Færsluflokkur: Menntun og skóli

Hátíð vonar

Þegar maður horfir yfir árið sem nú er að renna sitt skeið á enda er manni þakklæti efst í huga. Þakklæti fyrir það sem hefur vakið von og bjartsýni. Þar stendur hæst Hátíð vonar í Laugardalshöll. En fleira hefur vakið von. Þegar bankarnir hrundu og þjóðfélagið fór á hliðina haustið 2008 gerði margt kirkjufólk ráð fyrir því að almenningur myndi snúa sér að trúnni og fjölmenna í kirkjurnar til að leita eftir huggun og uppörvun. Það gerðist hins vegar ekki. Í stað þess urðu margir reiðir og vonsviknir og hugur þeirra varð upptekinn af því neikvæða sem gerst hafði. Það er reyndar ekki undarlegt þótt fólk yrði reitt og vonsvikið. Mjög margir töpuðu nær öllu sínu sparifé, aðrir misstu íbúðir sínar og fyrirtæki. Margir sem misstu vinnuna urðu að flýja land og leita atvinnu erlendis. Allt þetta reyndi mjög á þjóðina. En þótt þessar öldur reiði ýfðu yfirborðið, þá hvarf trúin ekki úr hjörtum fólksins. Á Hátíð vonar kom í ljós að mjög margt fólk var opið fyrir boðskap Jesú Krists. Eins heyrast nú æ fleiri raddir sem líkar ekki andófið gegn kristinni trú sem mikið hefur borið á í þjóðfélaginu og sem m.a. birtist í aðgerðum borgarstjórnar Reykjavíkur (sérstaklega hvað varðar grunnskólana). Fólk finnur og veit að trúin á Jesú Krist er sú kjölfesta og vegvísir sem þjóðin þarfnast. Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, flutti góða ræðu á síðata kirkjuþingi þar sem hún minnti á þessa hluti. Mætur skólamaður tók í sama streng í fjölmiðlum fyrir nokkrum dögum. Ég held að þjóðin sé aftur að vakna til vitundar um gildi kristinnar trúar. Það vekur von. Við horfum fram á nýtt ár -2014- með von í hjarta. Það er greinilega hugur í ýmsum prestum og safnaðarleiðtogum, ekki síst þeim sem stóðu að og tóku þátt í Hátíð vonar. Nú þurfum við að vinna vel, vanda okkur og bregðast hvorki Guði né þjóðinni hvað það varðar að finna leiðir til að flytja henni það besta sem við eigum –trúna á Jesú Krist. Í september n.k. verður Kristsdagur í Reykjavík. Hann er hátíð fyrir allt kristið fólk sem vill sameinast um að hefja nafn Drottins á loft og minna þjóðina á kærleika Guðs eins og hann birtist í Jesú Kristi. Stöndum saman um þann mikilvæga atburð og látum ljós Krists skína gegnum líf okkar og söfnuði okkar, þjóðinni til blessunar svo að hér verði kristin trúarvakning.


Alfa námskeiðið hefur sannað gildi sitt og nú er það aftur í boði

Ég hef mjög góða reynslu af Alfa-námskeiðinu.  Þar er leitast við að svara spurningunni: Hver er tilgangur lífsins?  Þar er stórt spurt, en það góða við námskeiðið er,  að þar er mikið um góð svör! Truarbrögðin og heimspekin -og svo auðvitað hver heilvita maður- spyrja um tilgang lífsins.  Jesús Kristur hafði margt gott um málið að segja. Á Alfa kynnum við okkur hluta af því sem hann sagði og það er framsett á mjög aðgengilegan og -ég vil segja- skemmtilegan hátt.

Margir hafa sótt Alfa-námskeið á liðnum árum. Ég held að ég hafi komið að einum 15 eða 16 slíkum námskeiðum á liðnum árum og alltaf fundist ástæða til að bjóða  upp á þau á ný, reynslan er einfaldlega svo góð. 

Kynningarkvöld er þrd. 17. jan. kl.20 í Ísl. Kristskirkjunni, Fossaleyni 14, Grafarvogi og svo hefst námskeiðið sjálft viku síðar,  þrd. 24.  kl 19 með léttum kvöldverði.

Alfa fer þannig fram að fólk kemur saman eitt kvöld í viku og í hvert skipti er byrjað á því að snæða saman léttan kvöldverð, eins og fyrr sagði. Það er notalegt að setjast að matborði eftir langan vinnudag og þurfa ekkert að gera nema njóta matarins og rabba við hina nemendurna á meðan.  Eftir matinn er fyrirlestur og að honum loknum kaffi, auðvitað! Heilasellurnar virka tæplega þegar komið er fram á kvöld nema fólk fái sér kaffibolla, þannig er það a.m.k. hjá flestum.  Eftir kaffið eru myndaðir litlir hópar og þar ræðir fólk efni fyrirlestrarins í ca 40 mínútur, eða bara hlustar og þegir, enginn er skyldugur að segja neitt. Þarna getur fólk líka talað um hvað sem það vill og sem tengist grundvallarspurningunni um tilgang lífsins.  Kvöldið byrjar sem sé kl 7 og lýkur kl 10, stundvíslega. 

Nú eru kannski sumir farnir að velta fyrir sér hvar þeir geti farið á Alfa. Ég veit að það verður haldið í Íslensku Kristskirkjunni, Fossaleyni 14 (í Grafarvogi)  og þar er það í samstarfi við Grafarvogskirkju. Það er sennilega í einhverjum öðrum kirkjum líka og er hægt að komast að því með því að fara á alfa.is og kanna málið.

Reynsla mín af Alfa er mjög góð og ég mátti til með að segja ykkur frá því svo að þið eigið þess kost að njóta þess  ásamt mér og mörgum öðrum.


Er verið að kenna joga í grunnskólum? Joga er hugmyndafræði og lífsskoðunarstefna. Á slíkt erindi í grunnskóla frekar en kristin boðun?

Ég heyrði í morgun viðtal við jogakennara sem kennir joga í einum eða fleiri skólum Hjallastefnunnar.  Þar sagði viðkomandi kennari að joga væri æfingar og heimspeki. Heimspeki er viss afstaða til tilverunnar, t.d. að Guð sé persónulegur og höfundur (hönnuður) alls sem til er. 

Hindúar hafa sína trú og heimspeki. Þar á jóga upphaf sitt. Jóga var og er sjálfs-frelsunarleið hindúans. Jóga heimspekin gerir ráð fyrir að tilveran sé þrungin ópersónlegum guðlegum krafti. Guð er þar ekki kærleiksríkur persónulegur  faðir  sem elskar mennina eins og Guð kristinna manna.  Þeir kristnir menn sem leggja stund á jóga og jóga-heimspeki fjarlægjast óhjákvæmilega guðsmynd kristinnar trúar. Það ætti fólk að hafa í huga. Af hverju ættum við að kasta trúnni á kærleiksríkan Guð föður og taka trú á ópersónulegan, fjarlægan Braham (æðsta guð hindúa) sem ber engar tilfinningar til okkar og lætur okkur sjálf um að reyna að finna eigin leið til frelsunar frá synd og böli?  Guð faðir sendi okkur Jesú Krist sem kærleiksríkan lausnara og vin, sem gaf líf sitt okkur til lausnargjalds. Það er betri valkostur.

Foreldar ættu að hyggja að hvað verið er að kenna börnunum þeirra í leik- og grunnskólum, það skyldi þó ekki vera að jógakennarar séu komnir þar inn til að boða þessa grein hindúasiðar. Er Indland slík fyrirmynd og það velferðarríki að við þurfum að sækja þangað speki okkur til blessunar?  Þá er verið að fara yfir lækinn eftir vatni.


Um bloggið

Friðrik Schram

Höfundur

Friðrik Agnar Ólafsson Schram
Friðrik Agnar Ólafsson Schram
Guðfræðingur og prestur Íslensku Kristskirkjunnar
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • fridrikschram 1125153.gif

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband