Settu mörk, sjálfum þér og öðrum

Okkur er öllum nauðsynlegt að hafa skýr mörk, bæði hvað varðar okkur sjálf og gagnvart öðrum. Það er ekki gott ef við leyfum öðrum að fara yfir þau mörk sem við í huga okkar höfum sett þeim. Það er á/okkar ábyrgð að þau séu virt. Ef aðrir vilja ráðskast með mig, tíma minn eða annað, þá ber mér að gera draga mig í hlé frá þeim og hugsanlega gera þeim ljóst að þeir hafi gengið of langt. Biðjum Guð og skynsamt fólk að leiðbeina okkur hvar mörkin eru í þessu sambandi. Þú átt þitt líf og Guð ætlar þér að nota það skv. leiðsögn hans og vilja. Þar mega aðrir ekki taka völdin af þér.

Sumt fólk er í þóknunarhlutverki og gjarnan upptekið við að gera öðrum til geðs. Vitaskuld getur það átt rétt á sér, ekki síst gagnvart ungum börnum eða sjúkum ættingjum, en stundum fer þetta út yfir öll eðlileg mörk. Þá verður maður að taka á sig rögg og ákveða hve langt skuli ganga við að þóknast og þjóna öðrum.

Jesús hafði skýr mörk og áform en lagði samt oft lykkju á leið sín til að þjóna fólki og þóknast því. Hann er frábær fyrirmynd hvað þetta varðar. Þar er jafnvægi á hlutunum. Ef við hugum ekki að þessu, er hætt við að við komum ekki í verk því sem við verðum að gera, en eyðum of miklum tíma og kröftum í það sem ekki er nauðsynlegt.

En svo er það hin hliðin: Við sjálf. Við verðum að setja sjálfum okkur mörk. Til dæmis að fara vel með tímann eða annað sem við höfum til ráðstöfunar. Ekki gleyma okkur við tölvuna tímunum saman þegar við ætluðum rétt aðeins að kíkja á netið. Eins það að fara ekki of seint að sofa eða sofa ekki of lengi, borða ekki of mikið eða óhollan mat o.s.f. Það er skrýtið ef ég hef “allt á hreinu” gagnvart öðrum, en leyfi sjálfum mér óreiðu.

Við þurfum að hugleiða þessa hluti –bæði ytri og innri mörk (gagnvart örðum og svo í eigin lífi) og koma reglu þar á ef við höfum verið slöpp og kærulaus. Ef við venjum okkur á skýr mörk í lífi okkar, þá líður okkur betur, við komum meiru í verk og aðrir bera virðingu fyrir okkur. Ef við hins vegar höfum allt “opið” og látum hlutina bara fara svona eða hinsegin, þá verðum við innst inni ófullnægð og vonsvikin og aðrir munu síður bera virðingu fyrir okkur og í framhaldi af því munu þeir hugsanlega fara yfir mörkin og byrja að ráðskast með okkur.


Lestur Biblíunnar


Það er oft vitnað í Biblíuna á Alþingi. Biblían er slíkt öndvegisrit og áhrifavaldur hvað varðar menningu og bókmenntir á vesturlöndum að nauðsynlegt er fyrir þá sem fjalla opinberlega um mannlegt líf og þjóðfélagsmál að þekkja til texta hennar, a.m.k. mikilvægustu hlutanna, þar með talið Fjallræðunnar.

Þeir sem vilja kynnast texta þessarar öndvegisbókar eru stundum í óvissu hvar þeir eiga að byrja lesturinn og síðan hvað lesa skuli í framhaldi af því. Til að hjálpa fólki í þessu sambandi, höfum við í Ísl. Kristskirkjunni útbúið skrá með völdum textum, bæði úr Gamla og Nýja testamentinu. Birtast þeir mánaðarlega á heimasíðu safnaðarins (www.kristskirkjan.is).

Í dag settum við inn á heimasíðuna lestrarskrá fyrir nóvember og hvetjum við ykkur sem hafið hugsað ykkur að hressa upp á minnið hvað varðar biblíutextana að skoða lestrarskrána og notfæra ykkur hana við lesturinn. Sá lestur getur orðið ykkur til fróðleiks og andlegrar uppbyggingar trúi ég. Slóðin er þessi: http://www.kristskirkjan.is/images/stories/bibliulestraraaetlun_nov2012.pdf


Aftur á byrjunarreit!

Þessi orð komu mér í hug þegar ég var á heilsubótargöngu í Elliðaárdalnum í morgun. Málið er að oft hefur maður ætlað að vera duglegur og fara út að ganga eða hjóla –gera það að reglu- en svo hafa þau góðu áform riðlast og minna orðið úr en til stóð. Hver kannast ekki við það? En þegar maður svo hefur sig af stað og byrjar aftur að hreyfa sig eftir svo eða svo langt hlé, þá finnur maður hvað hreyfingin er góð. Hættan er sú að þegar maður fer að slá slöku við, þá komist maður bara alls ekki aftur af stað. Maður segir við sjálfan sig: “Það þýðir ekkert að vera með þessi áform um reglulega hreyfingu, þau fara öll í vaskinn!” og svo hættir maður bara að hreyfa sig og verður stirður og þunglamalegur! Nei, nei, það má ekki gerast. Ef maður hefur trassað hið góða, hvað sem það er, þá er um að gera að fara aftur á “byrjunarreitinn” ....taka sig taki og byrja aftur. Er á meðan er.

Ég held að lífið sé þannig hjá flestum að það gengur í bylgjum. Stundum er maður duglegur og í framhaldi af því ánægður og líður vel og stundum óduglegur (kærulaus um góðar lífsvenjur) og þá leiður og kannski með samviskubit. En við megum ekki vera of hörð við okkur sjálf. Í Biblíunni segir að Guð minnist þess að við erum mold (veikleika vafin) og Jesús sagði: “Andinn er að sönnu reiðubúinn, en holdið er veikt.” Við höfum öll góð áform, en svo verður stundum (oft!) minna úr en til stóð í byrjun. Hvað eigum við þá að gera? Þá er um að gera að fara aftur á upphafsreitinn og byrja upp á nýtt. Þetta á við allt gott í lífinu, reglusemi hvers konar
–næringu, hvíld, ástundun vinnunnar, það að lesa Biblíuna, fara í kirkju, eiga persónlegar bænastundir o.s.f. -allt þetta sem gerir lífið betra.

Ég talaði í morgun við mann sem hefur ekki komið í kirkjuna í nokkra mánuði. Hann ætlaði sér ekki að vanrækja trúarsamfélagið af ásettu ráði, en það var svo mikið að gera að hann tók að sér vinnu “sýknt og heilagt” (bæði helga og virka daga) og svo duttu kirkjuferðirnar bara upp fyrir :-( En hann sagði, “Nú ætla ég að fara koma aftur í kirkjuna.” Batnandi manni er best að lifa, segi ég. Ekki missa móðinn þótt þú hafir slakað á, taktu þig bara á og byrjaðu aftur á því sem gott er. Þá er allt á góðri leið á ný.


Sirrý hittir naglann á höfuðið


Ég hlustaði í morgun, eins og oft áður, á fréttaþáttinn â€œÍ bítið” á Bylgjunni. Þar var fjölmiðlakonan Sirrý (Sigríður Arnardóttir) í viðtali hjá Heimi og Kollu. Tilefnið var nýútkomin bók eftir Sirrý sem heitir “Laðaðu til þín það góða”. Afskaplega var ánægjulegt að hlusta á viðtalið við Sirrý. Hún lagði áherslu á jákvætt lífsviðhorf eins og þakklæti, bjartsýni, marksækni og almenna manngæsku. Það eina sem ég saknaði var að hún talaði um Jesú Krist! Í honum finn ég uppsprettu alls þess jákvæða sem hún var að tala um. Kannski hefur hún fundið þessi auðævi við að lesa Nýja testamentið...? Hver veit?

En hvað um það, hvatning hennar til hlustenda að vera þakklátir var frábær. Þakkaðu fyrir að geta dregið andann, þakkaðu fyrir ferska loftið (þótt stundum blási!), þakkaðu fyrir að þú skyldir geta farið á fætur í morgun, klætt þig og farið út, þakkaðu fyrir að eiga vini og svo margt annað.... Já þakkarefnin eru óteljandi. Við þurfum að temja okkur jákvæðan lífsstíl, sagði hún, ekki lifa í “holræsunum” –þ.e. vera sífellt kvartandi og möglandi, niðurdregin og svartsýn.... Það er svo margt gott til og ef við miðlum því góða, þá löðum við að okkur hið góða. Bros kallar á bros. Hlý orð vekja jákvæðni. Að fá er ávöxtur þess að gefa. Jesús orðaði það þannig: Gefið og yður mun gefið verða.

Við minntumst upprisu Jesú á nýliðnum páskum og Páll postuli hvetur okkur til að minnast Jesú Krists aftur og aftur, hans sem reis upp frá dauðum. Það er skynsamlegt að vera þakklátur og jákvæður, bæði fyrir okkur sjálf og aðra. Líkami okkar framleiðir hvatann serótónín ef við erum jákvæð og glöð, en áhyggjur, kvíði og neikvæðni eyða því efni. Okkar er valið. Þannig séð er gæfa okkar á okkar eigin valdi. En lífsgleðin, jákvæðnin og upprisukrafturinn sem við sjáum hjá Jesú margfaldar þessi jákvæðu viðhorf hjá okkur. Kristið fólk er (eða hefur allar ástæður til að vera) “the happiest people on earth”. Hvað með þig og mig? Okkar er valið. Forsendan er fyrir hendi: við erum sköpuð af góðum Guði og eigum dásamlegan frelsara. Kristinn maður getur ekki annað en brosað við tilverunni. Stundum gleymum við okkur í mótbyr lífsins, en svo hrökkvum við “í gírinn” og minnumst þess að Guð er bara góður og lífið er dásamlegt.


Hefur þú verið “down”?


En hvað gerir þú þegar þú ert leiður og niðurdreginn? Dregur þig hlé? Ferð minna út á meðal fólks og leyfir þér kannski að vera heima og láta vita að þú sért “lasinn”? En það er skammgóður vermir. Þegar ég er að tala um að vera þungur í skapi og niðurdreginn, þá á ég ekki við alvarlegt þunglyndi, við því þurfum við að leita læknis. Nei, ég meina svona almenna vanlíðan þegar lífið gengur ekki eins og við höfðum vonað, t.d. þegar við eigum tæpast fyrir skuldum, þegar okkur er sögð upp vinnan, þegar við missum ástvin, eða bara þegar okkur verður sundurorða við einhvern annan eða verðum fyrir vonbrigðum með framkomu hans.

Ein mikilvægasta þörf kristins trúaðs fólks (ekki síst þegar maður er “down”) er að vera innan um annað kristið fólk þar sem maður fær tækifæri til að tala saman, lofa Guð saman, biðja saman og hlusta á uppövandi boðskap úr Orði Guðs. Það að VERA SAMAN er mjög mikilvægt. Þannig rýfur maður eingangrun sína, beinir athyglinni frá eigin vanlíðan og að einhverju góðu og uppörvandi. Það lyftir manni upp. Maður er manns gaman.

Ég hvet þig, sem líður illa vegna einhverrar erfiðrar reynslu, þig sem ert hnugginn og vonsvikinn, að einangra þig ekki. Farðu í samfélag trúaðra, fáðu fyrirbæn, taktu þátt í lofgjörðinni. Gefðu af þér og gleddu aðra með brosi og hlýju handtaki, einmitt þegar þér finnst þú ekkert hafa að gefa! Ef við gefum örðum eitthvað gott, þá fáum við eitthvað gott! Þannig er það í Guðs ríki. Gefið og yður mun gefið verða, sagði Jesús; og það á líka við jákvætt viðmót og uppörvandi orð.

Lokaorð: Ekki loka þig af. Taktu þig taki. Farðu innan um gott fólk. Gefðu af þér (í trú að þú fáir eitthvað gott í staðinn). Taktu ákvörðun um að vera glaður –vegna Drottins, vegna þess að hann elskar þig, er hjá þér og vill hjálpa þér.


Manstu þegar þú.....?



Já, manstu þegar þú mættir Guði í fyrsta sinn, þegar þú fannst snertingu hans? Kannski var það þegar þú frelsaðist, eða við ferminguna þína þegar þú játaðir það að vilja hafa Jesú Krist sem leiðtoga lífs þíns....? Eða þegar þú hafðir fjarlægst Guð og fannst þú vera misheppnuð/aður og taldir að hann hefði ekki lengur vanþóknun á þér, en þá heyrðir þú um kærleika hans og vilja til að fyrirgefa þér....? Já, manstu þetta? Þá varpaðir þú þér í fang hans og þú FANNST kærleika hans og fyrirgefningu. Mörg eigum við slíkar minningar, en kannski er langt um liðið og fennt í sporin? En þegar atburðurinn átti sér stað (forðum daga), þá varst þú ekkert nema einlægnin, og upplifunin af snertingu og kærleika Guðs svo sterk og raunveruleg. Mig langar að spyrja þig: Átt þú enn vissuna um að það var góður Guðs sem snerti við þér, tók við þér, fyrirgaf þér og blessaði þig....? Eða ertu kannski farin/inn að efast...? Ertu hugsanlega farin/inn að telja þér trú um að þetta hafi bara verið barnaskapur og tilfinningasemi? Að þetta hafi, þegar öllu er á botninn hvolft, ekki verið Guð, heldur þínar eigin ímyndanir og tilfinningar? Af hverju ættir þú að hugsa þannig? Er djöfullinn e.t.v. að reyna að ræna þig blessuninni og góðu minningunum sem Guð ætlaði þér að varðveita sem fjársjóð til að láta endast allt lífið og minna þig á elsku hans og trúfesti?

Sjálfur á ég nokkrar slíkar dýrmætar minningar sem ég rifja upp af og til, minningar sem eru mér meira virði en flestar aðrar. Ég ætla ekki að láta djöfulinn ræna mig þeirri blessun. Hann skal ekki geta talið mér trú um að það sem þá gerðist hafi verið hugarburður og upplifun sem bara byggðist á stemmingu líðandi stundar, nei, takk! Þessar dýrmætu minningar mínar ætla ég að varðveita í hjarta mér (og heila!) meðan ég hef vit og heilsu til. Þær eru mér sönnun þess að Guð faðir elskar mig og er virkilega annt um mig. Ég er honum kær sonur sem hann hefur velþóknun á. Velþóknun Guðs byggist ekki á einhverjum mannlegum verðleikum hjá mér, ef svo væri, gæti ég átt von á því að hann snéri sér að öðrum þegar ég gerði mistök og ylli honum vonbrigðum. Nei, þannig er Guð ekki. Hann elskar án skilyrða. Úff! hvílíkur léttir, að ég skuli ekki þurfa að koma mér í mjúkinn hjá honum með “góðri” frammistöðu.... þó að hún í sjálfu sér spilli ekki.

En aftur að því sem ég var að tala um: Góðu minningunum, -minningunum um það þegar Guð gerði eitthvað mjög sérstakt í lífi þínu. Rifjaðu það upp. Skrifaðu það hjá þér (þá getur þú betur rifjað það upp!). Mundu: Guði þykir vænt um þig og hann mætti þér á þann hátt sem hentaði þér. Og hann vill að þú rifjir það upp og minnir þig á að hann elskar þig enn og er ennþá með þér til að blessa þig og gera þig að blessun fyrir aðra.

Trúin eykur geðheilbrigði og lífshamingju

Hvernig? Heilbrigð iðkun trúarinnar veitir:

1. ...heilbrigða sjálfsmynd sem styrkist af þeirri vissu að ég er skapaður af góðum Guði og vel gerður af  hans hendi, enda skapar hann ekkert vont eða misheppnað.

2. ....heilbrigða mynd af Guði -en Jesús hefur gefið okkur hana. Í Jesú Kristi sjáum við hina réttu mynd af Guði, þar kynnumst eðli hans, hugarfari hans og viðhorfi til okkar, syndugra manna, en það einkennist af skilyrðislausum, fyrirgefandi kærleika og velþóknun.

3. ....vissu um að Guð fyrirgefur okkur syndir, mistök og vanrækslu (ef við iðrumst!). Fyrirgefning Guðs veitir innri frið og góða samvisku (á ný) sem hrekur burt kvíða, áhyggjur, vanmetakennd, skömm og margar aðrar vondar tilfinningar. Við verðum sátt við Guð.

4. ....sátt við annað fólk. Það að Guð fyrirgefur mér, hvetur mig til að fyrirgefa þeim sem mér finnst hafa gert á minn hlut. Þegar ég hætti að ásaka aðra, þá "sleppi" ég þeim og læt af biturð og vondum hugsunum. Einnig það veitir innri frið og jafnvægi og í slíkum jarðvegi vex gleðin hröðum skrefum.

5 ....hvíld og slökun.  Í Biblíunni merkir orðið friður (shalom) jafnvægi krafta þar sem allt vinnur saman að árangri (í stað togstreitu). Friður Guðs er virkur, uppbyggjandi friður en ekki hugsunarlaust aðgerðarleysi eða hlé á átökum.  Afleiðing af friði Guðs er jafnvægi í líkama og sál og velgengni í lífinu.

Þetta er reynsla mín. Ég hafði vanmetakennd, var kvíðinn og reiður, en svo kom Guð inn í  líf mitt með sannleikann (frá Kristi) sem gerði mig frjálsan. Meiriháttar!  Ég mæli með því að þú prófir það líka. 


Tjáningarfrelsið í hættu?

Er Baldur Kristjánsson, prestur, orðinn mælikvarði Evrópuráðsins á það hvað leyfilegt er að segja hér á landi um menn og málefni? Mér finnst hann, þessi fyrrum skólabróðir minn í guðfræðideild,  vera farinn að setja sig á all háan hest, ef marka má ummæli hans um tjáningarfrelsið á bloggsíðu hans á Eyjunni (titill: "Tjáningarfrelsi böðulsins").  Hann er, að því er mér skilst, fulltrúi Íslands í nefnd á vegum Evrópuráðsins sem standa á vörð um réttindi minnihlutahópa og gæta þess að enginn verði fyrir skorti á umburðarlyndi (hvernig sem það nú er hægt).

Mér finnst skrif hans um þessi mál gefa í skyn að sumir megi segja sína skoðun (þar á meðal hann og hans skoðanabræður) á framkomu og orðum annarra, en tæplega þeir sem eru annarrarr skoðunar. Sé svo, þá er í illt efni komið. Yfirvöld verða að gæta þess hvers konar fulltrúa þau velja í eins vandasamt starf og það að standa vörð um tjáningarfrelsi og mennréttindi. Það verður að vera aðili sem skilur afstöðu og viðhorf allra vel þenkjandi manna sem vilja tjá sig um lifað líf á okkar tímum.  Hann má sjálfur ekki hafa fordóma í garð þeirra sem hann er ósammála, því að þá hefur málið (mennréttindi allra) snúist upp í andhverfu sína, þá er sumum mismunað í þágu annarra. Það eru ekki mannréttindi heldur hlutdrægni.


Geirsmálið: Annað hvort öll eða enginn

Það hefði átt að samþykkja vítur á fjórmenningana -ráðherrana sem brugðust því að vernda okkur almenning gegn yfirstandandi bankahruni og láta það duga. Allt þetta dýra og fráleita dómsmál gegn Geir hefur kostað allt of mikla peninga, fyrirhöfn og deilur. Það hefði átt að víta ráðherrana og banna þeim afskipti af stjórnmálum í ákveðið langan tíma eftir það.  Það hefði verið lang einfaldast og áhrifaríkast.  Það hefði líka haft mikinn fælingarmátt fyrir aðra því að hvaða stjórnmálamaður vill láta víta sig opinberlega og fá á sig bann? Örugglega enginn.

En hvað um það, mér finnst ekki rétt að dæma Geir sekan ef mál hinna verða ekki einu sinni rannsökuð fyrir rétti. Það er ekkert réttlæti í því. Auðvitað er Geir sekur um vanrækslu og að draga fæturna í málinu og líka hinir þrír ráðherrarnir. Þetta fólk vissi í hvað stefndi en gerði ekkert róttækt til að afstýra hruninu. En að draga einn fyrir rétt, og hugsanlega dæma hann, en sleppa hinum, gengur ekki.


Stjórnmál í Noregi og á Íslandi -tvennt ólíkt

     Grein Árna Pálssonar, fyrrv. ráðherra, í Fréttablaðinu í dag er mjög athyglisverð. Hann segir að stjórnmálaflokkar í Noregi, með andstæðar skoðanir, reyni að forðast að taka ákvarðanir í mikilvægum málum með naumum meirihluta (á Stortinget).

     Hér er á Íslandi hundsa stjórnmálaflokkarinir hins vegar oftast hver annan og knýja fram sinn vilja gegn skoðunum "andstæðinganna", oft með naumum meirihluta.... Þegar svo "andstæðingurinn" kemst í meirihluta, þá snýr hann málinu við og knýr fram andstæða stefnu og þá gjarnan líka með mjög naumum meirihluta. Þetta verklag veldur árekstrum og óvild andstæðra fylkinga og fólk almennt fær óbeit á stjórnmálum.
     Almenningur krefst þess nú að þingmenn leiti oftar málamiðlana í þágu þjóðarinnar en keyri ekki fram einstrenginslega stefnu síns flokks á kostnað hagsmuna heildarinnar.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Friðrik Schram

Höfundur

Friðrik Agnar Ólafsson Schram
Friðrik Agnar Ólafsson Schram
Guðfræðingur og prestur Íslensku Kristskirkjunnar
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • fridrikschram 1125153.gif

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband