13.10.2011 | 21:51
Ég styð biskupinn
Kynferðisafbrot Ólafs Skúlasonar komu á sínum tíma öllum á óvart. Sjálfur hafði ég nokkur samskipti við hann á þeim tíma þegar hann var að beita konur kynferðislegum yfirgangi. Ekki geðjaðist mér almennt að framkomu hans eða athöfnum. Þegar Ólafur var kjörinn biskup átti ég að taka þátt í biskupskjörinu sem safnaðarfulltrúi Breiðholtsprestakalls, en komið var í veg fyrir það fyrir tilstilli stuðningsmanna Ólafs í sóknarnefndinni. Niðurstaðan varð sú að enginn kaus f.h. leikmanna í Breiðholtssókn. Ólafur marði það að verða biskup með mjög litlum meirihluta ef ég man rétt.
Þjóðkirkjan varð fyrir miklu tjóni vegna verka hans og framkomu. Kynferðisafglöp hans veiktu stöðu hans til að taka á málum innan kirkjunnar með festu og skynsemi. Mér finnst hann hafa skemmt að hluta til árangurinn af góðu starfi Sigurbjörns Einarssonar og ekki mátti þjóðkirkjan við því. En svo fór sem fór.
Forysta þjóðkirkjunnar var illa undir það búin að takast á við afleiðingarnar af kynferðisafbrotum séra Ólafs. Menn brugðust við af góðum hug og vildu bæta úr eins og þeir höfðu vit og reynslu til, en eins og við vitum nú gekk þar ekki allt sem skyldi. Mér finnst gagnrýnin sem séra Karl hefur orðið fyrir í þessu sambandi mjög ósanngjörn. Hvað hefðu aðrir gert í hans sporum? Það er auðvelt að vera vitur eftirá og saka hann um afglöp. Ég held að þeir sem þar tala séu guðfræðilegir "andstæðingar" séra Karls sem eru honum ósammála í guðfræði og vija hann þess vegna burt af biskupsstóli.
Ég tel séra Karl mjög einlægan, varkáran og vel meinandi biskup. Það er ekki heiglum hent að hafa stjórn á óróaseggjum í prestastétt, fólki sem hefur hátt og virðist uppteknara af eigin hag en hag þjóðkirkjunnar í heild. Ég vil segja við þettta fólk: Styðjið frekar leiðtoga ykkar en að grafa undan honum með vanhugsuðum yfirlýsingum í fjölmiðlum. Karl biskup á alla mína samúð í þessu máli og ég hvet hann til að víkja hvergi en standa styrkur í stafni meðan hann sjálfur vill.
Um bloggið
Friðrik Schram
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.