25.9.2012 | 15:11
Aftur á byrjunarreit!
Þessi orð komu mér í hug þegar ég var á heilsubótargöngu í Elliðaárdalnum í morgun. Málið er að oft hefur maður ætlað að vera duglegur og fara út að ganga eða hjóla –gera það að reglu- en svo hafa þau góðu áform riðlast og minna orðið úr en til stóð. Hver kannast ekki við það? En þegar maður svo hefur sig af stað og byrjar aftur að hreyfa sig eftir svo eða svo langt hlé, þá finnur maður hvað hreyfingin er góð. Hættan er sú að þegar maður fer að slá slöku við, þá komist maður bara alls ekki aftur af stað. Maður segir við sjálfan sig: “Það þýðir ekkert að vera með þessi áform um reglulega hreyfingu, þau fara öll í vaskinn!” og svo hættir maður bara að hreyfa sig og verður stirður og þunglamalegur! Nei, nei, það má ekki gerast. Ef maður hefur trassað hið góða, hvað sem það er, þá er um að gera að fara aftur á “byrjunarreitinn” ....taka sig taki og byrja aftur. Er á meðan er.
Ég held að lífið sé þannig hjá flestum að það gengur í bylgjum. Stundum er maður duglegur og í framhaldi af því ánægður og líður vel og stundum óduglegur (kærulaus um góðar lífsvenjur) og þá leiður og kannski með samviskubit. En við megum ekki vera of hörð við okkur sjálf. Í Biblíunni segir að Guð minnist þess að við erum mold (veikleika vafin) og Jesús sagði: “Andinn er að sönnu reiðubúinn, en holdið er veikt.” Við höfum öll góð áform, en svo verður stundum (oft!) minna úr en til stóð í byrjun. Hvað eigum við þá að gera? Þá er um að gera að fara aftur á upphafsreitinn og byrja upp á nýtt. Þetta á við allt gott í lífinu, reglusemi hvers konar
–næringu, hvíld, ástundun vinnunnar, það að lesa Biblíuna, fara í kirkju, eiga persónlegar bænastundir o.s.f. -allt þetta sem gerir lífið betra.
Ég talaði í morgun við mann sem hefur ekki komið í kirkjuna í nokkra mánuði. Hann ætlaði sér ekki að vanrækja trúarsamfélagið af ásettu ráði, en það var svo mikið að gera að hann tók að sér vinnu “sýknt og heilagt” (bæði helga og virka daga) og svo duttu kirkjuferðirnar bara upp fyrir :-( En hann sagði, “Nú ætla ég að fara koma aftur í kirkjuna.” Batnandi manni er best að lifa, segi ég. Ekki missa móðinn þótt þú hafir slakað á, taktu þig bara á og byrjaðu aftur á því sem gott er. Þá er allt á góðri leið á ný.
Meginflokkur: Dægurmál | Aukaflokkar: Bloggar, Lífstíll, Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 15:15 | Facebook
Um bloggið
Friðrik Schram
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.