Færsluflokkur: Trúmál

Hátíð vonar

Þegar maður horfir yfir árið sem nú er að renna sitt skeið á enda er manni þakklæti efst í huga. Þakklæti fyrir það sem hefur vakið von og bjartsýni. Þar stendur hæst Hátíð vonar í Laugardalshöll. En fleira hefur vakið von. Þegar bankarnir hrundu og þjóðfélagið fór á hliðina haustið 2008 gerði margt kirkjufólk ráð fyrir því að almenningur myndi snúa sér að trúnni og fjölmenna í kirkjurnar til að leita eftir huggun og uppörvun. Það gerðist hins vegar ekki. Í stað þess urðu margir reiðir og vonsviknir og hugur þeirra varð upptekinn af því neikvæða sem gerst hafði. Það er reyndar ekki undarlegt þótt fólk yrði reitt og vonsvikið. Mjög margir töpuðu nær öllu sínu sparifé, aðrir misstu íbúðir sínar og fyrirtæki. Margir sem misstu vinnuna urðu að flýja land og leita atvinnu erlendis. Allt þetta reyndi mjög á þjóðina. En þótt þessar öldur reiði ýfðu yfirborðið, þá hvarf trúin ekki úr hjörtum fólksins. Á Hátíð vonar kom í ljós að mjög margt fólk var opið fyrir boðskap Jesú Krists. Eins heyrast nú æ fleiri raddir sem líkar ekki andófið gegn kristinni trú sem mikið hefur borið á í þjóðfélaginu og sem m.a. birtist í aðgerðum borgarstjórnar Reykjavíkur (sérstaklega hvað varðar grunnskólana). Fólk finnur og veit að trúin á Jesú Krist er sú kjölfesta og vegvísir sem þjóðin þarfnast. Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, flutti góða ræðu á síðata kirkjuþingi þar sem hún minnti á þessa hluti. Mætur skólamaður tók í sama streng í fjölmiðlum fyrir nokkrum dögum. Ég held að þjóðin sé aftur að vakna til vitundar um gildi kristinnar trúar. Það vekur von. Við horfum fram á nýtt ár -2014- með von í hjarta. Það er greinilega hugur í ýmsum prestum og safnaðarleiðtogum, ekki síst þeim sem stóðu að og tóku þátt í Hátíð vonar. Nú þurfum við að vinna vel, vanda okkur og bregðast hvorki Guði né þjóðinni hvað það varðar að finna leiðir til að flytja henni það besta sem við eigum –trúna á Jesú Krist. Í september n.k. verður Kristsdagur í Reykjavík. Hann er hátíð fyrir allt kristið fólk sem vill sameinast um að hefja nafn Drottins á loft og minna þjóðina á kærleika Guðs eins og hann birtist í Jesú Kristi. Stöndum saman um þann mikilvæga atburð og látum ljós Krists skína gegnum líf okkar og söfnuði okkar, þjóðinni til blessunar svo að hér verði kristin trúarvakning.


Kristin trú og siðferðisgildi

Heilbrigð kristin trú og siðferði er besta vörnin gegn upplausn og hnignun þjóðarinnar
mbl.is Kristin gildi ráði við lagasetningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Settu mörk, sjálfum þér og öðrum

Okkur er öllum nauðsynlegt að hafa skýr mörk, bæði hvað varðar okkur sjálf og gagnvart öðrum. Það er ekki gott ef við leyfum öðrum að fara yfir þau mörk sem við í huga okkar höfum sett þeim. Það er á/okkar ábyrgð að þau séu virt. Ef aðrir vilja ráðskast með mig, tíma minn eða annað, þá ber mér að gera draga mig í hlé frá þeim og hugsanlega gera þeim ljóst að þeir hafi gengið of langt. Biðjum Guð og skynsamt fólk að leiðbeina okkur hvar mörkin eru í þessu sambandi. Þú átt þitt líf og Guð ætlar þér að nota það skv. leiðsögn hans og vilja. Þar mega aðrir ekki taka völdin af þér.

Sumt fólk er í þóknunarhlutverki og gjarnan upptekið við að gera öðrum til geðs. Vitaskuld getur það átt rétt á sér, ekki síst gagnvart ungum börnum eða sjúkum ættingjum, en stundum fer þetta út yfir öll eðlileg mörk. Þá verður maður að taka á sig rögg og ákveða hve langt skuli ganga við að þóknast og þjóna öðrum.

Jesús hafði skýr mörk og áform en lagði samt oft lykkju á leið sín til að þjóna fólki og þóknast því. Hann er frábær fyrirmynd hvað þetta varðar. Þar er jafnvægi á hlutunum. Ef við hugum ekki að þessu, er hætt við að við komum ekki í verk því sem við verðum að gera, en eyðum of miklum tíma og kröftum í það sem ekki er nauðsynlegt.

En svo er það hin hliðin: Við sjálf. Við verðum að setja sjálfum okkur mörk. Til dæmis að fara vel með tímann eða annað sem við höfum til ráðstöfunar. Ekki gleyma okkur við tölvuna tímunum saman þegar við ætluðum rétt aðeins að kíkja á netið. Eins það að fara ekki of seint að sofa eða sofa ekki of lengi, borða ekki of mikið eða óhollan mat o.s.f. Það er skrýtið ef ég hef “allt á hreinu” gagnvart öðrum, en leyfi sjálfum mér óreiðu.

Við þurfum að hugleiða þessa hluti –bæði ytri og innri mörk (gagnvart örðum og svo í eigin lífi) og koma reglu þar á ef við höfum verið slöpp og kærulaus. Ef við venjum okkur á skýr mörk í lífi okkar, þá líður okkur betur, við komum meiru í verk og aðrir bera virðingu fyrir okkur. Ef við hins vegar höfum allt “opið” og látum hlutina bara fara svona eða hinsegin, þá verðum við innst inni ófullnægð og vonsvikin og aðrir munu síður bera virðingu fyrir okkur og í framhaldi af því munu þeir hugsanlega fara yfir mörkin og byrja að ráðskast með okkur.


Lestur Biblíunnar


Það er oft vitnað í Biblíuna á Alþingi. Biblían er slíkt öndvegisrit og áhrifavaldur hvað varðar menningu og bókmenntir á vesturlöndum að nauðsynlegt er fyrir þá sem fjalla opinberlega um mannlegt líf og þjóðfélagsmál að þekkja til texta hennar, a.m.k. mikilvægustu hlutanna, þar með talið Fjallræðunnar.

Þeir sem vilja kynnast texta þessarar öndvegisbókar eru stundum í óvissu hvar þeir eiga að byrja lesturinn og síðan hvað lesa skuli í framhaldi af því. Til að hjálpa fólki í þessu sambandi, höfum við í Ísl. Kristskirkjunni útbúið skrá með völdum textum, bæði úr Gamla og Nýja testamentinu. Birtast þeir mánaðarlega á heimasíðu safnaðarins (www.kristskirkjan.is).

Í dag settum við inn á heimasíðuna lestrarskrá fyrir nóvember og hvetjum við ykkur sem hafið hugsað ykkur að hressa upp á minnið hvað varðar biblíutextana að skoða lestrarskrána og notfæra ykkur hana við lesturinn. Sá lestur getur orðið ykkur til fróðleiks og andlegrar uppbyggingar trúi ég. Slóðin er þessi: http://www.kristskirkjan.is/images/stories/bibliulestraraaetlun_nov2012.pdf


Hefur þú verið “down”?


En hvað gerir þú þegar þú ert leiður og niðurdreginn? Dregur þig hlé? Ferð minna út á meðal fólks og leyfir þér kannski að vera heima og láta vita að þú sért “lasinn”? En það er skammgóður vermir. Þegar ég er að tala um að vera þungur í skapi og niðurdreginn, þá á ég ekki við alvarlegt þunglyndi, við því þurfum við að leita læknis. Nei, ég meina svona almenna vanlíðan þegar lífið gengur ekki eins og við höfðum vonað, t.d. þegar við eigum tæpast fyrir skuldum, þegar okkur er sögð upp vinnan, þegar við missum ástvin, eða bara þegar okkur verður sundurorða við einhvern annan eða verðum fyrir vonbrigðum með framkomu hans.

Ein mikilvægasta þörf kristins trúaðs fólks (ekki síst þegar maður er “down”) er að vera innan um annað kristið fólk þar sem maður fær tækifæri til að tala saman, lofa Guð saman, biðja saman og hlusta á uppövandi boðskap úr Orði Guðs. Það að VERA SAMAN er mjög mikilvægt. Þannig rýfur maður eingangrun sína, beinir athyglinni frá eigin vanlíðan og að einhverju góðu og uppörvandi. Það lyftir manni upp. Maður er manns gaman.

Ég hvet þig, sem líður illa vegna einhverrar erfiðrar reynslu, þig sem ert hnugginn og vonsvikinn, að einangra þig ekki. Farðu í samfélag trúaðra, fáðu fyrirbæn, taktu þátt í lofgjörðinni. Gefðu af þér og gleddu aðra með brosi og hlýju handtaki, einmitt þegar þér finnst þú ekkert hafa að gefa! Ef við gefum örðum eitthvað gott, þá fáum við eitthvað gott! Þannig er það í Guðs ríki. Gefið og yður mun gefið verða, sagði Jesús; og það á líka við jákvætt viðmót og uppörvandi orð.

Lokaorð: Ekki loka þig af. Taktu þig taki. Farðu innan um gott fólk. Gefðu af þér (í trú að þú fáir eitthvað gott í staðinn). Taktu ákvörðun um að vera glaður –vegna Drottins, vegna þess að hann elskar þig, er hjá þér og vill hjálpa þér.


Manstu þegar þú.....?



Já, manstu þegar þú mættir Guði í fyrsta sinn, þegar þú fannst snertingu hans? Kannski var það þegar þú frelsaðist, eða við ferminguna þína þegar þú játaðir það að vilja hafa Jesú Krist sem leiðtoga lífs þíns....? Eða þegar þú hafðir fjarlægst Guð og fannst þú vera misheppnuð/aður og taldir að hann hefði ekki lengur vanþóknun á þér, en þá heyrðir þú um kærleika hans og vilja til að fyrirgefa þér....? Já, manstu þetta? Þá varpaðir þú þér í fang hans og þú FANNST kærleika hans og fyrirgefningu. Mörg eigum við slíkar minningar, en kannski er langt um liðið og fennt í sporin? En þegar atburðurinn átti sér stað (forðum daga), þá varst þú ekkert nema einlægnin, og upplifunin af snertingu og kærleika Guðs svo sterk og raunveruleg. Mig langar að spyrja þig: Átt þú enn vissuna um að það var góður Guðs sem snerti við þér, tók við þér, fyrirgaf þér og blessaði þig....? Eða ertu kannski farin/inn að efast...? Ertu hugsanlega farin/inn að telja þér trú um að þetta hafi bara verið barnaskapur og tilfinningasemi? Að þetta hafi, þegar öllu er á botninn hvolft, ekki verið Guð, heldur þínar eigin ímyndanir og tilfinningar? Af hverju ættir þú að hugsa þannig? Er djöfullinn e.t.v. að reyna að ræna þig blessuninni og góðu minningunum sem Guð ætlaði þér að varðveita sem fjársjóð til að láta endast allt lífið og minna þig á elsku hans og trúfesti?

Sjálfur á ég nokkrar slíkar dýrmætar minningar sem ég rifja upp af og til, minningar sem eru mér meira virði en flestar aðrar. Ég ætla ekki að láta djöfulinn ræna mig þeirri blessun. Hann skal ekki geta talið mér trú um að það sem þá gerðist hafi verið hugarburður og upplifun sem bara byggðist á stemmingu líðandi stundar, nei, takk! Þessar dýrmætu minningar mínar ætla ég að varðveita í hjarta mér (og heila!) meðan ég hef vit og heilsu til. Þær eru mér sönnun þess að Guð faðir elskar mig og er virkilega annt um mig. Ég er honum kær sonur sem hann hefur velþóknun á. Velþóknun Guðs byggist ekki á einhverjum mannlegum verðleikum hjá mér, ef svo væri, gæti ég átt von á því að hann snéri sér að öðrum þegar ég gerði mistök og ylli honum vonbrigðum. Nei, þannig er Guð ekki. Hann elskar án skilyrða. Úff! hvílíkur léttir, að ég skuli ekki þurfa að koma mér í mjúkinn hjá honum með “góðri” frammistöðu.... þó að hún í sjálfu sér spilli ekki.

En aftur að því sem ég var að tala um: Góðu minningunum, -minningunum um það þegar Guð gerði eitthvað mjög sérstakt í lífi þínu. Rifjaðu það upp. Skrifaðu það hjá þér (þá getur þú betur rifjað það upp!). Mundu: Guði þykir vænt um þig og hann mætti þér á þann hátt sem hentaði þér. Og hann vill að þú rifjir það upp og minnir þig á að hann elskar þig enn og er ennþá með þér til að blessa þig og gera þig að blessun fyrir aðra.

Trúin eykur geðheilbrigði og lífshamingju

Hvernig? Heilbrigð iðkun trúarinnar veitir:

1. ...heilbrigða sjálfsmynd sem styrkist af þeirri vissu að ég er skapaður af góðum Guði og vel gerður af  hans hendi, enda skapar hann ekkert vont eða misheppnað.

2. ....heilbrigða mynd af Guði -en Jesús hefur gefið okkur hana. Í Jesú Kristi sjáum við hina réttu mynd af Guði, þar kynnumst eðli hans, hugarfari hans og viðhorfi til okkar, syndugra manna, en það einkennist af skilyrðislausum, fyrirgefandi kærleika og velþóknun.

3. ....vissu um að Guð fyrirgefur okkur syndir, mistök og vanrækslu (ef við iðrumst!). Fyrirgefning Guðs veitir innri frið og góða samvisku (á ný) sem hrekur burt kvíða, áhyggjur, vanmetakennd, skömm og margar aðrar vondar tilfinningar. Við verðum sátt við Guð.

4. ....sátt við annað fólk. Það að Guð fyrirgefur mér, hvetur mig til að fyrirgefa þeim sem mér finnst hafa gert á minn hlut. Þegar ég hætti að ásaka aðra, þá "sleppi" ég þeim og læt af biturð og vondum hugsunum. Einnig það veitir innri frið og jafnvægi og í slíkum jarðvegi vex gleðin hröðum skrefum.

5 ....hvíld og slökun.  Í Biblíunni merkir orðið friður (shalom) jafnvægi krafta þar sem allt vinnur saman að árangri (í stað togstreitu). Friður Guðs er virkur, uppbyggjandi friður en ekki hugsunarlaust aðgerðarleysi eða hlé á átökum.  Afleiðing af friði Guðs er jafnvægi í líkama og sál og velgengni í lífinu.

Þetta er reynsla mín. Ég hafði vanmetakennd, var kvíðinn og reiður, en svo kom Guð inn í  líf mitt með sannleikann (frá Kristi) sem gerði mig frjálsan. Meiriháttar!  Ég mæli með því að þú prófir það líka. 


Alfa námskeiðið hefur sannað gildi sitt og nú er það aftur í boði

Ég hef mjög góða reynslu af Alfa-námskeiðinu.  Þar er leitast við að svara spurningunni: Hver er tilgangur lífsins?  Þar er stórt spurt, en það góða við námskeiðið er,  að þar er mikið um góð svör! Truarbrögðin og heimspekin -og svo auðvitað hver heilvita maður- spyrja um tilgang lífsins.  Jesús Kristur hafði margt gott um málið að segja. Á Alfa kynnum við okkur hluta af því sem hann sagði og það er framsett á mjög aðgengilegan og -ég vil segja- skemmtilegan hátt.

Margir hafa sótt Alfa-námskeið á liðnum árum. Ég held að ég hafi komið að einum 15 eða 16 slíkum námskeiðum á liðnum árum og alltaf fundist ástæða til að bjóða  upp á þau á ný, reynslan er einfaldlega svo góð. 

Kynningarkvöld er þrd. 17. jan. kl.20 í Ísl. Kristskirkjunni, Fossaleyni 14, Grafarvogi og svo hefst námskeiðið sjálft viku síðar,  þrd. 24.  kl 19 með léttum kvöldverði.

Alfa fer þannig fram að fólk kemur saman eitt kvöld í viku og í hvert skipti er byrjað á því að snæða saman léttan kvöldverð, eins og fyrr sagði. Það er notalegt að setjast að matborði eftir langan vinnudag og þurfa ekkert að gera nema njóta matarins og rabba við hina nemendurna á meðan.  Eftir matinn er fyrirlestur og að honum loknum kaffi, auðvitað! Heilasellurnar virka tæplega þegar komið er fram á kvöld nema fólk fái sér kaffibolla, þannig er það a.m.k. hjá flestum.  Eftir kaffið eru myndaðir litlir hópar og þar ræðir fólk efni fyrirlestrarins í ca 40 mínútur, eða bara hlustar og þegir, enginn er skyldugur að segja neitt. Þarna getur fólk líka talað um hvað sem það vill og sem tengist grundvallarspurningunni um tilgang lífsins.  Kvöldið byrjar sem sé kl 7 og lýkur kl 10, stundvíslega. 

Nú eru kannski sumir farnir að velta fyrir sér hvar þeir geti farið á Alfa. Ég veit að það verður haldið í Íslensku Kristskirkjunni, Fossaleyni 14 (í Grafarvogi)  og þar er það í samstarfi við Grafarvogskirkju. Það er sennilega í einhverjum öðrum kirkjum líka og er hægt að komast að því með því að fara á alfa.is og kanna málið.

Reynsla mín af Alfa er mjög góð og ég mátti til með að segja ykkur frá því svo að þið eigið þess kost að njóta þess  ásamt mér og mörgum öðrum.


2012 nýtt náðar-ár

Síðstliðið ár var erfitt fyrir flesta kristna söfnuði í landinu. Alls konar slæm mál komu upp og önnur héldu áfram að valda erfiðleikum, mál sem áttu rætur að rekja til bankahrunsins  En nú er komið nýtt ár!   Við skulum ekki horfa um öxl að nauðsynjalausu. Það getur reynst afdrifaríkt eins og var í tilfelli konu Lots og sagt er frá í 1. Mósebók.  Í spádómsbók Jesaja, 43:18 segir Drottinn við leifar Ísraels sem voru að snúa aftur til Jerúsalem úr herleiðingunni til Babýlon: “Hugsið ekki um erfiðleika hins liðna og veltið ekki fyrir ykkur því sem áður var. Takið eftir, ég hef nýtt fyrir stafni! Þarna kemur það! Sjáið þið það ekki?”   Þegar Jesús byrjaði starf sitt kom hann með yfirlýsingu. Niðurlagsorðs hennar eru þau að Guð hafi sent hann ...til að kunngjöra náðarár Drottins. Á náðarári í Ísrael var venjan að gefa mönnum upp skuldir, hjálpa fjölskyldum til að fá aftur land sem þær höfðu misst af einhverjum óviðráðanlegum ástæðum og fleira í þeim dúr.  Það þýddi endurreisn, viðreins, björgun, frelsun úr ánauð og skuldafjötrum.  Náð Drottins er ekki þrotin, miskunn hans ekki á enda, hún er ný á hverjum morgni, mikil er trúfesti þín!  segir í Harmljóðunum. Þau (Harmljóðin)  voru ort þegar Jerúsalem hafði verið lögð í rúst og þjóðin herleidd til Babýlon, þegar öll von virtist út. En ef við snúum okkur til Drottins, áköllum hann, iðrumst og biðjum hann um náð, þá veitir hann náð!  Hann iðrast  þess ekki að gefa okkur náð sína.  Það eru góðar fréttir.  Með þetta í huga skulum við horfa fram á hið nýja ár.  Trúum því að Drottinn vilji örugglega gera nýja og góða hluti í lífi okkar sem einstaklinga, fjölskyldna, kirkju og þjóðar, hluti sem flytja okkur náð hans, velþóknun og blessun.  Guð er góður,  hann er einungis góður.  Treystum því. Þá munum við fá að reyna náð hans í ríkum mæli.

Gripið frammí í messu hjá mér

Drengurinn horfði á mig galopnum og einlægum augum og sagði hátt or skýrt: "Jesús er bestur!"  Ég var að tala til fólksins í kirkjunni á sunnudaginn var þegar þetta gerðist.  Þetta var ánægjuleg upplifun!  Börnin eru svo einlæg og þeim er svo eðlilegt að trúa því sem er fallegt og gott.  Þá líður þeim vel.

Við þurfum að segja börnunum frá Jesú Kristi, honum "sem gerði gott og græddi alla þá sem voru undirokaðir af djöflinum" eins og segir í Postulasögunni.  Það er málið. Það eru svo mörgum sem líður illa, eru svartsýnir, hafa misst vonina og horfa með kvíða fram á næsta dag.  Það góða við trúna á Jesú er að Jesús er ekki goðsagnapersóna. Hann lifði raunverulegu lífi, dó fyrir syndir okkar og reis upp okkur til lífs og réttlætingar.  Þessi veruleiki gefur fólki von. Jesús, hinn upprisni, lifir ávallt og við getum átt samfélag við hann í bæn og gegnum orð hans.  Þetta hefur gefið lífi mínu tilgang, fyllingu og gleði  ....og bjarta von til að horfast í augu við það sem í vændum er án þess að bugast eða fyllast svartsýni. 

Ég er því sammála drengnum sem hrópaði: "Jesús er bestur!" 


Um bloggið

Friðrik Schram

Höfundur

Friðrik Agnar Ólafsson Schram
Friðrik Agnar Ólafsson Schram
Guðfræðingur og prestur Íslensku Kristskirkjunnar
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • fridrikschram 1125153.gif

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband