum er það, að ef ástin (tilfinningin) dofnar eða hefur nánast fjarað út, þá sé rétt að skilja. Þetta er rangt viðhorf að mínu mati. Einmitt þá reynir á "bandið" milli hjónanna -heitin, heilindin, tryggðina og viljann til að gera rétt. Ef við bregðumst við þessum vanda í tæka tíð og á skynsamlegan hátt, tökum að næra og blása lífi í ástina þótt lítil sé, þá eru ótal dæmi þess að hún hefur lifnað við og orðið heit á ný. Við megum ekki gefast upp í fyrstu brekkunni. Og við megum heldur ekki gefast upp í fimmtugustu brekkunni! Við verðum að ná tindinum saman.

Ef svo fer að hjón skilja, þá þarf ekki endilega að ganga í annað hjónaband. Slík endurgifting getur beinlínis verið röng. Og svo er líka til sá möguleiki að búa einn eftir skilnað og ganga ekki í annað hjónaband.

Hjónaband sem heldur, styrkist með tímanum. Reynsla mín er sú að ástin vex með árunum, verður dýpri og sannari og þrautseigari. Þegar þeim áfanga er náð, eigum við sameiginlegan fjársjóð sem við getum notið þegar ellin færist yfir, börnin okkar líka og barnabörnin -og margir aðrir.

Hjónabandið er skóli skapgerðarinn er haft eftir Marteini Lúther. Kannski er réttari þýðing á orðum hans sú að það sé skóli persónuleikans eða nám í siðferðisþreki. Mér finnst vanta úthald og tryggð í mörg sambönd fólks í dag. Fólk reiðist eða móðgast, sárnar og verður biturt -vill ekki fyrirgefa og sættast, og fer sína leið. Fyrr á árum lét fólk miklu oftar reyna á "bandið". Mikið var lagt í sölurnar til að sjá hvort það héldi þótt á reyndi. Trúlega lenda langflest hjón í vanda í hjónabandinu. Það er ekki létt verk að sameina tvo ólíka einstaklinga með ólíkan bakgrunn, uppeldi og lífsvenjur. En ástin getur sigrað allt, ef vilji er fyrir hendi.

Kæru vinir, tökum okkur á í þessum efnum. Látum ekki segja okkur að lausnin sé "bara að skilja". Það er oftast léleg ef nokkur lausn. Í kjölfarið koma ótal vandamál sem geta varað lengi. Hjónabandið lengi lifi!


Álfar og nýr vegur um Gálgahraun


Allir trúa einhverju. Sumir á Guð, aðrir á náttúruna eða sjálfa sig. Ég heyrði á Bylgjunni í morgun, að kona sem trúir á álfa, segir þá óhressa með að leggja eigi nýjan veg um Gálgahraun og út á Álftanes. Hún sagði þá ekki geta sætt sig við vegarstæðið. Þáttargerðarmennirnir veltu því fyrir sér hvort álfar og trú á þá væri hjátrú eða veruleiki. Sumir trúa því að andar búi í trjám, fjöllum og öðrum náttúrufyrirbrigðum og ef hróflað sé við umræddum hlut, þá sé hætta á ferðum –andinn muni hefna sín og gera manni lífið leitt.

Kristið fólk þarf ekki að óttast neinar vættir né heldur álfa, hvort sem þeir eru til eða ekki. Andar eru vitaskuld til, um það eru mörg dæmi, en ef andar –eða skyldar verur- heimta að fá að búa í klettum eða öðru sem stendur í vegi fyrir því sem má vera mannlífinu til gagns og gleði, eins og beinn og breiður vegur, þá verða andarnir að víkja. Geri þeir kröfu um að eigna sér ákveðinn hól eða klett sem stendur í vegi fyrir bættum samgöngum eða betra mannlífi, þá er það merki um að þar séu á ferð illar vættir eða illir andar. Jesús talaði aldrei um að andar byggju í dauðum hlutum, en hann rak þá hins vegar út af fólki. Ef okkur er spáð hefnd andanna fyrir það eitt að gera jörðina byggilegri og öruggari, þá eigum við ekki að láta undan. Slíkir andar, eða hvað sem það er, eru þá af illum toga og vísa ber kröfu þeirra á bug. Við, kristið fólk, höfum umboð frá Kristi til að vinna bug á illum öndum, binda þá og leysa út (tilkynna) blessun og velferð í staðinn, fólki til góðs.

Þeir sem trúa á Krist þurfa ekki að óttast neinar vættir eða goðmögn –slíkt er tilbúningur manna eða þá illir andar í dulargerfi. Og ef þeir eru það síðarnefnda, þá eigum við ekki að víkja fyrir þeim, en þess í stað helga umrætt svið (land eða hól) Guði og nýta það sem góðir ráðsmenn Guðs góðu sköpunar.

Ég vona að umræddur vegur verði lagður sem fyrst, vegna þess að ég veit af eigin reynslu að núverandi vegur er bæði seinfarinn og hættulegur. Og ekki spillir að leggja veginn um Gálgahraun, þannig getum við betur notið fagurrar nátturu um leið og við ökum um svæðið.

Vatnsgrautarkærleikur

Fróður maður sagði mér um daginn að móðir hans hefði kallað það vatnsgrautarkærleika þegar menn þyrðu ekki að vara fólk við hættulegum hlutum af ótta við að vera taldir neikvæðir og dæmandi í augum fjöldans.  Mér finnst mikið um þetta meðal okkar kristinna manna í dag. Sumt kristið fólk lítur svo á að við megum ekki vara við veraldarhyggjunni, fráfallinu frá trúnni, siðferðishruninun og áhrifum ekki-kristinna trúarbragða sem nú leita hingað.  Það má ekki fæla fólk frá trúnni með neikvæðri gagnrýni, segir þetta fólk, heldur á kirkjan að vera jákvæð og umburðarlynd, brosa bara og vera elskuleg –eins og hjónin í sögunni um Biedermann og brennuvargana. Mig minnir að þau hafi jafnvel lánað brennuvörgunum verfæri til að kveikja í húsinu þeirra, og það af einskærri góðvild og elskulegheitum!

 

Spámannleg rödd varar við. Það að þegja um yfirvofandi hættu er svik við sannleikann og kærleikann. Kristið fólk þarf og á að fletta ofan af illskunni, það er boðskapur postulans. Jesús varaði við “súrdeigi” farísea og saddúkea (röngum kenningum þessara manna). Okkar skylda er líka að vara við, annað er vatnsgrautarkærleikur.

 

Vitaskuld eigum við að gera allt í kærleika, ekki í reiði og biturð. Við eigum að vera spámannleg rödd í þjóðfélaginu og kirkjunni og tala óttalaust.   Hvaða máli skiptir þótt einhverjir hreyti í okkur ónotum þegar við vörum við? Sé málstaður okkar góður og hjarta okkar hreint (laust við reiði og illsku) og fullt samúðar og hryggðar vegna ranglætisins, þá eigum við að láta í okkur heyra. Ef við vörum ekki við, þá lendir dómurinn á okkur sjálfum og fólk mun spyrja: “Af hverju sagðir þú mér þetta ekki, af hverju varaðir þú mig ekki við, þú vissir um hættuna og skildir að við vorum í stórhættu!”

 

Drottinn er upprisinn frá dauðum og stiginn upp til himna. Nú hefur ekki aðra boðbera á jörðu en þig og mig.  Tölum, vörum við og hvetjum fólk til að leita Drottins meðan enn er náðartíð, það kemur nefnilega að því að ógæfan dynur yfir ef við sjáum ekki að okkur. Biðjum að til þess þurfi ekki að koma.


Kristin trú og siðferðisgildi

Heilbrigð kristin trú og siðferði er besta vörnin gegn upplausn og hnignun þjóðarinnar
mbl.is Kristin gildi ráði við lagasetningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Friðrik Schram

Höfundur

Friðrik Agnar Ólafsson Schram
Friðrik Agnar Ólafsson Schram
Guðfræðingur og prestur Íslensku Kristskirkjunnar
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • fridrikschram 1125153.gif

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband