Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Staðgöngumæðrun í "velgjörðarskyni"

Heilbrigðisstarfsfólk á Landsspítalanum hefur kynnt þingmönnum álit sitt í þessu máli og þar er lagst gegn staðgöngumæðrun -þar sé um hálan ís að ræða og víða misnotun í gróðaskyni. Ég spyr:  Er ekki siðlegra, mannúðlegra og viturlegra að börn fái að fæðast í stað þess að þeim sé eytt í móðurkviði og barnlaust fólk gangi þeim í foreldrastað? Undanfarin ár hafa um 1000 ófædd börn verið deydd í móðurkviði hér á landi. Þetta er hræðileg hnignun sem verður að snúa frá. 

Sumar mæður og hjón/sambýlisfólk  eiga mjög erfitt með að annast börnin sín. Ekki eru margir áratugir síðan það var algengt hér á landi að hjón gengju ungum börnum í foreldrastað og ættleiddu þau. Það er miklu betri lausn á félagslegum vanda heldur en að deyða fóstrin eða kaupa konur til að ganga með börn fyrir aðra.

Það er sorglegt hvernig þjóðfélag okkar stígur yfir hvert rauða strikið af öðru í siðferðis- og samfélagsmálum. Það er kannski ekki vinsælt að benda á kristilegt siðferði, svo firrt erum við orðin, en það hefur þó reynst okkur best samanborið við allt annað.


Ég átti mér gæðastund í morgun

Ég settist í "Laze-boy"-stólinn minn með Biblíuna við höndina og lét fara vel um mig. Úti gnauðaði norðanvindurinn -ég hálf vorkenndi krummanum spígsporaði uppi á þaki, en hann þolir þetta víst, enda vel af Guði gerður.

Ég las söguna um heimsókn Jesú til systranna í Betaníu, þeirra Mörtu og Maríu. Þið kannist eflaust flest við söguna -Marta var önnum kafin við að gera vel við gestina. Það var ekki lítið mál að fá hátt í 20 manns í heimsókn (Jesú, lærisveinana 12 og aðra nána vini sem oftast fylgdu með).

María (yngri systirin?) gerði eins og ég, settist við fætur Jesú til að hlusta á hann. Marta var alveg að ganga frá sér við matseldina og kvartaði við Jesú og bað hann að áminna Maríu. Af hverju gerði hún það ekki sjálf?!  Jú, við erum gjörn á að kvarta við aðra en þá sem málið kemur við.

Jesú mat stöðuna þannig að það væri miklu mikilvægara fyrir Maríu að fá frið til að hlusta á það sem hann hafði að segja, og gaf í skyn að það sama ætti við um Mörtu. Maður heyrir hann næstum segja: "Marta, hættu þessu umstangi. Sestu heldur hérna hjá Maríu og hlustaðu á það sem ég hef að segja, enda á ég stutt eftir ólifað". Það var einmitt málið. Hann var á leið til Jerúsalem til að verða krossfestur og Jerúsalem var aðeins spölkorn frá Betaníu. "Kaffi og meðððí" var ekki það sem var mikilvægast þessa stundina, að mati Jesú, þótt eflaust væri hann þreyttur og þyrstur.

Höfum þetta í huga á aðventunni, og líka um jólin. Gleymum okkur ekki alveg í öllu "nauðsynlega" umstanginu, því að það er bara eitt sem er NAUÐSYNLEGT: Gefa sér tíma með Guði og leyfa orði hans og áhrifum að næra sál okkar. Þannig fáum við styrk og frið til að takast á öll brýnu verkefnin sem kalla á úr öllum áttum.


Auglýsingarnar og kaupskapurinn er "partur af prógramminu"

Þegar við höldum hátíð fylgir óhjákvæmilega umstang og innkaup. Slíkt tekur tíma og er fyrirhöfn, en þó þess virði.  Þannig er það með jólin. Það þýðir ekkert að fjasa út af auglýsingaflóðinu og öllum "bissnessnum", enda tökum við hvort sem er flest þátt í  leiknum.

En það góða við jólaumstangið eru sjálf jólin! Á jólum beinum við huganum að því sem er fagurt, kærleiksríkt og gott afspurnar: Jesú Kristi og komu hans í heiminn. Það er óumdeilt að kærleiksboðskapur Jesú olli straumhvörfum hvað varðar vegferð og sögu mannkynsins. Hógværð hans og mildi, hvatning um að fyrirgefa þeim sem gerðu á hlut manns og það að vera fyrri til að sýna kærleika í verki  ...allt voru þetta hlutir og afstaða sem fékk aukna áherslu með lífi Krists og starfi.  Kirkjan tók þessi gæði í arf og færði áfram, víða með miklum árangri, en ekki alltaf, því miður.

Njótum góðra hluta, matar og vellíðunar á aðventu og um jól, en umfram allt látum hátíðina verða okkur til hvatningar hvað það varðar að sýna hvert öðru kærleika, góðvild og hlýju. Gerum það með orðum, viðmóti og góðum verkum sem gleðja og hvetja.   


Er verið að kenna joga í grunnskólum? Joga er hugmyndafræði og lífsskoðunarstefna. Á slíkt erindi í grunnskóla frekar en kristin boðun?

Ég heyrði í morgun viðtal við jogakennara sem kennir joga í einum eða fleiri skólum Hjallastefnunnar.  Þar sagði viðkomandi kennari að joga væri æfingar og heimspeki. Heimspeki er viss afstaða til tilverunnar, t.d. að Guð sé persónulegur og höfundur (hönnuður) alls sem til er. 

Hindúar hafa sína trú og heimspeki. Þar á jóga upphaf sitt. Jóga var og er sjálfs-frelsunarleið hindúans. Jóga heimspekin gerir ráð fyrir að tilveran sé þrungin ópersónlegum guðlegum krafti. Guð er þar ekki kærleiksríkur persónulegur  faðir  sem elskar mennina eins og Guð kristinna manna.  Þeir kristnir menn sem leggja stund á jóga og jóga-heimspeki fjarlægjast óhjákvæmilega guðsmynd kristinnar trúar. Það ætti fólk að hafa í huga. Af hverju ættum við að kasta trúnni á kærleiksríkan Guð föður og taka trú á ópersónulegan, fjarlægan Braham (æðsta guð hindúa) sem ber engar tilfinningar til okkar og lætur okkur sjálf um að reyna að finna eigin leið til frelsunar frá synd og böli?  Guð faðir sendi okkur Jesú Krist sem kærleiksríkan lausnara og vin, sem gaf líf sitt okkur til lausnargjalds. Það er betri valkostur.

Foreldar ættu að hyggja að hvað verið er að kenna börnunum þeirra í leik- og grunnskólum, það skyldi þó ekki vera að jógakennarar séu komnir þar inn til að boða þessa grein hindúasiðar. Er Indland slík fyrirmynd og það velferðarríki að við þurfum að sækja þangað speki okkur til blessunar?  Þá er verið að fara yfir lækinn eftir vatni.


Eigum við einhverja óvini?

Abraham Lincoln var eitt sinn ásakaður fyrir það, að í stað þess að eyða óvinum sínum (í borgarastyrjöldinni í Bandaríkjunum), þá gerði hann þá að vinum sínum. Hann svaraði eitthvað á þá leið að hann “eyddi” óvinunum einmitt með því að gera þá að vinum! Frábært svar sem sýnir hið jákvæða hugarfar Lincolns. Annar góður maður sagði eitt sinn: “Ég á enga óvini, aðeins vini sem hafa villst af leið.”     Í samræmi við það ættum við að leitast við að sættast við “óvini” okkar og verða vinir þeirra, ef mögulegt er.

 Við sjáum á þeim deilum sem nú loga í okkar litla þjóðfélagi, að margt fólk er mjög reitt. Hatrammar glósur eru sendar manna á milli og mörgum er heitt í hamsi. Skýrasta dæmið er umræður og samskipti fólks á Alþingi.

Við, kristið fólk, megum ekki dragast með í þessum ljóta leik. Gætum þess að fyllast ekki fyrirlitningu eða reiði í garð annarra, jafnvel þótt þeir sendi okkur tóninn og kalli okkur öllum illum nöfnum. Í kjölfar neitunar borgarráðs á styrk til viðbyggingar við kirkjuna (Ísl. Kristskirkjan) sem ég þjóna, fékk ég yfir mig háðsglósur og skammir í fjölmiðlum og á bloggsíðum frá ólíklegasta fólki. Sem betur fer las ég minnst af þessu þegar orrarhríðin gekk yfir, en fyrir stuttu gúgglaði ég nafnið mitt og þá komu “herlegheitin” í ljós!

Skammir, ljót orð og fyrirlitning, sem við verðum fyrir, mega ekki spilla þeirri mynd sem manneskjan hefur í huga okkar. Það fólk sem þannig talar og framkvæmir er þrátt fyrir allt Guðs góða sköpun og okkur ber að virða og láta okkur þykja vænt um allt sem Guð hefur gert. Fyrirgefum ljót orð og hatursfulla framkomu fólks í okkar garð. Lítum á þetta fólk sem fanga illskunnar sem þarf að frelsast, bæði undan neikvæðninni og einnig í kristnum skilningi. Svörum ekki í sömu mynt. Sýnum stillingu, umburðarlyndi og kærleika. Þegar Jesús var krossfestur, bað hann sinn himneska föður að fyrirgefa kvölurum sínum vegna þess að þeir vissu í reynd ekki hvað þeir væru að gera –forsmá og kvelja sjálfan son Guðs. Jesús er okkar fyrirmynd hvað þetta varðar.


« Fyrri síða

Um bloggið

Friðrik Schram

Höfundur

Friðrik Agnar Ólafsson Schram
Friðrik Agnar Ólafsson Schram
Guðfræðingur og prestur Íslensku Kristskirkjunnar
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • fridrikschram 1125153.gif

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 6709

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband