3.10.2011 | 12:06
Er landið að verða stjórnlaust?
Af fréttum að dæma er komið mikið los á stjórnkerfið og ólga er meðal embættismanna. Þúsundir fjölskyldna og hundruð félaga og fyrirtækja eru í miklum skuldavanda. Ráðamenn og aðrir stjórnendur, já reyndar þjóðin öll, þarf að leita aftur sinna kristnu róta. Þar er að finna siðferðisreglur, sem munu rétta af þjóðarskútuna ef farið verður eftir þeim.
Nú eru við völd fjölmargir sem fóru á mis við kristilegt uppeldi, en fengu í staðinn veraldlegan hugsunarhátt sem lætur sig litlu skipta hvort Guð sé til. Ef manninum finnst hann ekki þurfa að standa heilögum Guði reikningskil gjörða sinna, er stutt í að hann fari að misnota aðstöðu sína og skara eld að eigin köku á kostnað annarra. Það er einmitt ástand dagsins í dag.
Margir af minni kynslóð fóru á sínum tíma í sunnudagaskóla kirkjusafnaðanna eða í KFUM/KFUK og lærðu þar að bera virðingu fyrir Guði og orði hans og koma vel fram við aðra. Mín kynslóð brást hins vegar í uppeldishlutverkinu. Hún gætti ekki að því að hennar afkomendur sæktu barnastarf kirkjunnar og færu í kristilegt æskulýðsfélög. Þannig óx úr grasi kynslóð sem er óviss í trúmálum, les sjaldan eða aldrei Guðs orð og kann tæpast að biðja ....og það er einmitt að stórum hluta kynslóðin sem fer með völdin í landinu í dag. Er hægt að búast við því að fólk sem ekki hefur verið innrætt kristilegt siðgæði -sem er það besta í heimi- geti stjórnað landinu svo vel sé og komið fram við þegnana af virðingu og sanngirni? Það held ég ekki.
Æðstu stjórnendur landsins, forsætisráðherra og fjármálaráðherra, tala sjaldan eða nánast aldrei um gildi kristinnar trúar. Það eru aðrar hugsjónir og viðmið sem virðast þeim hugstæðari. Er það kannski húmanisk veraldarhyggja sem kærir sig kollátta um tilvist Guðs og afskipti hans af okkur? Þegar maðurinn snýr baki við Guði og lætur stjórnast af veraldlegum viðhorfum, minnkar virðingin fyrir öðru fólki og menn fara að nota hvert tækifæri til að koma sínu fram hvað sem það kostar. Kannski er það einmitt það sem einkennir framferði þessara æðstu ráðamanna? Hvers vegna er þeim ekki meira umhugað að standa við loforð sín og bjarga fjölskyldum og nytsömum fyrirtækjum úr skuldafjötrunum og vinna þannig að viðreisn þjóðarinnar? Ég bara spyr?
Um bloggið
Friðrik Schram
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.