10.3.2012 | 17:24
Manstu þegar þú.....?
Já, manstu þegar þú mættir Guði í fyrsta sinn, þegar þú fannst snertingu hans? Kannski var það þegar þú frelsaðist, eða við ferminguna þína þegar þú játaðir það að vilja hafa Jesú Krist sem leiðtoga lífs þíns....? Eða þegar þú hafðir fjarlægst Guð og fannst þú vera misheppnuð/aður og taldir að hann hefði ekki lengur vanþóknun á þér, en þá heyrðir þú um kærleika hans og vilja til að fyrirgefa þér....? Já, manstu þetta? Þá varpaðir þú þér í fang hans og þú FANNST kærleika hans og fyrirgefningu. Mörg eigum við slíkar minningar, en kannski er langt um liðið og fennt í sporin? En þegar atburðurinn átti sér stað (forðum daga), þá varst þú ekkert nema einlægnin, og upplifunin af snertingu og kærleika Guðs svo sterk og raunveruleg. Mig langar að spyrja þig: Átt þú enn vissuna um að það var góður Guðs sem snerti við þér, tók við þér, fyrirgaf þér og blessaði þig....? Eða ertu kannski farin/inn að efast...? Ertu hugsanlega farin/inn að telja þér trú um að þetta hafi bara verið barnaskapur og tilfinningasemi? Að þetta hafi, þegar öllu er á botninn hvolft, ekki verið Guð, heldur þínar eigin ímyndanir og tilfinningar? Af hverju ættir þú að hugsa þannig? Er djöfullinn e.t.v. að reyna að ræna þig blessuninni og góðu minningunum sem Guð ætlaði þér að varðveita sem fjársjóð til að láta endast allt lífið og minna þig á elsku hans og trúfesti?
Sjálfur á ég nokkrar slíkar dýrmætar minningar sem ég rifja upp af og til, minningar sem eru mér meira virði en flestar aðrar. Ég ætla ekki að láta djöfulinn ræna mig þeirri blessun. Hann skal ekki geta talið mér trú um að það sem þá gerðist hafi verið hugarburður og upplifun sem bara byggðist á stemmingu líðandi stundar, nei, takk! Þessar dýrmætu minningar mínar ætla ég að varðveita í hjarta mér (og heila!) meðan ég hef vit og heilsu til. Þær eru mér sönnun þess að Guð faðir elskar mig og er virkilega annt um mig. Ég er honum kær sonur sem hann hefur velþóknun á. Velþóknun Guðs byggist ekki á einhverjum mannlegum verðleikum hjá mér, ef svo væri, gæti ég átt von á því að hann snéri sér að öðrum þegar ég gerði mistök og ylli honum vonbrigðum. Nei, þannig er Guð ekki. Hann elskar án skilyrða. Úff! hvílíkur léttir, að ég skuli ekki þurfa að koma mér í mjúkinn hjá honum með góðri frammistöðu.... þó að hún í sjálfu sér spilli ekki.
En aftur að því sem ég var að tala um: Góðu minningunum, -minningunum um það þegar Guð gerði eitthvað mjög sérstakt í lífi þínu. Rifjaðu það upp. Skrifaðu það hjá þér (þá getur þú betur rifjað það upp!). Mundu: Guði þykir vænt um þig og hann mætti þér á þann hátt sem hentaði þér. Og hann vill að þú rifjir það upp og minnir þig á að hann elskar þig enn og er ennþá með þér til að blessa þig og gera þig að blessun fyrir aðra.
Meginflokkur: Trúmál | Aukaflokkar: Bloggar, Lífstíll, Trúmál og siðferði | Facebook
Um bloggið
Friðrik Schram
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.