Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

68 kynslóðin

Ég er einn af 68 kynslóðinni. Skólafélagi minn í framhaldsskóla, þekktur maður, sagði eitt sinn við mig: ”Ég fór ekki með börnin mín í sunnudagaskóla.” Mjög margir foreldrar hafa eflaust einnig látið það ógert. Þetta barst í tal þegar verið var að undirbúa kristintökuhátíðina árið 2000. Þegar ég var barn fóru flestir krakkar, held ég, í sunnudagaskóla eða í KFUM eða KFUK. Sú kynslóð fékk því að stórum hluta að kynnast kristinni trú og höfuðatriðum hennar. Við hjónin fórum með börnin okkar á kristilega fundi meðan þau voru að vaxa úr grasi, en margir jafnaldra minna gerðu það ekki .

Á þessum árum byrjaði stórfelld afkristnun með þjóðinni þ.e. tíma 68 kynslóðarinnar. Þetta er mjög alvarlegt meðal annars vegna þess að ef kynslóðin sem uppi er hverju sinni, fólkið sem er að eiga börn og hasla sér völl í lífinu, tekst ekki að færa börnum sínum trúna, siðfræði hennar og fræðslu, þá er mikil hætta á að sú kynslóð verði ekki kristin nema að verulega litlu leyti. Þau börn sem þannig alast upp vita varla að á jólum minnumst við fæðingar Jesú, á páskum upprisu hans og á hvítasunnu úthellingar Heilags anda og stofnunar kirkjunnar. Kristið siðferði nær heldur ekki til þeirra nema að hluta til. Afleiðingin verður fyrsta stig afkristnunar. Ef svo þau börn sem 68 kynslóðin ól upp, kenna ekki sínum börnum um Jesú Krist og kristinn sið, þá eykst afkristnunin enn hraðar.

Þetta tel ég vera stöðu mála í dag. Ástandið er mjög alvarlegt, ekki bara vegna andlegar velferðar fjölda fólks, heldur líka vegna hættu á að hin mörgu góðu gildi sem fylgt hafa kristninni öld fram af öld gleymist og týnist. Þá stendur eftir ekki-kristin fjölhyggja, þar sem engin allherjar-regla gildir, heldur hver fer sínu fram ef hann getur. Það er ávísun á upplausn og hnignun menningar. Ég vil hvetja ykkur öll til að hugleiða þetta og gera allt sem þið getið til að sporna gegn afkristnuninni með öllum tiltækum góðum ráðum. Foreldrar, farið með börnin ykkar í sunnudagskóla, kirkju eða í kristileg félög. Sýnið þannig ábyrgð og gott fordæmi. Afar og ömmur, gefið barnabörnunum ykkar kristilegar bækur og annað efni sem þau vilja horfa eða hlusta á. Talið við þau um Jesú og trúna á hann. Vöknum af svefni andvaraleysis í þessum efnum. Ef við gerum okkar besta hvert um sig, munu áhrifin skila sér út á meðal hinna mörgu og verða til mikillar blessunar.


Hjónabandið -látum á það reyna.

Vinur minn í útlöndum hefur fengið þau skilaboð frá konu sinni að hún ætli að fara fram á skilnað. Hann er eyðilagður og börnin í sárum. Uppbygging liðinna ára er í hættu. Þetta er ekkert einsdæmi. Og það sem eykur á tregann er, að þetta er trúað fólk. Það ætti að þekkja hvatningu Drottins um að forðast hjónaskilnað í lengstu lög. Við vitum reyndar að Jesús féllst á skilnað ef um um framhjáhald að ræða (en svo er ekki í fyrrnefndu tilfelli að mínu viti). Munum samt að til er nokkuð sem heitir fyrirgefning og sátt.

Krafan um trúnað og að standa við heitin er sterk samkvæmt orðum Jesú Krists og þannig á það að vera í kirkjunni. Við í evangelísku kirkjunum töku þessi orð Jesú ekki svo alvarlega. Það er okkar vandi. Hjónaskilnaður er ekkert grín og dregur stóran dilk á eftir sér, ekki bara sársauka og einmanaleika, heldur einnig í mörgum tilfellum sorg, reiði, togstreitu (sem bitnar ekki síst á börnunum ef þau eru með í myndinni) og biturð auk fjárhagslegs tjóns, vinnutaps og slæms fordæmis fyrir aðra.

Við þurfum að breyta áherslum og hurgarfari okkar: Færast frá frjálslyndi í skilnaðarmálum til meiri fastheldni við orð Jesú hvað þau mál varðar. Það eru engin óumflýjanleg örlög að elta frjálslyndi sem skaðar bæði okkur sjálf, börnin okkar og þjóðfélagið allt.  

Mér finnst mjög alvarlegt mál þegar prestar og kristnir leiðtogar skilja við maka sinn. Ábyrgð okkar er meiri en annarra vegna þeirrar fyrirmyndar sem við eigum að vera í kirkjunni og þjóðfélaginu. Ef prestur heldur framhjá og yfirgefur maka sinn, sendir hann óbeint þau skilaboð til safnaðarins -og annarra líka- að hjónabandið beri ekki að taka ýkja alvarlega. Álit margra í nútímanum er það, að ef ástin (tilfinningin) dofnar eða hefur nánast fjarað út, þá sé rétt að skilja. Þetta er rangt viðhorf að mínu mati. Einmitt þá reynir á "bandið" milli hjónanna -heitin, heilindin, tryggðina og viljann til að gera rétt. Ef við bregðumst við þessum vanda í tæka tíð og á skynsamlegan hátt, tökum að næra og blása lífi í ástina þótt lítil sé, þá eru ótal dæmi þess að hún hefur lifnað við og orðið heit á ný. Við megum ekki gefast upp í fyrstu brekkunni. Og við megum heldur ekki gefast upp í fimmtugustu brekkunni! Við verðum að ná tindinum saman.

Ef svo fer að hjón skilja, þá þarf ekki endilega að ganga í annað hjónaband. Slík endurgifting getur beinlínis verið röng. Og svo er líka til sá möguleiki að búa einn eftir skilnað og ganga ekki í annað hjónaband.

Hjónaband sem heldur, styrkist með tímanum. Reynsla mín er sú að ástin vex með árunum, verður dýpri og sannari og þrautseigari. Þegar þeim áfanga er náð, eigum við sameiginlegan fjársjóð sem við getum notið þegar ellin færist yfir, börnin okkar líka og barnabörnin -og margir aðrir.

Hjónabandið er skóli skapgerðarinn er haft eftir Marteini Lúther. Kannski er réttari þýðing á orðum hans sú að það sé skóli persónuleikans eða nám í siðferðisþreki. Mér finnst vanta úthald og tryggð í mörg sambönd fólks í dag. Fólk reiðist eða móðgast, sárnar og verður biturt -vill ekki fyrirgefa og sættast, og fer sína leið. Fyrr á árum lét fólk miklu oftar reyna á "bandið". Mikið var lagt í sölurnar til að sjá hvort það héldi þótt á reyndi. Trúlega lenda langflest hjón í vanda í hjónabandinu. Það er ekki létt verk að sameina tvo ólíka einstaklinga með ólíkan bakgrunn, uppeldi og lífsvenjur. En ástin getur sigrað allt, ef vilji er fyrir hendi.

Kæru vinir, tökum okkur á í þessum efnum. Látum ekki segja okkur að lausnin sé "bara að skilja". Það er oftast léleg ef nokkur lausn. Í kjölfarið koma ótal vandamál sem geta varað lengi. Hjónabandið lengi lifi!


Settu mörk, sjálfum þér og öðrum

Okkur er öllum nauðsynlegt að hafa skýr mörk, bæði hvað varðar okkur sjálf og gagnvart öðrum. Það er ekki gott ef við leyfum öðrum að fara yfir þau mörk sem við í huga okkar höfum sett þeim. Það er á/okkar ábyrgð að þau séu virt. Ef aðrir vilja ráðskast með mig, tíma minn eða annað, þá ber mér að gera draga mig í hlé frá þeim og hugsanlega gera þeim ljóst að þeir hafi gengið of langt. Biðjum Guð og skynsamt fólk að leiðbeina okkur hvar mörkin eru í þessu sambandi. Þú átt þitt líf og Guð ætlar þér að nota það skv. leiðsögn hans og vilja. Þar mega aðrir ekki taka völdin af þér.

Sumt fólk er í þóknunarhlutverki og gjarnan upptekið við að gera öðrum til geðs. Vitaskuld getur það átt rétt á sér, ekki síst gagnvart ungum börnum eða sjúkum ættingjum, en stundum fer þetta út yfir öll eðlileg mörk. Þá verður maður að taka á sig rögg og ákveða hve langt skuli ganga við að þóknast og þjóna öðrum.

Jesús hafði skýr mörk og áform en lagði samt oft lykkju á leið sín til að þjóna fólki og þóknast því. Hann er frábær fyrirmynd hvað þetta varðar. Þar er jafnvægi á hlutunum. Ef við hugum ekki að þessu, er hætt við að við komum ekki í verk því sem við verðum að gera, en eyðum of miklum tíma og kröftum í það sem ekki er nauðsynlegt.

En svo er það hin hliðin: Við sjálf. Við verðum að setja sjálfum okkur mörk. Til dæmis að fara vel með tímann eða annað sem við höfum til ráðstöfunar. Ekki gleyma okkur við tölvuna tímunum saman þegar við ætluðum rétt aðeins að kíkja á netið. Eins það að fara ekki of seint að sofa eða sofa ekki of lengi, borða ekki of mikið eða óhollan mat o.s.f. Það er skrýtið ef ég hef “allt á hreinu” gagnvart öðrum, en leyfi sjálfum mér óreiðu.

Við þurfum að hugleiða þessa hluti –bæði ytri og innri mörk (gagnvart örðum og svo í eigin lífi) og koma reglu þar á ef við höfum verið slöpp og kærulaus. Ef við venjum okkur á skýr mörk í lífi okkar, þá líður okkur betur, við komum meiru í verk og aðrir bera virðingu fyrir okkur. Ef við hins vegar höfum allt “opið” og látum hlutina bara fara svona eða hinsegin, þá verðum við innst inni ófullnægð og vonsvikin og aðrir munu síður bera virðingu fyrir okkur og í framhaldi af því munu þeir hugsanlega fara yfir mörkin og byrja að ráðskast með okkur.


Hefur þú verið “down”?


En hvað gerir þú þegar þú ert leiður og niðurdreginn? Dregur þig hlé? Ferð minna út á meðal fólks og leyfir þér kannski að vera heima og láta vita að þú sért “lasinn”? En það er skammgóður vermir. Þegar ég er að tala um að vera þungur í skapi og niðurdreginn, þá á ég ekki við alvarlegt þunglyndi, við því þurfum við að leita læknis. Nei, ég meina svona almenna vanlíðan þegar lífið gengur ekki eins og við höfðum vonað, t.d. þegar við eigum tæpast fyrir skuldum, þegar okkur er sögð upp vinnan, þegar við missum ástvin, eða bara þegar okkur verður sundurorða við einhvern annan eða verðum fyrir vonbrigðum með framkomu hans.

Ein mikilvægasta þörf kristins trúaðs fólks (ekki síst þegar maður er “down”) er að vera innan um annað kristið fólk þar sem maður fær tækifæri til að tala saman, lofa Guð saman, biðja saman og hlusta á uppövandi boðskap úr Orði Guðs. Það að VERA SAMAN er mjög mikilvægt. Þannig rýfur maður eingangrun sína, beinir athyglinni frá eigin vanlíðan og að einhverju góðu og uppörvandi. Það lyftir manni upp. Maður er manns gaman.

Ég hvet þig, sem líður illa vegna einhverrar erfiðrar reynslu, þig sem ert hnugginn og vonsvikinn, að einangra þig ekki. Farðu í samfélag trúaðra, fáðu fyrirbæn, taktu þátt í lofgjörðinni. Gefðu af þér og gleddu aðra með brosi og hlýju handtaki, einmitt þegar þér finnst þú ekkert hafa að gefa! Ef við gefum örðum eitthvað gott, þá fáum við eitthvað gott! Þannig er það í Guðs ríki. Gefið og yður mun gefið verða, sagði Jesús; og það á líka við jákvætt viðmót og uppörvandi orð.

Lokaorð: Ekki loka þig af. Taktu þig taki. Farðu innan um gott fólk. Gefðu af þér (í trú að þú fáir eitthvað gott í staðinn). Taktu ákvörðun um að vera glaður –vegna Drottins, vegna þess að hann elskar þig, er hjá þér og vill hjálpa þér.


Trúin eykur geðheilbrigði og lífshamingju

Hvernig? Heilbrigð iðkun trúarinnar veitir:

1. ...heilbrigða sjálfsmynd sem styrkist af þeirri vissu að ég er skapaður af góðum Guði og vel gerður af  hans hendi, enda skapar hann ekkert vont eða misheppnað.

2. ....heilbrigða mynd af Guði -en Jesús hefur gefið okkur hana. Í Jesú Kristi sjáum við hina réttu mynd af Guði, þar kynnumst eðli hans, hugarfari hans og viðhorfi til okkar, syndugra manna, en það einkennist af skilyrðislausum, fyrirgefandi kærleika og velþóknun.

3. ....vissu um að Guð fyrirgefur okkur syndir, mistök og vanrækslu (ef við iðrumst!). Fyrirgefning Guðs veitir innri frið og góða samvisku (á ný) sem hrekur burt kvíða, áhyggjur, vanmetakennd, skömm og margar aðrar vondar tilfinningar. Við verðum sátt við Guð.

4. ....sátt við annað fólk. Það að Guð fyrirgefur mér, hvetur mig til að fyrirgefa þeim sem mér finnst hafa gert á minn hlut. Þegar ég hætti að ásaka aðra, þá "sleppi" ég þeim og læt af biturð og vondum hugsunum. Einnig það veitir innri frið og jafnvægi og í slíkum jarðvegi vex gleðin hröðum skrefum.

5 ....hvíld og slökun.  Í Biblíunni merkir orðið friður (shalom) jafnvægi krafta þar sem allt vinnur saman að árangri (í stað togstreitu). Friður Guðs er virkur, uppbyggjandi friður en ekki hugsunarlaust aðgerðarleysi eða hlé á átökum.  Afleiðing af friði Guðs er jafnvægi í líkama og sál og velgengni í lífinu.

Þetta er reynsla mín. Ég hafði vanmetakennd, var kvíðinn og reiður, en svo kom Guð inn í  líf mitt með sannleikann (frá Kristi) sem gerði mig frjálsan. Meiriháttar!  Ég mæli með því að þú prófir það líka. 


Æ, hlífið okkur við öllum þessum blóts- og fúkyrðum í Skaupinu

Fjölskyldan situr og horfir á Skaupið, foreldrar og börn á ýmsum aldri. Þá skellur allt í einu á fólkinu slíkur flaumur formælinga að maður á ekki orð.  Er það þetta sem við viljum? Vilja foreldrar að slíkt dynji á börnum þeirra? Nei, það tel ég mjög ólíklegt. Flestir foreldrar vilja hafa fyrir börnum sínum það sem er gott afspurnar. Börnin eru varnarlaus fyrir þessum ósóma og foreldrarnir hafa kannski ekki uppburð í sér til að segja þeim að þetta sé ljótt orðbragð og að þau skuli ekki tala svona. Það þurfum við að gera.

Við eigum ekki að samþykkja allt sem kemur frá hinni opinberu "menningarstofnun". Okkar er að meta hlutina á gagnrýninn hátt og tjá álit okkar. Það er engin frekja, heldur skylda okkar. Það er ekkert "kúl" að sitja þegjandi undir flaumi blótsyrða og láta sem manni þyki það gott og gilt, ekki síst ef flutningur þess er kostaður af skattfé mínu og þínu.

Flestum sem teknir voru tali í Kringlunni í dag (Fréttir) sögðu að Skaupið hefði verið gott. Ég spyr: Fannst engum ástæða til að gera athugasemdir við blótsyrðin, eru þau bara sjálfsögð?  Nei, blótsyrði eru ekki sjálfsögð. Það er alveg hægt að tjá sig sterkt án blótsyrða. Blót er "billegt".  Það er flott þegar menn nota kjarngóð lýsingarorð til að tjá sig um það sem skiptir máli eða bragð er að.

Sem sagt: Stjórnvöld,  hættið að kosta flutning á blótyrðum í Ríkisútvarpinu. Takk.


Um bloggið

Friðrik Schram

Höfundur

Friðrik Agnar Ólafsson Schram
Friðrik Agnar Ólafsson Schram
Guðfræðingur og prestur Íslensku Kristskirkjunnar
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • fridrikschram 1125153.gif

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband