Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

68 kynslóðin

Ég er einn af 68 kynslóðinni. Skólafélagi minn í framhaldsskóla, þekktur maður, sagði eitt sinn við mig: ”Ég fór ekki með börnin mín í sunnudagaskóla.” Mjög margir foreldrar hafa eflaust einnig látið það ógert. Þetta barst í tal þegar verið var að undirbúa kristintökuhátíðina árið 2000. Þegar ég var barn fóru flestir krakkar, held ég, í sunnudagaskóla eða í KFUM eða KFUK. Sú kynslóð fékk því að stórum hluta að kynnast kristinni trú og höfuðatriðum hennar. Við hjónin fórum með börnin okkar á kristilega fundi meðan þau voru að vaxa úr grasi, en margir jafnaldra minna gerðu það ekki .

Á þessum árum byrjaði stórfelld afkristnun með þjóðinni þ.e. tíma 68 kynslóðarinnar. Þetta er mjög alvarlegt meðal annars vegna þess að ef kynslóðin sem uppi er hverju sinni, fólkið sem er að eiga börn og hasla sér völl í lífinu, tekst ekki að færa börnum sínum trúna, siðfræði hennar og fræðslu, þá er mikil hætta á að sú kynslóð verði ekki kristin nema að verulega litlu leyti. Þau börn sem þannig alast upp vita varla að á jólum minnumst við fæðingar Jesú, á páskum upprisu hans og á hvítasunnu úthellingar Heilags anda og stofnunar kirkjunnar. Kristið siðferði nær heldur ekki til þeirra nema að hluta til. Afleiðingin verður fyrsta stig afkristnunar. Ef svo þau börn sem 68 kynslóðin ól upp, kenna ekki sínum börnum um Jesú Krist og kristinn sið, þá eykst afkristnunin enn hraðar.

Þetta tel ég vera stöðu mála í dag. Ástandið er mjög alvarlegt, ekki bara vegna andlegar velferðar fjölda fólks, heldur líka vegna hættu á að hin mörgu góðu gildi sem fylgt hafa kristninni öld fram af öld gleymist og týnist. Þá stendur eftir ekki-kristin fjölhyggja, þar sem engin allherjar-regla gildir, heldur hver fer sínu fram ef hann getur. Það er ávísun á upplausn og hnignun menningar. Ég vil hvetja ykkur öll til að hugleiða þetta og gera allt sem þið getið til að sporna gegn afkristnuninni með öllum tiltækum góðum ráðum. Foreldrar, farið með börnin ykkar í sunnudagskóla, kirkju eða í kristileg félög. Sýnið þannig ábyrgð og gott fordæmi. Afar og ömmur, gefið barnabörnunum ykkar kristilegar bækur og annað efni sem þau vilja horfa eða hlusta á. Talið við þau um Jesú og trúna á hann. Vöknum af svefni andvaraleysis í þessum efnum. Ef við gerum okkar besta hvert um sig, munu áhrifin skila sér út á meðal hinna mörgu og verða til mikillar blessunar.


Taktu ekki mark á heilanum...

....að minnsta kosti ekki alltaf. Hann er eins og súpertölva sem geymir ótrúlegustu hluti, bæði góða og slæma, gagnlega og ónothæfa. Heilinn er eins og tölva sem sendir alls kyns upplýsingar á vitundarskjáinn þinn –hugann.

Þér koma alls konar hlutir í hug, sumir góðir og ganglegir, en en líka aðrir sem þú ættir þegar í stað að senda í ruslakörfuna. Við höldum gjarnan að það sem kemur í huga okkar hljóti að vera sannleikanum samkvæmt, en það er ekki alltaf svo. Stundum detta okkur í hug hlutir sem eru vafasamir og einfaldlega rangir. En hvernig eigum við að átta okkur á hvað gera skuli við hugsanirnar sem “birtast á skjánum”?

Skoðum málið aðeins betur. Þú upplifir sjálfan þig sem “ég”. Þú hefur vitund sem skynjar að þú ert þú. Þú ert ekki einhver annar. Þú hefur tilfinningu fyrir því að vera til. Þú hugsar, ályktar, tekur ákvarðanir og framkvæmir. Hvað er þetta “ég” í okkur? Hvað er þessi hugur okkar sem hefur vitund um að “ég” er til? Það er andinn sem í þér er. Hann er frá Guði, eilífur og einstakur. Það er hann sem á að meta allt sem heilinn í þér leggur fyrir þig, bendir þér á og stingur uppá. Þess vegna eigum við ekki að verða áhyggjufull þótt heilinn bendi okkur á ýmsan vanda sem hann kallar fram af “harða diskinum” í okkur.

Heili margra er uppfullur af alls konar misskilningi, röngum upplýsingum, vantrú og vanþekkingu. Og vegna þess að margir halda að þessar hugsanir eigi að taka alvarlega, þá taka þeir margar rangar ákvarðanir, segja og gera margt vitlaust sem skaðar sjálfa þá og aðra. Allt sem heilinn í okkur sendir inn á “skrifborðið” okkar eða birtir á “skjánum” okkar þarf hugurinn, andi okkar, upplýstur af Heilögum anda og Orði Guðs, að meta, hvort sé gagnlegt og gott eða slæmt og ónothæft.

Við megum ekki láta stjórnast af hinu og þessu sem okkur kemur í hug, þá er hætt við því að “holdið” hafi stjórnina. Heilinn er bara eins og tæki, tölva, sem geymir fullt af upplýsingum, en hann kann ekki alltaf að vinna rétt úr þeim. Það er hlutverk andans, hugarins, já, “þín” að gera. Með því að láta andann í okkur hafa síðasta orðið, getum við strax afgreitt út af borðinu ýmislegt sem ekkert vit er í að hugsa frekar um eða framkvæma.

Páll postuli ráðleggur okkur í Rómverjabréfinu (12:2) að taka upp breytt líferni með því hugsa öðruvísi en við vorum vön, og þá munum við fá að skilja hvað Guð vill að við gerum, allt það sem er gott, fagurt og fullkomið. Það er til mikils að vinna!


Hjónabandið -látum á það reyna.

Vinur minn í útlöndum hefur fengið þau skilaboð frá konu sinni að hún ætli að fara fram á skilnað. Hann er eyðilagður og börnin í sárum. Uppbygging liðinna ára er í hættu. Þetta er ekkert einsdæmi. Og það sem eykur á tregann er, að þetta er trúað fólk. Það ætti að þekkja hvatningu Drottins um að forðast hjónaskilnað í lengstu lög. Við vitum reyndar að Jesús féllst á skilnað ef um um framhjáhald að ræða (en svo er ekki í fyrrnefndu tilfelli að mínu viti). Munum samt að til er nokkuð sem heitir fyrirgefning og sátt.

Krafan um trúnað og að standa við heitin er sterk samkvæmt orðum Jesú Krists og þannig á það að vera í kirkjunni. Við í evangelísku kirkjunum töku þessi orð Jesú ekki svo alvarlega. Það er okkar vandi. Hjónaskilnaður er ekkert grín og dregur stóran dilk á eftir sér, ekki bara sársauka og einmanaleika, heldur einnig í mörgum tilfellum sorg, reiði, togstreitu (sem bitnar ekki síst á börnunum ef þau eru með í myndinni) og biturð auk fjárhagslegs tjóns, vinnutaps og slæms fordæmis fyrir aðra.

Við þurfum að breyta áherslum og hurgarfari okkar: Færast frá frjálslyndi í skilnaðarmálum til meiri fastheldni við orð Jesú hvað þau mál varðar. Það eru engin óumflýjanleg örlög að elta frjálslyndi sem skaðar bæði okkur sjálf, börnin okkar og þjóðfélagið allt.  

Mér finnst mjög alvarlegt mál þegar prestar og kristnir leiðtogar skilja við maka sinn. Ábyrgð okkar er meiri en annarra vegna þeirrar fyrirmyndar sem við eigum að vera í kirkjunni og þjóðfélaginu. Ef prestur heldur framhjá og yfirgefur maka sinn, sendir hann óbeint þau skilaboð til safnaðarins -og annarra líka- að hjónabandið beri ekki að taka ýkja alvarlega. Álit margra í nútímanum er það, að ef ástin (tilfinningin) dofnar eða hefur nánast fjarað út, þá sé rétt að skilja. Þetta er rangt viðhorf að mínu mati. Einmitt þá reynir á "bandið" milli hjónanna -heitin, heilindin, tryggðina og viljann til að gera rétt. Ef við bregðumst við þessum vanda í tæka tíð og á skynsamlegan hátt, tökum að næra og blása lífi í ástina þótt lítil sé, þá eru ótal dæmi þess að hún hefur lifnað við og orðið heit á ný. Við megum ekki gefast upp í fyrstu brekkunni. Og við megum heldur ekki gefast upp í fimmtugustu brekkunni! Við verðum að ná tindinum saman.

Ef svo fer að hjón skilja, þá þarf ekki endilega að ganga í annað hjónaband. Slík endurgifting getur beinlínis verið röng. Og svo er líka til sá möguleiki að búa einn eftir skilnað og ganga ekki í annað hjónaband.

Hjónaband sem heldur, styrkist með tímanum. Reynsla mín er sú að ástin vex með árunum, verður dýpri og sannari og þrautseigari. Þegar þeim áfanga er náð, eigum við sameiginlegan fjársjóð sem við getum notið þegar ellin færist yfir, börnin okkar líka og barnabörnin -og margir aðrir.

Hjónabandið er skóli skapgerðarinn er haft eftir Marteini Lúther. Kannski er réttari þýðing á orðum hans sú að það sé skóli persónuleikans eða nám í siðferðisþreki. Mér finnst vanta úthald og tryggð í mörg sambönd fólks í dag. Fólk reiðist eða móðgast, sárnar og verður biturt -vill ekki fyrirgefa og sættast, og fer sína leið. Fyrr á árum lét fólk miklu oftar reyna á "bandið". Mikið var lagt í sölurnar til að sjá hvort það héldi þótt á reyndi. Trúlega lenda langflest hjón í vanda í hjónabandinu. Það er ekki létt verk að sameina tvo ólíka einstaklinga með ólíkan bakgrunn, uppeldi og lífsvenjur. En ástin getur sigrað allt, ef vilji er fyrir hendi.

Kæru vinir, tökum okkur á í þessum efnum. Látum ekki segja okkur að lausnin sé "bara að skilja". Það er oftast léleg ef nokkur lausn. Í kjölfarið koma ótal vandamál sem geta varað lengi. Hjónabandið lengi lifi!


Vatnsgrautarkærleikur

Fróður maður sagði mér um daginn að móðir hans hefði kallað það vatnsgrautarkærleika þegar menn þyrðu ekki að vara fólk við hættulegum hlutum af ótta við að vera taldir neikvæðir og dæmandi í augum fjöldans.  Mér finnst mikið um þetta meðal okkar kristinna manna í dag. Sumt kristið fólk lítur svo á að við megum ekki vara við veraldarhyggjunni, fráfallinu frá trúnni, siðferðishruninun og áhrifum ekki-kristinna trúarbragða sem nú leita hingað.  Það má ekki fæla fólk frá trúnni með neikvæðri gagnrýni, segir þetta fólk, heldur á kirkjan að vera jákvæð og umburðarlynd, brosa bara og vera elskuleg –eins og hjónin í sögunni um Biedermann og brennuvargana. Mig minnir að þau hafi jafnvel lánað brennuvörgunum verfæri til að kveikja í húsinu þeirra, og það af einskærri góðvild og elskulegheitum!

 

Spámannleg rödd varar við. Það að þegja um yfirvofandi hættu er svik við sannleikann og kærleikann. Kristið fólk þarf og á að fletta ofan af illskunni, það er boðskapur postulans. Jesús varaði við “súrdeigi” farísea og saddúkea (röngum kenningum þessara manna). Okkar skylda er líka að vara við, annað er vatnsgrautarkærleikur.

 

Vitaskuld eigum við að gera allt í kærleika, ekki í reiði og biturð. Við eigum að vera spámannleg rödd í þjóðfélaginu og kirkjunni og tala óttalaust.   Hvaða máli skiptir þótt einhverjir hreyti í okkur ónotum þegar við vörum við? Sé málstaður okkar góður og hjarta okkar hreint (laust við reiði og illsku) og fullt samúðar og hryggðar vegna ranglætisins, þá eigum við að láta í okkur heyra. Ef við vörum ekki við, þá lendir dómurinn á okkur sjálfum og fólk mun spyrja: “Af hverju sagðir þú mér þetta ekki, af hverju varaðir þú mig ekki við, þú vissir um hættuna og skildir að við vorum í stórhættu!”

 

Drottinn er upprisinn frá dauðum og stiginn upp til himna. Nú hefur ekki aðra boðbera á jörðu en þig og mig.  Tölum, vörum við og hvetjum fólk til að leita Drottins meðan enn er náðartíð, það kemur nefnilega að því að ógæfan dynur yfir ef við sjáum ekki að okkur. Biðjum að til þess þurfi ekki að koma.


Lestur Biblíunnar


Það er oft vitnað í Biblíuna á Alþingi. Biblían er slíkt öndvegisrit og áhrifavaldur hvað varðar menningu og bókmenntir á vesturlöndum að nauðsynlegt er fyrir þá sem fjalla opinberlega um mannlegt líf og þjóðfélagsmál að þekkja til texta hennar, a.m.k. mikilvægustu hlutanna, þar með talið Fjallræðunnar.

Þeir sem vilja kynnast texta þessarar öndvegisbókar eru stundum í óvissu hvar þeir eiga að byrja lesturinn og síðan hvað lesa skuli í framhaldi af því. Til að hjálpa fólki í þessu sambandi, höfum við í Ísl. Kristskirkjunni útbúið skrá með völdum textum, bæði úr Gamla og Nýja testamentinu. Birtast þeir mánaðarlega á heimasíðu safnaðarins (www.kristskirkjan.is).

Í dag settum við inn á heimasíðuna lestrarskrá fyrir nóvember og hvetjum við ykkur sem hafið hugsað ykkur að hressa upp á minnið hvað varðar biblíutextana að skoða lestrarskrána og notfæra ykkur hana við lesturinn. Sá lestur getur orðið ykkur til fróðleiks og andlegrar uppbyggingar trúi ég. Slóðin er þessi: http://www.kristskirkjan.is/images/stories/bibliulestraraaetlun_nov2012.pdf


Aftur á byrjunarreit!

Þessi orð komu mér í hug þegar ég var á heilsubótargöngu í Elliðaárdalnum í morgun. Málið er að oft hefur maður ætlað að vera duglegur og fara út að ganga eða hjóla –gera það að reglu- en svo hafa þau góðu áform riðlast og minna orðið úr en til stóð. Hver kannast ekki við það? En þegar maður svo hefur sig af stað og byrjar aftur að hreyfa sig eftir svo eða svo langt hlé, þá finnur maður hvað hreyfingin er góð. Hættan er sú að þegar maður fer að slá slöku við, þá komist maður bara alls ekki aftur af stað. Maður segir við sjálfan sig: “Það þýðir ekkert að vera með þessi áform um reglulega hreyfingu, þau fara öll í vaskinn!” og svo hættir maður bara að hreyfa sig og verður stirður og þunglamalegur! Nei, nei, það má ekki gerast. Ef maður hefur trassað hið góða, hvað sem það er, þá er um að gera að fara aftur á “byrjunarreitinn” ....taka sig taki og byrja aftur. Er á meðan er.

Ég held að lífið sé þannig hjá flestum að það gengur í bylgjum. Stundum er maður duglegur og í framhaldi af því ánægður og líður vel og stundum óduglegur (kærulaus um góðar lífsvenjur) og þá leiður og kannski með samviskubit. En við megum ekki vera of hörð við okkur sjálf. Í Biblíunni segir að Guð minnist þess að við erum mold (veikleika vafin) og Jesús sagði: “Andinn er að sönnu reiðubúinn, en holdið er veikt.” Við höfum öll góð áform, en svo verður stundum (oft!) minna úr en til stóð í byrjun. Hvað eigum við þá að gera? Þá er um að gera að fara aftur á upphafsreitinn og byrja upp á nýtt. Þetta á við allt gott í lífinu, reglusemi hvers konar
–næringu, hvíld, ástundun vinnunnar, það að lesa Biblíuna, fara í kirkju, eiga persónlegar bænastundir o.s.f. -allt þetta sem gerir lífið betra.

Ég talaði í morgun við mann sem hefur ekki komið í kirkjuna í nokkra mánuði. Hann ætlaði sér ekki að vanrækja trúarsamfélagið af ásettu ráði, en það var svo mikið að gera að hann tók að sér vinnu “sýknt og heilagt” (bæði helga og virka daga) og svo duttu kirkjuferðirnar bara upp fyrir :-( En hann sagði, “Nú ætla ég að fara koma aftur í kirkjuna.” Batnandi manni er best að lifa, segi ég. Ekki missa móðinn þótt þú hafir slakað á, taktu þig bara á og byrjaðu aftur á því sem gott er. Þá er allt á góðri leið á ný.


Hefur þú verið “down”?


En hvað gerir þú þegar þú ert leiður og niðurdreginn? Dregur þig hlé? Ferð minna út á meðal fólks og leyfir þér kannski að vera heima og láta vita að þú sért “lasinn”? En það er skammgóður vermir. Þegar ég er að tala um að vera þungur í skapi og niðurdreginn, þá á ég ekki við alvarlegt þunglyndi, við því þurfum við að leita læknis. Nei, ég meina svona almenna vanlíðan þegar lífið gengur ekki eins og við höfðum vonað, t.d. þegar við eigum tæpast fyrir skuldum, þegar okkur er sögð upp vinnan, þegar við missum ástvin, eða bara þegar okkur verður sundurorða við einhvern annan eða verðum fyrir vonbrigðum með framkomu hans.

Ein mikilvægasta þörf kristins trúaðs fólks (ekki síst þegar maður er “down”) er að vera innan um annað kristið fólk þar sem maður fær tækifæri til að tala saman, lofa Guð saman, biðja saman og hlusta á uppövandi boðskap úr Orði Guðs. Það að VERA SAMAN er mjög mikilvægt. Þannig rýfur maður eingangrun sína, beinir athyglinni frá eigin vanlíðan og að einhverju góðu og uppörvandi. Það lyftir manni upp. Maður er manns gaman.

Ég hvet þig, sem líður illa vegna einhverrar erfiðrar reynslu, þig sem ert hnugginn og vonsvikinn, að einangra þig ekki. Farðu í samfélag trúaðra, fáðu fyrirbæn, taktu þátt í lofgjörðinni. Gefðu af þér og gleddu aðra með brosi og hlýju handtaki, einmitt þegar þér finnst þú ekkert hafa að gefa! Ef við gefum örðum eitthvað gott, þá fáum við eitthvað gott! Þannig er það í Guðs ríki. Gefið og yður mun gefið verða, sagði Jesús; og það á líka við jákvætt viðmót og uppörvandi orð.

Lokaorð: Ekki loka þig af. Taktu þig taki. Farðu innan um gott fólk. Gefðu af þér (í trú að þú fáir eitthvað gott í staðinn). Taktu ákvörðun um að vera glaður –vegna Drottins, vegna þess að hann elskar þig, er hjá þér og vill hjálpa þér.


Manstu þegar þú.....?



Já, manstu þegar þú mættir Guði í fyrsta sinn, þegar þú fannst snertingu hans? Kannski var það þegar þú frelsaðist, eða við ferminguna þína þegar þú játaðir það að vilja hafa Jesú Krist sem leiðtoga lífs þíns....? Eða þegar þú hafðir fjarlægst Guð og fannst þú vera misheppnuð/aður og taldir að hann hefði ekki lengur vanþóknun á þér, en þá heyrðir þú um kærleika hans og vilja til að fyrirgefa þér....? Já, manstu þetta? Þá varpaðir þú þér í fang hans og þú FANNST kærleika hans og fyrirgefningu. Mörg eigum við slíkar minningar, en kannski er langt um liðið og fennt í sporin? En þegar atburðurinn átti sér stað (forðum daga), þá varst þú ekkert nema einlægnin, og upplifunin af snertingu og kærleika Guðs svo sterk og raunveruleg. Mig langar að spyrja þig: Átt þú enn vissuna um að það var góður Guðs sem snerti við þér, tók við þér, fyrirgaf þér og blessaði þig....? Eða ertu kannski farin/inn að efast...? Ertu hugsanlega farin/inn að telja þér trú um að þetta hafi bara verið barnaskapur og tilfinningasemi? Að þetta hafi, þegar öllu er á botninn hvolft, ekki verið Guð, heldur þínar eigin ímyndanir og tilfinningar? Af hverju ættir þú að hugsa þannig? Er djöfullinn e.t.v. að reyna að ræna þig blessuninni og góðu minningunum sem Guð ætlaði þér að varðveita sem fjársjóð til að láta endast allt lífið og minna þig á elsku hans og trúfesti?

Sjálfur á ég nokkrar slíkar dýrmætar minningar sem ég rifja upp af og til, minningar sem eru mér meira virði en flestar aðrar. Ég ætla ekki að láta djöfulinn ræna mig þeirri blessun. Hann skal ekki geta talið mér trú um að það sem þá gerðist hafi verið hugarburður og upplifun sem bara byggðist á stemmingu líðandi stundar, nei, takk! Þessar dýrmætu minningar mínar ætla ég að varðveita í hjarta mér (og heila!) meðan ég hef vit og heilsu til. Þær eru mér sönnun þess að Guð faðir elskar mig og er virkilega annt um mig. Ég er honum kær sonur sem hann hefur velþóknun á. Velþóknun Guðs byggist ekki á einhverjum mannlegum verðleikum hjá mér, ef svo væri, gæti ég átt von á því að hann snéri sér að öðrum þegar ég gerði mistök og ylli honum vonbrigðum. Nei, þannig er Guð ekki. Hann elskar án skilyrða. Úff! hvílíkur léttir, að ég skuli ekki þurfa að koma mér í mjúkinn hjá honum með “góðri” frammistöðu.... þó að hún í sjálfu sér spilli ekki.

En aftur að því sem ég var að tala um: Góðu minningunum, -minningunum um það þegar Guð gerði eitthvað mjög sérstakt í lífi þínu. Rifjaðu það upp. Skrifaðu það hjá þér (þá getur þú betur rifjað það upp!). Mundu: Guði þykir vænt um þig og hann mætti þér á þann hátt sem hentaði þér. Og hann vill að þú rifjir það upp og minnir þig á að hann elskar þig enn og er ennþá með þér til að blessa þig og gera þig að blessun fyrir aðra.

Væntanlegt biskupskjör

Þjóðkirkjan þarf á traustum og friðsömum manni að halda í biskupsembættið.  Nóg er komið af átökum. Leggja verður til hliðar deilur um hjúskap og stöðu samkynhneigðra, feminisma og önnur slík tískufyrirbæri. Kirkjan hefur mikilu mikilvægara hlutverki að gegna en að standa í baráttu fyrir minnihlutahópa sem vilja fara annarlegar leiðir og berjast fyrir hlutum sem sum eru í andstöðu við kristna og biblíulega siðfræði og mynd fjölskyldunnar.  Nú þarf aðila sem finnur leiðir til að vekja aftur traust fólks á kirkjunni með friðsamlegri, framsækinni og traustvekjandi framkomu.  

Deilur um alls konar pólitísk efni og hamagangur til að koma fram einhverjum sérhagsmunamálum kemur ekki að gagni við útbreiðslu trúarinnar. Nú þarf nýtt átak til boðunar hinna sígildu og sönnu grunnatriða trúarinnar -kjarnatriðið sjálfs fangaðarerindinsins um að Jesús er frelsari frá synd og dauða og sá sem kallar okkur til helgunar og til að vera útrétt hönd til friðar og kærleiksverka.  


Jól, hátíðin þegar allir vilja vera góðir, eða hvað?

Ég fór að hugsa um það áðan, hvernig jólin eru öðruvísi en aðrar hátíðir. Þá vilja allir vera góðir við aðra, gleðja þá og vera vingjarnlegir. Eru þetta áhrif frá hinum hrekkjóttu jólasveinum, Grýlu eða Leppalúða? Nei, ég held að enginn sé þeirrar skoðunar. Ég tel að við förum flest nærri því að svarið sé hin fagra og ljúfa saga guðspjalls Lúkasar um fæðingu hins saklausa og góða jólabarns -Jesú frá Nasaret.

Er þetta ekki umhugsunarvert? Hátíð kærleikans er hin kristnu jól. Sólstöðuhátíðin -hin fornu jól heiðinna forfeðra okkar, vekur ekki þessar tilfinningar með okkur. Í þjóðfélagi þeirra manna gilti hefnd og fyrirgefning var ekki "hátt skrifuð". Náðin og sannleikurinn kom hins vegar meðJesú Kristi, segir í jólaguðspjalli Jóhannesar postula Jesú.

Verum þakklát fyrir okkar kristnu trú. Látum gildi hennar -kærleika, miskunnsemi,fyrirgefningu, hógværð, sáttfýsi og virðingu fyrir manneskjunni- svo nokkur séu nefnd "gildna" okkar á meðal. Eflum þau í einkalífinu og í garð annarra, þá verður þjóð okkar áfram kristin og fær að njóta góðra ávaxta af lífi hans sem fæddist í fátækt og hógværð í Betlehem forðum, hann sem var og er Immanúel -Guð okkar á meðal.

Gleðileg jól!


Næsta síða »

Um bloggið

Friðrik Schram

Höfundur

Friðrik Agnar Ólafsson Schram
Friðrik Agnar Ólafsson Schram
Guðfræðingur og prestur Íslensku Kristskirkjunnar
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • fridrikschram 1125153.gif

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 6698

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband