Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hátíð vonar

Þegar maður horfir yfir árið sem nú er að renna sitt skeið á enda er manni þakklæti efst í huga. Þakklæti fyrir það sem hefur vakið von og bjartsýni. Þar stendur hæst Hátíð vonar í Laugardalshöll. En fleira hefur vakið von. Þegar bankarnir hrundu og þjóðfélagið fór á hliðina haustið 2008 gerði margt kirkjufólk ráð fyrir því að almenningur myndi snúa sér að trúnni og fjölmenna í kirkjurnar til að leita eftir huggun og uppörvun. Það gerðist hins vegar ekki. Í stað þess urðu margir reiðir og vonsviknir og hugur þeirra varð upptekinn af því neikvæða sem gerst hafði. Það er reyndar ekki undarlegt þótt fólk yrði reitt og vonsvikið. Mjög margir töpuðu nær öllu sínu sparifé, aðrir misstu íbúðir sínar og fyrirtæki. Margir sem misstu vinnuna urðu að flýja land og leita atvinnu erlendis. Allt þetta reyndi mjög á þjóðina. En þótt þessar öldur reiði ýfðu yfirborðið, þá hvarf trúin ekki úr hjörtum fólksins. Á Hátíð vonar kom í ljós að mjög margt fólk var opið fyrir boðskap Jesú Krists. Eins heyrast nú æ fleiri raddir sem líkar ekki andófið gegn kristinni trú sem mikið hefur borið á í þjóðfélaginu og sem m.a. birtist í aðgerðum borgarstjórnar Reykjavíkur (sérstaklega hvað varðar grunnskólana). Fólk finnur og veit að trúin á Jesú Krist er sú kjölfesta og vegvísir sem þjóðin þarfnast. Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, flutti góða ræðu á síðata kirkjuþingi þar sem hún minnti á þessa hluti. Mætur skólamaður tók í sama streng í fjölmiðlum fyrir nokkrum dögum. Ég held að þjóðin sé aftur að vakna til vitundar um gildi kristinnar trúar. Það vekur von. Við horfum fram á nýtt ár -2014- með von í hjarta. Það er greinilega hugur í ýmsum prestum og safnaðarleiðtogum, ekki síst þeim sem stóðu að og tóku þátt í Hátíð vonar. Nú þurfum við að vinna vel, vanda okkur og bregðast hvorki Guði né þjóðinni hvað það varðar að finna leiðir til að flytja henni það besta sem við eigum –trúna á Jesú Krist. Í september n.k. verður Kristsdagur í Reykjavík. Hann er hátíð fyrir allt kristið fólk sem vill sameinast um að hefja nafn Drottins á loft og minna þjóðina á kærleika Guðs eins og hann birtist í Jesú Kristi. Stöndum saman um þann mikilvæga atburð og látum ljós Krists skína gegnum líf okkar og söfnuði okkar, þjóðinni til blessunar svo að hér verði kristin trúarvakning.


Lestur Biblíunnar


Það er oft vitnað í Biblíuna á Alþingi. Biblían er slíkt öndvegisrit og áhrifavaldur hvað varðar menningu og bókmenntir á vesturlöndum að nauðsynlegt er fyrir þá sem fjalla opinberlega um mannlegt líf og þjóðfélagsmál að þekkja til texta hennar, a.m.k. mikilvægustu hlutanna, þar með talið Fjallræðunnar.

Þeir sem vilja kynnast texta þessarar öndvegisbókar eru stundum í óvissu hvar þeir eiga að byrja lesturinn og síðan hvað lesa skuli í framhaldi af því. Til að hjálpa fólki í þessu sambandi, höfum við í Ísl. Kristskirkjunni útbúið skrá með völdum textum, bæði úr Gamla og Nýja testamentinu. Birtast þeir mánaðarlega á heimasíðu safnaðarins (www.kristskirkjan.is).

Í dag settum við inn á heimasíðuna lestrarskrá fyrir nóvember og hvetjum við ykkur sem hafið hugsað ykkur að hressa upp á minnið hvað varðar biblíutextana að skoða lestrarskrána og notfæra ykkur hana við lesturinn. Sá lestur getur orðið ykkur til fróðleiks og andlegrar uppbyggingar trúi ég. Slóðin er þessi: http://www.kristskirkjan.is/images/stories/bibliulestraraaetlun_nov2012.pdf


Tjáningarfrelsið í hættu?

Er Baldur Kristjánsson, prestur, orðinn mælikvarði Evrópuráðsins á það hvað leyfilegt er að segja hér á landi um menn og málefni? Mér finnst hann, þessi fyrrum skólabróðir minn í guðfræðideild,  vera farinn að setja sig á all háan hest, ef marka má ummæli hans um tjáningarfrelsið á bloggsíðu hans á Eyjunni (titill: "Tjáningarfrelsi böðulsins").  Hann er, að því er mér skilst, fulltrúi Íslands í nefnd á vegum Evrópuráðsins sem standa á vörð um réttindi minnihlutahópa og gæta þess að enginn verði fyrir skorti á umburðarlyndi (hvernig sem það nú er hægt).

Mér finnst skrif hans um þessi mál gefa í skyn að sumir megi segja sína skoðun (þar á meðal hann og hans skoðanabræður) á framkomu og orðum annarra, en tæplega þeir sem eru annarrarr skoðunar. Sé svo, þá er í illt efni komið. Yfirvöld verða að gæta þess hvers konar fulltrúa þau velja í eins vandasamt starf og það að standa vörð um tjáningarfrelsi og mennréttindi. Það verður að vera aðili sem skilur afstöðu og viðhorf allra vel þenkjandi manna sem vilja tjá sig um lifað líf á okkar tímum.  Hann má sjálfur ekki hafa fordóma í garð þeirra sem hann er ósammála, því að þá hefur málið (mennréttindi allra) snúist upp í andhverfu sína, þá er sumum mismunað í þágu annarra. Það eru ekki mannréttindi heldur hlutdrægni.


Geirsmálið: Annað hvort öll eða enginn

Það hefði átt að samþykkja vítur á fjórmenningana -ráðherrana sem brugðust því að vernda okkur almenning gegn yfirstandandi bankahruni og láta það duga. Allt þetta dýra og fráleita dómsmál gegn Geir hefur kostað allt of mikla peninga, fyrirhöfn og deilur. Það hefði átt að víta ráðherrana og banna þeim afskipti af stjórnmálum í ákveðið langan tíma eftir það.  Það hefði verið lang einfaldast og áhrifaríkast.  Það hefði líka haft mikinn fælingarmátt fyrir aðra því að hvaða stjórnmálamaður vill láta víta sig opinberlega og fá á sig bann? Örugglega enginn.

En hvað um það, mér finnst ekki rétt að dæma Geir sekan ef mál hinna verða ekki einu sinni rannsökuð fyrir rétti. Það er ekkert réttlæti í því. Auðvitað er Geir sekur um vanrækslu og að draga fæturna í málinu og líka hinir þrír ráðherrarnir. Þetta fólk vissi í hvað stefndi en gerði ekkert róttækt til að afstýra hruninu. En að draga einn fyrir rétt, og hugsanlega dæma hann, en sleppa hinum, gengur ekki.


Stjórnmál í Noregi og á Íslandi -tvennt ólíkt

     Grein Árna Pálssonar, fyrrv. ráðherra, í Fréttablaðinu í dag er mjög athyglisverð. Hann segir að stjórnmálaflokkar í Noregi, með andstæðar skoðanir, reyni að forðast að taka ákvarðanir í mikilvægum málum með naumum meirihluta (á Stortinget).

     Hér er á Íslandi hundsa stjórnmálaflokkarinir hins vegar oftast hver annan og knýja fram sinn vilja gegn skoðunum "andstæðinganna", oft með naumum meirihluta.... Þegar svo "andstæðingurinn" kemst í meirihluta, þá snýr hann málinu við og knýr fram andstæða stefnu og þá gjarnan líka með mjög naumum meirihluta. Þetta verklag veldur árekstrum og óvild andstæðra fylkinga og fólk almennt fær óbeit á stjórnmálum.
     Almenningur krefst þess nú að þingmenn leiti oftar málamiðlana í þágu þjóðarinnar en keyri ekki fram einstrenginslega stefnu síns flokks á kostnað hagsmuna heildarinnar.

Væntanlegt biskupskjör

Þjóðkirkjan þarf á traustum og friðsömum manni að halda í biskupsembættið.  Nóg er komið af átökum. Leggja verður til hliðar deilur um hjúskap og stöðu samkynhneigðra, feminisma og önnur slík tískufyrirbæri. Kirkjan hefur mikilu mikilvægara hlutverki að gegna en að standa í baráttu fyrir minnihlutahópa sem vilja fara annarlegar leiðir og berjast fyrir hlutum sem sum eru í andstöðu við kristna og biblíulega siðfræði og mynd fjölskyldunnar.  Nú þarf aðila sem finnur leiðir til að vekja aftur traust fólks á kirkjunni með friðsamlegri, framsækinni og traustvekjandi framkomu.  

Deilur um alls konar pólitísk efni og hamagangur til að koma fram einhverjum sérhagsmunamálum kemur ekki að gagni við útbreiðslu trúarinnar. Nú þarf nýtt átak til boðunar hinna sígildu og sönnu grunnatriða trúarinnar -kjarnatriðið sjálfs fangaðarerindinsins um að Jesús er frelsari frá synd og dauða og sá sem kallar okkur til helgunar og til að vera útrétt hönd til friðar og kærleiksverka.  


Gott siðferði lifir ekki lengi ef þjóðin afkristnast

Trú á persónulegan Guð, sem stendur ekki á sama um hvernig við lifum, er hvatning til þess að vanda líf sitt og forðast að skaða aðra.  Það er ekki nóg að þekkja almennar kurteisisreglur og boðorðin tíu ef maður trúir ekki á Guð. Ef ég veit að ég verð að standa Guði reikningskil á lífi mínu og athöfnum, þá eru miklu meiri líkur á að ég leitist við að lifa siðferðilega góðu lífi, en ef ég er guðleysingi eða trúi á einhvern fjarlægan, ópersónulegan Guð sem er sama um hvernig ég lifi.

Þetta virðast  margir ekki hugsa útí. Þeir tala a.m.k. sjaldan um það.  Þetta er alvarlegt mál og verulegt áhyggjuefni. Ef unga kynslóðin lærir ekki að "óttast Guð sinn herra" -bera virðingu fyrir  boðum Guðs og óttast afleiðingar þess að brjóta þau- þá mun almennu siðferði hnigna smám saman, já, kannski miklu fyrr en við ímyndum okkur.  Greinileg merki þessarar þróunar blasa hvarvetna við í þjóðfélagi okkar. Ég ætla ekki að nefna dæmi í þetta sinn, þér koma sjálfum eflaust mörg í hug -fylgstu bara með fjölmiðlunum.

Foreldrar þurfa að kenna börnum sínum að trúa á Jesú Krist -hann er besta siðferðisfyrirmynd sem við eigum á þessari jörð. Það er ótvírætt.  Stjórnmálamenn þurfa að móta löggjöfina í anda hans.  Fjölmiðlarnir þurfa að bjóða upp á miklu meira af góðu kristilegu efni sem eflir gott siðferði. Ef ekki er minnt á Jesú og kenningu hans og fyrirmynd í fjölmiðlunum og af ráðamönnum, þá munu kristin áhrif dvína og menningunni hraka. Viljum við það? Það mun koma illa niður á okkur sjálfum að ég tali ekki um næstu kynslóðir. Ábyrgðin er okkar sem nú lifum og ráðum. Hugsum um þetta og gerum eitthvað í málinu.


2012 nýtt náðar-ár

Síðstliðið ár var erfitt fyrir flesta kristna söfnuði í landinu. Alls konar slæm mál komu upp og önnur héldu áfram að valda erfiðleikum, mál sem áttu rætur að rekja til bankahrunsins  En nú er komið nýtt ár!   Við skulum ekki horfa um öxl að nauðsynjalausu. Það getur reynst afdrifaríkt eins og var í tilfelli konu Lots og sagt er frá í 1. Mósebók.  Í spádómsbók Jesaja, 43:18 segir Drottinn við leifar Ísraels sem voru að snúa aftur til Jerúsalem úr herleiðingunni til Babýlon: “Hugsið ekki um erfiðleika hins liðna og veltið ekki fyrir ykkur því sem áður var. Takið eftir, ég hef nýtt fyrir stafni! Þarna kemur það! Sjáið þið það ekki?”   Þegar Jesús byrjaði starf sitt kom hann með yfirlýsingu. Niðurlagsorðs hennar eru þau að Guð hafi sent hann ...til að kunngjöra náðarár Drottins. Á náðarári í Ísrael var venjan að gefa mönnum upp skuldir, hjálpa fjölskyldum til að fá aftur land sem þær höfðu misst af einhverjum óviðráðanlegum ástæðum og fleira í þeim dúr.  Það þýddi endurreisn, viðreins, björgun, frelsun úr ánauð og skuldafjötrum.  Náð Drottins er ekki þrotin, miskunn hans ekki á enda, hún er ný á hverjum morgni, mikil er trúfesti þín!  segir í Harmljóðunum. Þau (Harmljóðin)  voru ort þegar Jerúsalem hafði verið lögð í rúst og þjóðin herleidd til Babýlon, þegar öll von virtist út. En ef við snúum okkur til Drottins, áköllum hann, iðrumst og biðjum hann um náð, þá veitir hann náð!  Hann iðrast  þess ekki að gefa okkur náð sína.  Það eru góðar fréttir.  Með þetta í huga skulum við horfa fram á hið nýja ár.  Trúum því að Drottinn vilji örugglega gera nýja og góða hluti í lífi okkar sem einstaklinga, fjölskyldna, kirkju og þjóðar, hluti sem flytja okkur náð hans, velþóknun og blessun.  Guð er góður,  hann er einungis góður.  Treystum því. Þá munum við fá að reyna náð hans í ríkum mæli.

Staðgöngumæðrun í "velgjörðarskyni"

Heilbrigðisstarfsfólk á Landsspítalanum hefur kynnt þingmönnum álit sitt í þessu máli og þar er lagst gegn staðgöngumæðrun -þar sé um hálan ís að ræða og víða misnotun í gróðaskyni. Ég spyr:  Er ekki siðlegra, mannúðlegra og viturlegra að börn fái að fæðast í stað þess að þeim sé eytt í móðurkviði og barnlaust fólk gangi þeim í foreldrastað? Undanfarin ár hafa um 1000 ófædd börn verið deydd í móðurkviði hér á landi. Þetta er hræðileg hnignun sem verður að snúa frá. 

Sumar mæður og hjón/sambýlisfólk  eiga mjög erfitt með að annast börnin sín. Ekki eru margir áratugir síðan það var algengt hér á landi að hjón gengju ungum börnum í foreldrastað og ættleiddu þau. Það er miklu betri lausn á félagslegum vanda heldur en að deyða fóstrin eða kaupa konur til að ganga með börn fyrir aðra.

Það er sorglegt hvernig þjóðfélag okkar stígur yfir hvert rauða strikið af öðru í siðferðis- og samfélagsmálum. Það er kannski ekki vinsælt að benda á kristilegt siðferði, svo firrt erum við orðin, en það hefur þó reynst okkur best samanborið við allt annað.


Ég á ekki orð... utanlandsferðir ríkisstarfsmanna

Nú þegar ríkið þarf að spara og skera niður heilbrigðisþjónustuna, þá er slíkt ófhóf hvað varðar utanlandsferðir starfsfólks ráðuneyta og ríkisstofnana að maður á ekki orð.  Þetta er óþolandi eyðslusemi. Það getur ekki verið nauðsynlegt að fara í allar þessar ferðir. Nú á tímum er hægt er að nota rafræna tækni til fylgjast hratt og vel með því sem er að gerast annars staðar í heiminum. Einnig er hægðarleikur að taka þátt í fundum með ýmsum tæknibúnaði og spara þannig dýrar utanlandsferðir. Það væri vel hægt að fækka þessum ferðum mikið ef vilji væri fyrir hendi. 

Meðaltalskostnaður á ferð hjá einu ráðuneytanna var yfir 250 þúsund krónur og þar voru margar ferðir farnar fyrstu 9 mánuði þessa árs.  Nú verður þjóðin að segja þessum eyðsluseggjum að draga saman seglin. Ég vil heldur að sjúklingar og gamalt fólk og deyjandi fái mannúðlega meðferð heldur en að ríkið noti skattpeninga okkar almennings  til að greiða kostnað  við ferðir embættismanna sem þeytast um heiminn þveran og endilangan á dýrum fargjöldum, gista á glæsihótelum og fá dagpeninga í þokkabót.  Þessi vinnubrögð eru ranglát mismunum.  Mannúð á að ganga fyrir fundagleði, ferðaþrá og flottheitum. Nú er nóg komið.  Þetta bruðl gengur ekki lengur!


Næsta síða »

Um bloggið

Friðrik Schram

Höfundur

Friðrik Agnar Ólafsson Schram
Friðrik Agnar Ólafsson Schram
Guðfræðingur og prestur Íslensku Kristskirkjunnar
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • fridrikschram 1125153.gif

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband